03.12.1975
Neðri deild: 20. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 988 í B-deild Alþingistíðinda. (614)

Umræður utan dagskrár

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég ætla fyrst að beina tilmælum til hæstv, dómsmrh. Það eru tilmæli til hæstv. dómsmrh. sem ég vil beina til hans í fullri vinsemd. Það er þannig með okkur, sem sitjum þarna úti í horninu, að við eigum oft erfitt með að heyra hvað hæstv. ráðh. segir. Það eru tilmæli okkar að hann tali ofurlítið hærra. Þetta er einkum áberandi þegar um er að ræða rólegar umr. eins og hafa átt sér stað hér núna. Þetta er ekki alveg eins slæmt þegar fýkur svolítið í hæstv. ráðh. (Gripið fram í.) Já, mér litist vel á að þeir færu báðir í meðaltal. Ég heyri að hæstv, ráðh. tekur vinsamlega undir þessi tilmæli.

Hér hefur verið rætt um það, sem ráðh. kallar sjúkraflutninga aðstoðarskipanna bresku og fundið að ýmsu í sambandi við þá. Ég tel að iðulega sé um að ræða og reyndar í öllum tilfellum, sem hér hafa verið nefnd, hafi verið um að ræða aðstoð við menn sem hefði verið hægt að hjúkra um borð í þessum skipum. Miranda og Othello eru hvort tveggja það sem bretar nefna spítalaskip. Þar er aðstaða til þess að gera að fótbrotnum mönnum t. d. eða handleggsbrotnum, og ef skipstjórar þessara skipa halda því fram að þeir geti ekki gert það um borð, þá sýnist mér ósköp einfalt mál að benda þeim á að sigla með þessa menn heim til sín eða til færeyja, eins og eitt af herskipunum gerði um daginn þegar það var statt, að ég hygg, út af Hvalbak. Það urðu alvarleg slys á mönnum þar, og stysta leiðin hefði að sjálfsögðu verið í íslenska höfn, en herskipið fór til Færeyja. Það var að sjálfsögðu vegna þess að þetta var herskip. Þeir telja að eitthvað annað gildi um aðstoðarskipin. Ég er á því að endurteknar óskir þeirra um að fá að koma hér inn með menn séu ekki alltaf það sem hæstv. ráðh. nefndi gamansögu. Þetta hefur vissa þýðingu fyrir þá í áróðrinum. Lítið þið bara á, svona er íslendingum mikil alvara. Það fótbrotnar hjá okkur maður, og það er ekkert sjálfsagðara en að opna allar hafnir fyrir aðstoðarskipum okkar og taka við þessu fólki.

Hv. þm. Jón Skaftason minntist hér á pokann, sem Árvakur klippti aftan úr trollinu á Port Vale í gærmorgun, að það mundi vera gott að nota þessa vörpu í áróðri okkar gegn andstæðingum okkar. Hann talaði í því sambandi um að gera sjónvarpskvikmynd og sýna þar vörpuna. Ég sé nú miklu einfaldara ráð. Það er að fara með þessa vörpu til Englands, og í þessu sambandi vil ég fullyrða það hér að því fer fjarri að notuð séu öll tækifæri sem okkur gefast úti í Englandi til þess að koma á framfæri sjónarmiðum okkar í landhelgismálinu. Mín reynsla af síðasta þorskastríði er sú, að breskir blaðamenn, bæði þeir, sem vinna við dagblöðin, og einnig þeir, sem vinna við sjónvarp, voru ótrúlega opnir fyrir upplýsingum okker og fúsir að koma þeim á framfæri. Þetta verð ég að segja bresku lýðræði til hróss, bresku skoðanafrelsi. Ég segi það alveg eins og er, að ef ég mætti ráða, þá yrði farið með þessa vörpu, ekki kannske til London, en þó fyrst og fremst til Grimsby. Mikið væri nú gaman að fá að vera með í þeirri ferð. Og það er enginn vandi að sannfæra Grimsbymenn um það, hvaðan þessi varpa sé komin. Þeir munu áreiðanlega þekkja þennan poka af vörpunni sem var fóðraður, eins og sjómenn kalla það. Það er enginn vandi — (BGr: Heldurðu að það fengist hús til þess að sýna hann?) Ja, það er enginn vandi að sýna hann þá niðri á dokkunum, og ég er ekkert hræddur um að mönnum yrði þá hent í sjóinn. Ég treysti mér a. m. k. til þess að fara þessa ferð, og ég gæti vel trúað því að hv. þm. Benedikt Gröndal — við höfum farið saman áður — vildi gjarnan koma með mér. Ég veit það líka af upphringingu sem ég hef fengið frá sjónvarpsstöðvum á þessu svæði. Það eru aðallega þrjár stöðvar: fyrst og fremst náttúrlega breska sjónvarpið sjálft, BBC, síðan Yorkshire Television sem er í Leeds og nær yfir svæði sem kallað er Humberside, þar eru þessar borgir, Grimsby og Hull, og síðan Anglia-sjónvarpið. Frá þessum aðilum hefur verið haft samband við mig nú eftir að þetta seinna þorskastríð byrjaði og ég er alveg sannfærður um að ef við héldum blaðamannafund í Grimsby — við getum líka haft hann í Hull — með þessa vörpu til þess að sýna þessu fólki, þá mundi ekki standa á þessum sjónvarpsmönnum að koma á framfæri því sem við vildum segja í sambandi við þetta.