16.10.1975
Neðri deild: 7. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í B-deild Alþingistíðinda. (65)

2. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Hæstv. forseti. Þegar gildandi lög um Framkvæmdastofnun ríkisins voru sett haustið 1971 urðu miklar deilur um þá lagasetningu. Um hana var rætt mikið og lengi í báðum d. hv. Alþ. og í fjh- og viðskn. deildanna. Ákvæði hafði verið um það í stjórnarmyndunarsamningi ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar að koma skyldi slíkri stofnun á fót. Stjórnarflokkarnir þáv. virtust sammála um að koma ætti slíkri stofnun á fót, enda var frv. flutt sem stjórnarfrv. Stjórnarandstöðuflokkarnir, sem þá voru flokkur minn, Alþfl., og Sjálfstfl., reyndust hins vegar líta talsvert ólíkum augum á þetta mál.

Afstaða Alþfl. grundvallaðist í aðalatriðum á eftirfarandi atriðum :

Við töldum meginstefnu frv. um Framkvæmdastofnun ríkisins vera framhald á þeirri áætlanagerð sem upp hafði verið tekin og efld smám saman á undanförnum áratug, á árunum 1960–1970. 1962 hafði verið komið á fót Efnahagsstofnun sem annast skyldi margs konar áætlanagerð og vera ríkisstj. til ráðuneytis í efnahagsmálum. Sú stofnun átti að verða hluti af Framkvæmdastofnun ríkisins, eins og frv. var. Framkvæmdabanka Íslands, sem stofnaður hafði verið 1953, hafði alllöngu síðar verið breytt í Framkvæmdasjóð sem lánaði fé til stórra og mikilvægra framkvæmda. Komið hafði verið á fót Atvinnujöfnunarsjóði sem skyldi hafa það sérstaka hlutverk að lána fé til framkvæmda utan Reykjavíkursvæðisins, þ. e. a. s. gegna byggðastefnuhlutverki. Þessa tvo sjóði átti að sameina í einni deild Framkvæmdastofnunar ríkisins. Enn fremur var ætlast til þess að Framkvæmdastofnunin tæki að sér ýmis verkefni sem einstök rn. höfðu unnið að á áratugnum 1960–1970, margs konar áætlanagerðarverkefni.

Höfuðverkefni Framkvæmdastofnunarinnar átti að vera samning þjóðhags- og framkvæmdaáætlunar fyrir þjóðarbúið í heild, framkvæmdaáætlanir um einstaka þætti í þjóðarbúskapnum, áætlanir um opinberar framkvæmdir, framkvæmdaáætlanirnar svonefndu. Það átti að halda áfram því sem þegar hafði verið gert á undanförnum áratug, að gera áætlun fyrir einstakar iðngreinar. Það hafði verið samin áætlun um þróun iðnaðar, slíku verki átti að halda áfram. Það hafði verið samin samgönguáætlun fyrir Vestfirði og Austurland. Það hafði verið samin atvinnuáætlun fyrir Norðurland. Það hafði verið samin áætlun um framkvæmdir á sviði menntamála. Það hafði átt sér stað víðtæk gagnasöfnun um íslenskan landbúnað. Allri þessari starfsemi átti að halda áfram skv. ákvæðum frv. um Framkvæmdastofnun ríkisins. Efnahagsstofnunin hafði verið ríkisstj. til mikilvægs ráðuneytis varðandi mótun stefnu í efnahagsmálum og ekki aðeins ríkisstj., heldur einnig t.d. Verðlagsráði sjávarútvegsins, sem gegndi mjög mikilvægu hlutverki í íslensku hagkerfi, og ekki hvað síst aðilum vinnumarkaðarins. Efnahagsstofnuninni hafði tekist að ávinna sér traust beggja aðila vinnumarkaðarins, launþega annars vegar og vinnuveitenda hins vegar. Þessu starfi öllu átti að halda áfram í hinum þremur deildum Framkvæmdastofnunarinnar sem vera skyldi áætlanadeild sem annast skyldi áætlunarstarfsemina, lánadeild sem skyldi annast lánveitingar Framkvæmdasjóðs og Atvinnujöfnunarsjóðs og hagrannsóknadeild sem annast skyldi hreina rannsóknastarfsemi og vera ríkisstj. til ráðuneytis um atmenna stefnumörkun í efnahagsmálum.

Að vissu leyti töldum við í Alþfl., að þetta frv. væri til bóta frá þeirri skipun sem áður hafði verið, einkum að því leyti að gert var ráð fyrir sameiningu Framkvæmdajóðs og Atvinnujöfnunarsjóðs í lánadeild Framkvæmdastofnunarinnar. Öll þessi starfsemi hafði verið tekin upp á þeim árum þegar um var að ræða stjórnarsamstarf á milli Sjálfstfl. og Alþfl., en það stjórnarsamstarf varði, eins og öllum er kunnugt, í þrjú heil kjörtímabil eða 12 ár. Og vegna þess að það virtist vera aðalefni þessa lagafrv. frá 1971 að halda þessari starfsemi áfram, þá töldum við þm. Alþfl. einsætt að okkur bæri að styðja meginstefnu frv. Og þess vegna kom okkur á óvart að hinn stjórnarandstöðufl., sem áður hafði verið samstarfsfl. okkar í ríkisstj. og viðhaft fulla samstöðu um að byggja áætlanagerðina og rannsóknastarfsemina upp, skyldi reynast mjög neikvæður, jafnvel gagnvart sjálfri meginstefnu frv., enda kom á daginn að hann greiddi atkv. gegn frv. þegar það kom til endanlegrar afgreiðslu.

Við þm. Alþfl. töldum að vísu vera nokkurn galla á því skipulagi sem gert var ráð fyrir í Framkvæmdastofnuninni að rannsóknastarfsemin, þ.e. starfsemi hagrannsóknadeildarinnar, skyldi eiga að lúta venjulegri stjórn Framkvæmdastofnunarinnar, eins og hún var skipuð og ég mun síðar koma að, og beittum okkur því fyrir því og náðum samkomulagi við þáv. ríkisstj. um það að starfsemi hagrannsóknadeildarinnar skyldi fá þá sérstöðu innan Framkvæmdastofnunarinnar að hún heyrði beint undir ríkisstj., en ekki undir hina þingkjörnu stjórn stofnunarinnar og hina pólitísku framkvæmdastjóra. Um þetta var Sjálfstfl. okkur Alþfl.- mönnum sammála og um þetta varð — sem betur fer, vil ég segja — allsherjarsamkomulag. Það að þetta var rétt stefna haustið 7.971 kom svo greinilega fram í því að á síðasta þingi var borið fram stjfrv. um að gera hagrannsóknadeildina algerlega sjálfstæða, þ. e. a. s. gera úr henni Þjóðhagsstofnun sem hefur nú í meira en ár heyrt beint undir forsrh. Það var sú skipun sem við hefðum helst kosið veturinn 1971–72, en svo stórt spor var þá ekki stigið. Ég fagna því að það skuli nú hafa verið stigið og Þjóðhagsstofnunin er nú orðin algjörlega sjálfstæð stofnun sem lýtur yfirstjórn hæstv. forsrh.

Okkur þáv. stjórnarandstöðufl. greindi á um frv., um meginatriði frv., að því er virtist. Gagnrýni Sjálfstfl. var fyrst og fremst byggð á því að hér væri efnt til a. m. k. hættu á ótímabærri og varhugaverðri íhlutun hins opinbera nm málefni ríkisins. Við töldum hins vegar að ekki væri meiri hætta á óeðlilegri íhlutun ríkisins af hálfu þessarar stofnunar en þeirrar stofnunar sem áður hefði farið með hliðstæð verkefni. En þó að við værum ósammála um þessi atriði, þá vorum við sammála um eitt atriði, sem reyndist verða það atriði sem mest var um rætt þegar lögin um Framkvæmdastofnun voru til umræðu hér á hinu háa Alþ., og það var stjórnarfyrirkomulag stofnunarinnar. Við höfðum ekkert við það að athuga, hvorki Alþfl. né Sjálfstfl., sem þá voru stjórnarandstöðufl., að æðsta stjórn stofnunarinnar skyldi vera þingkjörin, að æðsta stjórn skyldi vera í höndum 7 manna þingkjörinnar n. Það töldum við algjörlega eðlilegt að ætti við slíka stofnun sem þessa, enda hliðstæður fyrir því, enda reglan um slíkar stofnanir að æðsta stjórnin sé í höndum þingkjörinnar stjórnar. En það sem var nýtt í þessu frv., það sem var nýmæli í þessu frv. án nokkurrar hliðstæðu og án nokkurs fordæmis, var að í frv. var ákvæði um að framkvæmdastjórn stofnunarinnar skyldi vera í höndum þriggja manna sem tilnefndir væru af ríkisstj., og á móti því var ekki borið í umr. að tilætlunin væri að þessir þrír framkvæmdastjórar skyldu vera hver úr sínum stjórnarfl., einn fulltrúi Framsfl., annar fulltrúi Alþb. og hinn þriðji fulltrúi SF. Um það vorum við þm. þáv. stjórnarandstöðu allir algjörlega sammála að þetta væri stórvarhugavert, hér væri verið að innleiða pólitíska stjórn í stofnun, sem í eðli sínu ætti að lúta stjórn Alþ. sem heildar, en ekki að þar væru sérfulltrúar ríkisstjórnarflokka sem í raun og veru ættu að vera alls ráðandi um það sem gerðist í stofnuninni. En völd þessara pólitísku fulltrúa ríkisstj. í stofnuninni, sem fljótlega í umr, hlutu nafnið „kommissarar“, átti að vera mikið. Það átti að vera úrslitavald. Þessir þremenningar — hinir pólitísku kommissarar — áttu að gera allar áætlanir stofnunarinnar. Þeir áttu að gera tillögur um allar rekstraráætlanir og starfsáætlanir. Þeir áttu að gera tillögur um allar lánveitingar og meira að segja að ráða starfsfólk hinna þriggja deilda stofnunarinnar. Sérfræðilegir forstöðumenn hinna þriggja deilda áttu að vera undirmenn þessara pólitísku fulltrúa og engan tillögurétt hafa um störf deilda sinna og ekki einu sinni að ráða starfsfólki sinu. Þessum ákvæðum var öll þáv. stjórnarandstaða — allir þm. Sjálfstfl. og Alþfl. — algjörlega andvíg. Sameiginleg gagnrýni okkar á frv., það sem 9/10 hlutar af öllum umræðum um frv. í báðum d. og báðum þingnefndum munu hafa staðið um, það voru þessi ákvæði. Þess vegna varð niðurstaðan að þm. Alþfl. annars vegar og Sjálfstfl. hins vegar í fjh.- og viðskn. beggja d. fluttu till., að vísu ekki sameiginlega, en till. sem voru efnislega séð algjörlega eins, um að þessu stjórnarfyrirkomulagi skyldi breytt og ríkisstj. skyldi skipa einn framkvæmdastjóra yfir stofnunina í stað hinna þriggja pólitísku kommissara. (Gripið fram í.) Ég endurtek ekki rök þau sem flutt voru af hálfu Alþfl. fyrir þessum till. og gegn skipun hinna þriggja kommissara. En mig langar til þess að minna á brtt. fulltrúa Sjálfstfl. í hv. fjh.- og viðskn. Nd., því að svo skemmtilega vill til að þeir eru báðir ráðh. í núv. ríkisstj., þeir Matthías Á. Mathiesen og Matthías Bjarnason, en brtt. þeirra hljóðaði þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Að fengnum till. Framkvæmdastofnunar ríkisins skipar ríkisstj. forstjóra stofnunarinnar er hefur yfirumsjón með daglegum rekstri áætlanadeildar og lánadeildar hennar. Forstjórinn og forstöðumenn áætlanadeildar og lánadeildar mynda framkvæmdaráð. Stjórn Framkvæmda stofnunarinnar tekur ákvörðun fyrir hönd stofnunarinnar um launakjör forstjóra, forstöðumanna deilda og annarra starfsmanna.“

Þessari till. greiddu að sjálfsögðu allir þm. Sjálfstfl. og allir þm. Alþfl. atkv., enda var þetta sameiginleg stefna þáv. stjórnarandstöðu, en hún var felld með öllum atkv. þáv. stjórnarflokka.

Til þess að minna á röksemdafærslu Sjálfstfl. 1971 í þessu máli — ég endurtek ekki okkar eigin röksemdafærslu, það tel ég ástæðulaust, — þá vil ég leyfa mér að vitna til nál. fulltrúa Sjálfstfl. í fjh.- og viðskn. Ed., en þeir voru núv. hæstv. forsrh. og Halldór Blöndal, en þeir sögðu í nál. sinu, með leyfi hæstv. forseta:

„Í stað Efnahagsstofnunarinnar, sem lýtur stjórn embættismanna undir beinni yfirstjórn forsrh. og í nánum tengslum við aðra ráðh., á að setja á stofn Framkvæmdastofnun ríkisins. Verður hún geysilegt bákn sem lúta skal daglegri stjórn þriggja pólitískra eftirlitsmanna stjórnarflokkanna sem hlotið hafa heitið „kommissarar“ manna á meðal að austrænni fyrirmynd. Til marks um það ofurvald, sem þessum pólitísku „kommissörum“ er veitt í frv., er að verksvið þeirra er ekki skilgreint til neinnar hlítar og ekki verður annað séð en þeim einum sé ætlað að gefa umsagnir um einstakar lánsumsóknir frá einkaaðilum eða sveitarfélögum og fái þannig vald til að „raða“ umsóknum að vild. Geta þeir þannig í framkvæmdinni haft sömu óheillaáhrifin á athafnalífið í landinu og lamandi haftakerfi hefur áður haft. Ef ekki er verið að sækjast eftir slíkum pólitískum afskiptum af atvinnulífinu væru hinir pólitísku „kommissarar“ með öllu óþarfir. Af þeim ástæðum er lagt til á þskj. 156 að í stað þeirra fari forstöðumenn deilda með daglega stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins, enda er það eðlilegast að sérmenntaðir menn og hlutlausir hafi það starf með höndum, þar sem pólitísk afskipti af útlánum til fjárfestingar í atvinnulífinu eru óæskileg. Þar á að leggja hlutlaust hagkvæmnismat til grundvallar.“

Hér er hvert orð bæði myndarlega og rétt mælt. Fulltrúar Alþfl. í Ed., þm. hans, gátu að sjálfsögðu algjörlega tekið undir þessa röksemdafærslu og fluttu raunar hliðstæð rök af sinni hálfu, rétt eins og rök okkar, sérstaklega okkar hv. þm. 1. þm. Suðurl. og mín, hér í hv. Nd. voru að þessu leyti fullkomlega samhljóða og auðvitað algjörlega rétt.

Nú gerist það að mynduð er ný ríkisstj. að afstöðnum kosningum á sumrinu í fyrra, og eins og við var að búast var tekið ákvæði í málefnasamning þeirrar ríkisstj. að þessir stórhættulegu vankantar á skipulagi framkvæmdastjórnarinnar skyldu af því sniðnir. Þetta skildu auðvitað allir þannig að afnema ætti lagaákvæðin frá 1971 um „kommissarana“ og hið mikla og hættulega vald þeirra.

Þetta var eitt af þeim atriðum í málefnasamningnum sem sérstök ástæða var til þess að fagna, enda fögnuðu því, held ég, allir góðir og heiðarlegir menn í landinu og hlökkuðu til þess að sjá frv. frá hæstv. ríkisstj. þegar á sl. hausti um að þetta hættulega lagaákvæði skyldi úr gildi numið og í stað þriggja pólitískra „kommissara“ í framkvæmdastjórninni kæmi vel hæfur og vel menntaður sérfræðingur. En hvað gerðist? Ekkert slíkt frv. sá dagsins ljós á s. l. hausti. Á hinn bóginn gerðist það, — mér er ekki alveg ljóst hvort „kommissararnir“ tveir, sem tilheyrðu flokkum sem nú voru orðnir stjórnarandstöðufl., sögðu af sér eða hvort þeim var sagt upp störfum. Það hefur hvergi verið upplýst opinberlega, að því er ég best veit, enda skiptir það raunverulega ekki máli. Staðreyndin er sú að fulltrúar Alþb. og SF létu af störfum í stofnuninni. Það er mergurinn málsins. En það sem gerðist var að þriðji fulltrúinn, fulltrúi annars núv. stjórnarfl., Framsfl., lét ekki af störfum. Hann sat sem fastast, en í stað hinna tveggja kom nýr „kommissar“, fulltrúi frá Sjálfstfl., þá væntanlega skipaður af forsrh. M.ö.o.: í stað þriggja pólitískra „kommissara“ komu nú tveir pólitískir „kommissarar“. Látum vera þó að sá, sem hafði setið áður, hafi setið kyrr. Hans flokkur taldi sig eiga rétt á að eiga þarna pólitískan „kommissar“, og látum það vera þó að hann hafi setið kyrr á sínum stað. En það undarlega, sem gerðist, var að í stað þeirra tveggja hættulegu pólitísku „kommissara“, sem viku úr stofnuninni, kom nýr kommissar, nú vil ég ekki segja hættulegur því að með því væri ég að yfirfæra orð hæstv. núv. forsrh. yfir á starf hans í stofnuninni. (Gripið fram í.) Ég skal láta duga að rifja upp það sem sagt hefur verið, en geri engin þau orð að mínum um þá einstaklinga sem hér eiga hlut að máli.

Auðvitað hlaut alla að reka í rogastans við þetta, að eingöngu við stjórnarskipti skuli stjórnkerfi, sem áður var talið óverjandi og óþolandi og meira en það: sem áður var talið stórhættulegt, stórvarhugavert sem stjórnkerfi, vera framlengt, eingöngu vegna þess að skipt er um ríkisstj., eingöngu vegna þess að kostur er á því að skipa nýjan mann í stað manns eða manna áður. Hér er um að ræða alvarlegan hlut, ekki hvað síst þegar það fylgdi að ekki var bara skipt um pólitísku „kommissarana“, heldur líka skipt um formann í stjórn stofnunarinnar og sá kross lagður á herðar aðalgagnrýnanda frv. haustið 1971, hv. 1. þm. Suðurl., að taka að sér að verða formaður í stjórninni og standa þannig fyrir því, eiga þannig hlut að eða bera þannig ábyrgð á því að gerspilltu og stórhættulegu kerfi væri viðhaldið. Ég hefði satt að segja eftir 12 ára samstarf unnað honum miklu, miklu betra hlutskiptis en þess að hljóta þá niðurlægingu að taka við formennsku í stofnun og bera þannig ábyrgð á stjórnkerfi sem hann sjálfur í tugum setninga og tugum ummæla hér í þessari hv. d. var búinn að fordæma sem hættulegt og varhugavert og í raun og veru siðspillandi. (Gripið fram í: Forsrh. skipaði hann.) Já, það er alveg rétt, svo að hann kemst ekki undan allri ábyrgðinni á þessu öllu saman.

Ég er því búinn að gera grein fyrir efni málsins og þá um leið fyrir ástæðu þess að þegar síðasta þing leið án þess að ríkisstj. sýndi nokkra tilburði til þess að gera breyt. á þessu, þá fluttum við þm. Alþfl. hér í hv. d. frv. um þessa breytingu. Við höfðum að vísu heyrt að ríkisstj. hefði skipað n. til þess að semja frv. um breyt. á l. um Framkvæmdastofnunina, en það frv. hefur ekki séð dagsins ljós. Ástæðan hlýtur að vera annaðhvort sú, að ágreiningur er um breytinguna milli stjórnarflokkanna eða innan stjórnarflokkanna. Ég veit ekki hver er rétta skýringin, en vonandi verður það upplýst í þeim umr. sem hér fara fram á eftir.

Þetta frv. kom til einnar umr. og var vísað til n., en var ekki afgr. frá n. og hlaut því ekki afgreiðslu á síðasta þingi. Við þá umr. boðaði ég, þar eð fyrirsjáanlegt var að þannig mundi fara, að við þm. Alþfl. mundum í upphafi næsta þings flytja sams konar frv. um breytingu á því spillingarkerfi sem þarna er um að ræða samkv. samdóma áliti Sjálfstfl. og Alþfl. í des. 1971. Þess vegna er þetta frv. nú flutt.

En síðustu orð mín í þessu sambandi skulu vera þau að varpa fram þeirri spurningu, því að það held ég að hafi almenna þýðingu fyrir Alþ. og íslenska stjórnmálabaráttu, íslenskt þjóðlíf yfir höfuð að tala: Hvað er hér á ferðinni? Hvað hefur í raun og veru verið að gerast? Hefur það verið að gerast að kosningaloforð, sem gefin voru, hafi ekki verið efnd? Við þekkjum ótal dæmi um það frá allri öldinni, úr öllum kosningum, að það eru gefin kosningaloforð sem ekki eru efnd. Auðvitað er það ekki til fyrirmyndar, en það er ekkert nýtt sem þar er á ferðinni. Það hefur átt sér stað oft. Oft eru kosningaloforð gefin í hita kosningabaráttu sem allir gera sér ljóst að ekki er hægt að standa við og í því er ekkert nýtt.

Það má spyrja: Er hér um það að ræða að gefin sé yfirlýsing í stjórnarsamningi sem er framkvæmanleg? Það eru margar yfirlýsingar gefnar í stjórnarsamningum. Þegar ólíkir flokkar semja um myndun samsteypustjórnar, þá semja þeir um hluti sem þeir eru e. t. v. allir af vilja gerðir að hrinda í framkvæmd, en reynist óframkvæmanlegt. Til þess eru fjölmörg dæmi og í sjálfu sér ekki verulega umtalsvert, þó að hægt sé að sýna fram á ákveðin dæmi um þetta efni. Þetta gerist og getur átt sér algjörlega eðlilegar skýringar, rétt eins það að þm. gefur kosningaloforð sem hann síðar reynist ekki fær um að koma fram.

Það er hvorugt af þessu að ræða, heldur miklu, miklu alvarlegri hlut. Hér er um það að ræða í fyrsta lagi að stærsti flokkur þingsins hefur mjög ákveðna skoðun sem hann lætur í ljós í tillögugerð fyrir 4 árum á mjög mikilvægu máli, á máli sem kalla má stórmál. Hann hefur ákveðna skoðun á stjórnskipun eða stjórnarfyrirkomulagi einnar mikilvægustu stofnunar þjóðfélagsins og telur hana vera hættulega, varhugaverða, jafnvel bjóða upp á verulega spillingu. Svo gerist það að flokkurinn vinnur stóran kosningasigur og fær tekið upp í stefnuskrá ákvæði um að þessum ákvæðum í skipun þessarar mikilvægu stofnunar skuli breytt. Engum dettur í hug að það hafi ekki verið mögulegt á síðasta þingi, ekki framkvæmanlegt, eins og á við um ýmsar efnahagsráðstafanir, að gera þá lagabreytingu sem hér er um að ræða og er breyting á stjórnskipulagi eða stjórnarfarslegs eðlis. Samt er það ekki gert. Hvernig ber að túlka þetta? M. ö. o.: stjórnmálaflokkur á Alþ. hefur eina stefnu þegar hann er í stjórnarandstöðu varðandi mjög mikilvægt mál, þegar hann sjálfur fær aðstöðu til að framkvæma þá stefnu sína, þá svíkst hann um það, þá gerir hann það ekki, þá bregst hann því. Það, sem var rangt 1971, það er orðið rétt haustið 1974. Af hverju? Af því að um völd er að tefla. Af því að hér var um það að ræða að taka til sín völd í mikilvægri stofnun, og þá var það gert án tillits til allra orða og yfirlýsinga, án tillits til allra orða og eiða sem áður höfðu verið yfir hafðir. Það er þetta sem er varhugavert. Þegar flokkur myndar stjórn, þá gleymir hann fyrri orðum og yfirlýsingum sínum þótt um sé að ræða atriði sem engum getur blandast hugur um að vandalaust væri að framkvæma, sem enginn efnahagsvandi er í sambandi við framkvæmdina á.

Ég er ekki með þessum orðum mínum að gagnrýna starfshæfni þess manns sem Sjálfstfl. tilnefndi sem pólitískan „kommissar“ í Framkvæmdastofnunina. Það er mér vel kunnugt að fornu og nýju að hann er vel hæfur maður einmitt til slíkra starfa. Ég er auðvitað enn þá síður að draga í efa að 1. þm. Suðurl. sé hæfur til að vera formaður í þingkjörinni stjórn. Hann hefur verið formaður í mörgum þingkjörnum stjórnum áður og hann er út af fyrir sig eflaust fær um að gegna því starfi. Það er hugsunarhátturinn sem ég er að fordæma, sá hugsunarháttur að hægt sé að segja eitt, gefa yfirlýsingar um eitt meðan menn eru í stjórnarandstöðu og gera svo annað í stjórn eingöngu fyrir valdanna sakir.

Ég læt ekki hjá líða að nefna það að auðvitað hafi eitthvað verið til í því að hætta hafi verið á pólitískri spillingu hjá „kommissörunum“ 1971, þeim þremur sem þá voru. Þá mundi margur segja að enn meiri hætta væri á henni þegar báðir eru úr sama kjördæminu, eiga sömu kjördæmishagsmuna að gæta. Með þessu er ég ekki að drótta neinu að þeim persónulega um að þeir misnoti aðstöðu sína, en vægast sagt er þetta ósmekklegt, að æðstu yfirmenn lánastofnunar, lánadeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins, skuli báðir vera þingfulltrúar, sinn úr hvorum stjórnarflokknum, fyrir sama kjördæmi. Hér er enn um að ræða spurningu sem er siðferðilegs eðlis, eins og sú sem ég var að tala um áðan.

Sannleikurinn er sá, — og það skulu vera síðustu orð mín að þessu sinni a. m. k., — sannleikurinn er sá að íslenskir stjórnmálaflokkar mega ekki við því háttalagi sem Sjálfstfl. hefur hér gert sig sekan um. Út af fyrir sig er mér sama um örlög hans, eins og við er að búast. En íslenskir stjórnmálaflokkar yfir höfuð að tala, íslensk stjórnmál mega ekki við því að slíkt gerist eins og það sem gerst hefur í þessu máli Framkvæmdastofnunar ríkisins. Ef íslenskir stjórnmálaflokkar hætta að njóta sæmilegs trausts og sæmilegrar virðingar hjá almenningi, þá færist það smám saman yfir á Alþ., sem æðstu löggjafarstofnun þjóðarinnar. Í þessum efnum hefur Sjálfstfl. með háttalagi sínu stuðlað mjög að því að álit almennings á stjórnmálaflokkum rýrni, þar sem valdbeiting hefur verið tekin fram yfir stefnu og fyrri yfirlýsingar. Þetta rýrir ekki aðeins álit Sjálfstfl., heldur stjórnmálabaráttunnar yfir höfuð að tala, og þetta spillir áliti Alþ., en við því má ekki Alþ. , við því má ekki íslenska þjóðin.