08.12.1975
Neðri deild: 24. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1002 í B-deild Alþingistíðinda. (656)

91. mál, umferðarlög

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Efni þess frv., sem hér liggur fyrir og fjallar um breyt. á umferðarlögum, er það, að inn í þau lög verði fellt ákvæði um sérstaka fjáröflun til umferðarslysavarna, þ. e. að af iðgjaldatekjum vátryggingarfélaga vegna lögboðinna ábyrgðartrygginga ökutækja renni 11/2 % til þessa verkefnis og renni framlagið til Umferðarráðs.

Í frv. til l. um breyt. á umferðarlögum, sem lá fyrir Alþ. veturinn 1973–1974, voru ákvæði sama efnis og í frv. þessu, en ákvæðið var þá fellt út úr frv. í meðförum þingsins. Með breyt. á umferðarlögum árið 1970 voru lögfest ákvæði um Umferðarráð, sem sett hafði verið á stofn í ársbyrjun 1969 í beinu framhaldi af starfsemi Framkvæmdanefndar hægri umferðar sem þá lét af störfum. Umferðarráð er skipað 16 mönnum skipuðum af dómsmrh, til 3 ára í senn. Eiga eftirtaldir aðilar rétt samkv. 83. gr. umferðarlaga á að tilnefna einn fulltrúa í ráðið og annan til vara: Bandalag ísl. leigubifreiðastjóra, Bifreiðaeftirlit ríkisins, Bindindisféleg ökumanna, dóms- og kirkjumrn., Félag ísl. bifreiðaeigenda, fræðslumálastjórn, það er nú menntmrn., Landssamband vörubifreiðastjóra, Landssamtök klúbbanna „Öruggur akstur“, Reykjavíkurborg, ríkislögregla, lögreglustjórinn í Reykjavík, Samband ísl. sveitarfélaga, Samband ísl. tryggingafélaga, Slysavarnafélag Íslands, Vegagerð ríkisins og Ökukennarafélag Íslands. Dómsmrh. skipar formann Umferðarráðs án tilnefningar, en varaformann skipar hann úr hópi ráðsmanna.

Hlutverk Umferðarráðs er skilgreint í 84. gr. umferðarlaganna og skal það vera sem hér segir:

1. Að beita sér fyrir því að haldið sé uppi umferðarfræðslu í landinu.

2. Að vera fræðsluyfirvöldum, umferðarnefndum sveitarfélaga og samtökum, er vinna að bættri umferðarmenningu, til hjálpar og ráðuneytis eftir því sem óskað er og aðstæður leyfa.

3. Að standa fyrir útgáfu fræðslurita og bæklinga um umferðarmál og hafa milligöngu um útvegun kennslutækja og annarra gagna til nota við fræðslustarfsemi.

4. Að hafa milligöngu um umferðarfræðslu í Ríkisútvarpi (hljóðvarpi og sjónvarpi) og öðrum fjölmiðlunartækjum.

5. Að beita sér fyrir bættum umferðarháttum.

6. Að sjá um að á hverjum tíma sé til vitneskja um fjölda, tegund og orsakir umferðarslysa í landinu.

7. Að vera stjórnvöldum og öðrum til ráðuneytis um umferðarmál.

8. Að fylgjast með þróun umferðarmála erlendis og hagnýta reynslu og þekkingu annarra þjóða á því sviði.

9. Að leitast við að sameina sem flesta aðila til samstilltra og samræmdra átaka í umferðarslysavörnum og bættri umferðarmenningu.

Eins og af þessari upptalningu má sjá, er hlutverk Umferðarráðs æði margþætt og er því mikið undir því komið að það hafi viðunandi fjárráð til að geta sinnt þessari víðtæku starfsemi sem því er ætluð.

Þegar ákvæði um Umferðarráð voru lögfest, voru ekki ákvæði um fjármögnun til starfsemi ráðsins, en gert ráð fyrir því að sá kostnaður yrði greiddur úr ríkissjóði að því leyti sem aðrir aðilar stæðu ekki undir honum.

Það verður að segja það eins og það er, að frá upphafi hefur fjárskortur sett nokkuð mót sitt á starfsemi Umferðarráðs og hefur það því ekki getað framkvæmt hlutverk sitt nema að takmörkuðu leyti. Hins vegar er óumdeilanlegt, að ég hygg, að það verkefni, sem Umferðarráð hefur getað sinnt fram til þessa, hefur stuðlað að bættri umferðarmenningu og átt sinn þátt í því að draga úr slysum í umferðinni og vekja vegfarendur til umhugsunar um umferðaröryggismál og þann mikla vanda sem á því sviði er við að stríða.

Það er ekki hægt hér að telja upp öll þau verkefni sem Umferðarráð hefur haft með höndum á undanförnum árum, en ég skal þó aðeins drepa á fáein þeirra.

Árlega hafa verið gerðar skýrslur um umferðarslys í landinu samkv. lögregluskýrslum, þar sem fram kemur fjöldi umferðarslysa skipt eftir mánuðum og eftir afleiðingum, þar sem fram kemur fjöldi slysa með dauða og fjöldi slysa með meiðslum svo og fjöldi dáinna og slasaðra, skipting slysa eftir umdæmum, milli þéttbýlis og strjálbýlis, ýmsar aðrar tölulegar upplýsingar um umferðarslys. Upp á síðkastið hafa verið tekin saman mánaðarleg bráðabirgðayfirlit um fjölda umferðarslysa með meiðslum. Þá hefur verið gerð athugun á slysum á börnum í Reykjavík og tekið saman heildaryfirlit um kærur vegna ölvunar við akstur. Sérstök skýrsla hefur og verið gerð um umferðarslys á Reykjanesbraut á árunum 1968–1970. Á sviði forskólafræðslu hefur Umferðarráð starfrækt umferðarskólann „Ungir vegfarendur“, sem er eins konar bréfaskóli, og fá nemendur, sem eru á aldrinum 3–6 ára, að jafnaði 6 verkefni á vetri hverjum. Útsend verkefni á þessu ári verða yfir 90 þús., en þátttakendur í umferðarskólanum eru rúmlega 17 þús. börn í 44 sveitarfélögum. Sveitarfélögin standa að verulegu leyti undir kostnaði við rekstur skólans. Auk þess hefur Umferðarráð skipulagt námsefni fyrir börn í 6 ára deildum barnaskóla og átt hlut að umferðarfræðslu fyrir börn í útvarpi og sjónvarpi og á barnaheimilum.

Einn þáttur er umferðarfræðsla í skólum. Hefur Umferðarráð frá upphafi lagt á það ríka áherslu að efld verði umferðarfræðsla innan skólakerfisins, en hún hefur að áliti ráðsins verið í algjöru lágmarki og er þess að vænta að bót fáist á því með nýrri skólalöggjöf og endurskoðun námsskráa. Hefur verið reynt að vinna að því máli með ýmsum hætti, m. a. hefur af hálfu Umferðarráðs verið lögð á það áhersla að sérstökum manni verði falið það verkefni að hafa umsjón með umferðarfræðslu í skólum, og nú á þessu ári hefur sérstökum kennara verið falið þetta verkefni af hálfu menntmrn. Standa því vonir til þess að umferðarfræðslan skipi fastari sess í skólafræðslunni framvegis.

Tvívegis, árið 1970 og 1972, hefur farið fram á vegum Umferðarráðs og í samvinnu við fræðslumáladeild menntmrn. spurningakeppni skólanna um umferðarmál með þátttöku allra 12 ára skólanemenda. Fór keppnin fram í þrennu lagi: innan skólanna, í útvarpi og í sjónvarpi, þar sem tvö lið kjördæma kepptu til úrslita.

Dreift hefur verið frá upphafi skólaárs bréfi, sem ber nafnið „Leiðin í skólann“, til foreldra þeirra barna sem þá hefja skólagöngu í fyrsta sinn, þar sem vakin er athygli á hættu þeirri sem fylgir fyrstu skólagöngunni. Dreift hefur verið á vorin viðurkenningarmiðum vegna reiðhjólaskoðunar. Umferðarráð hefur beitt sér fyrir því að bætt yrði dreifing kennslubóka um umferðarmál á vegum Ríkisútgáfu námsbóka og og endurskoðun þeirra bóka. Umferðarráð hefur staðið fyrir því að norskur skólaráðgjafi um umferðarmál hefur haldið hér námskeið fyrir kennara og lögreglumenn. Þá hefur Umferðarráð haft milligöngu um það að nokkrir kennarar og lögreglumenn hafa sótt námskeið um umferðarmál í Noregi.

Almenn upplýsingastarfsemi á vegum Umferðarráðs hefur verið ýmiss konar. Á sumrin hefur verið haldið uppi verulegu fræðslustarfi um akstur á þjóðvegum. Hefur það að verulegu leyti beinst að hvatningu til notkunar öryggisbelta, fræðslu um hættu sem börnum er búin í framsætum bifreiða auk almennrar fræðslu um akstur á þjóðvegum. Um þetta efni hefur m. a. verið haft samstarf við útvarpið, sem flutt hefur stutta þætti í léttum dúr samda sérstaklega á vegum ráðsins, auk þess sem útvarpið hefur haldið uppi þætti um umferðarmál í samvinnu við Umferðarráð. Um verslunarmannahelgar hefur Umferðarráð í samvinnu við lögregluna og Ríkisútvarpið haldið uppi upplýsingamiðstöð fyrir ferðafólk.

Umferðarráð hefur beitt sér fyrir dreifingu og sölu endurskinsmerkja með góðum árangri, en á síðasta ári var dreift um 50 þús. endurskinsmerkjum, aðallega með aðstoð Mjólkursamsölunnar og kaupfélaga. Þá hefur ráðið staðið að fræðslustarfi um umferð í myrkri og bættri og aukinni notkun ökuljósa svo og fræðslustarfi um slys í umferðinni.

Samstarf við fjölmiðla hefur verið mikið. Hér hefur verið vikið að fræðslustarfi í útvarpi, hljóðvarpi, en samstarf við sjónvarp hefur og verið með ágætum. M. a. hafa verið gerðir stuttir þættir um umferðarmál, 14 þættir, sem fyrst voru fluttir veturinn 1973–1974, en hafa síðan verið endurskoðaðir og endurfluttir.

Hér hafa í mjög stórum og fáum dráttum verið rakin nokkur atriði úr starfsemi Umferðarráðs. Fjölmörg atriði önnur hafa að sjálfsögðu komið til kasta ráðsins, en eigi hefur verið hægt að sinna því öllu þar sem fjárskortur hefur staðið ráðinu fyrir þrifum. Starfsemi ráðsins hefur að mestu hvílt á framkvæmdastjóranum, upplýsingafulltrúa, ritara og forskólaráðgjafa í hálfu starfi. Er starfsliðið allt nema framkvæmdastjórinn lausráðið.

Innan Umferðarráðs starfar sérstök 3 manna framkvæmdanefnd skipuð af dómsmrh.

Á fjárlögum yfirstandandi árs eru veittar úr ríkissjóði 7 millj. 417 þús. kr. til starfsemi Umferðarráðs, en að auki er gert ráð fyrir tekjum að fjárhæð 2 millj. kr. Það eru framlög sveitarfélaganna vegna umferðarskólans „Ungir vegfarendur“, þannig að til ráðstöfunar eru 9 millj. 417 þús. kr. Rétt er að taka fram að Umferðarráð hefur farið fram úr heimild fjárlaga nú í ár og undanfarin ár.

Fjárlagatill. Umferðarráðs sjálfs vegna næsta árs námu alls 21 millj. 697 þús. kr. auk tekna að fjárhæð 7 millj. 894 þús. kr., en í fjárlagafrv. eru hins vegar einungis ætlaðar 10 millj. 628 þús. kr. auk teknanna. Er ljóst, að miðað við það framlag, sem í fjárlagafrv. er, verður um samdrátt að ræða á næsta ári í starfsemi ráðsins. Er rétt að vekja hér athygli á því að tekjuáætlunartillaga Umferðarráðs er tekin óbreytt í fjárlagafrv., en hins vegar ekki gert ráð fyrir óhjákvæmilegum útgjöldum vegna þeirra þátta sem skapa tekjurnar, svo sem launakostnaður vegna umferðarskólans eða sölu endurskinsmerkja. Hefur sérstakt erindi nýlega verið sent hv. fjvn. og er þess að vænta að það fái viðunandi afgreiðslu við meðferð fjárlaga.

Áætlun Umferðarráðs gerir ráð fyrir svipaðri starfsemi og undanfarin ár, en jafnframt aukningu á ýmsum sviðum. M. a. er gert ráð fyrir útgáfu verkefna til notkunar við umferðarfræðslu í skólum, en auk þess ýmissi almennri umferðarfræðslu. Var lagt til að á næsta ári yrði haldið uppi sérstakri fræðsluherferð undir einkunnarorðunum „Ár umferðarþekkingar“ er miðar að því að auka þekkingu og skilning almennings á helstu umferðarreglum.

Til að bæta úr brýnni fjárþörf til umferðarslysavarna, — sem öllum ætti að vera augljós nú þegar við íhugum að á þessu ári hafa 29 manns látist í umferðarslysum og 595 manns hafa slasast á fyrstu 10 mánuðum ársins, þar af 324 svo mikið að þeir hafa verið lagðir inn á sjúkrahús vegna meiðsla er þeir hafa hlotið í umferðarslysum, og er þá ógetið þess fjárhagstjóns sem af umferðarslysum leiðir, — þá er í frv. þessu lagt til að 1.5% af iðgjaldatekjum vegna hinna lögboðnu ábyrgðartrygginga ökutækja, þ. e. brúttóiðgjöldum að frádregnum bónus, renni til Umferðarráðs í þessu skyni. Heildariðgjöld ábyrgðartrygginga á árinu 1974, en það er síðasta árið sem reikningar liggja fyrir, námu 583 millj. kr. og hefðu því samkv. þessum reglum um 8.7 millj. kr. gengið til umferðarslysavarna á yfirstandandi ári auk fjárframlagsins 7 millj. 417 þús. kr. Með þessum tekjustofni ætti vera skapaður grundvöllur fyrir mjög aukinni starfsemi Umferðarráðs, enda er þá að sjálfsögðu gert ráð fyrir því, að framlag ríkissjóðs falli ekki niður þótt þessi tekjustofn verði lögfestur. Ég geri ráð fyrir því að flestir telji fulla þörf á því að auka umferðarfræðsluna það mikið og að ekki veiti af þessari fjárveitingu og ennfremur að hún sé nauðsynleg til þess að Umferðarráð geti sinnt í ríkari mæli þeim verkefnum sem það hefur orðið að láta sitja á hakanum.

Það er ekki óeðlilegt að vátryggingarfélög, sem hafa fengið leyfi til rekstrar þessarar tryggingargreinar, greiði þetta framlag, enda verður að ætla að með aukinni starfsemi Umferðarráðs á sviði umferðarslysavarna dragi úr tjóni af völdum ökutækja og umferðin í heild verði öruggari.

Fjáröflun með þeim hætti, sem hér lögð til. á sér nokkra hliðstæðu í okkar löggjöf, en með lögum nr. 55 1969, um brunavarnir og brunamál, er þeim vátryggingarfélögum, sem annast brunatryggingar, skylt að greiða hluta af vátryggingariðgjaldi vegna brunatrygginga sem brunavarnagjald til Brunamálastofnunar ríkisins. Þá má og benda á það, að á Norðurlöndum njóta stofnanir hliðstæðar Umferðarráði verulegs fjárhagsstuðnings frá vátryggingarfélögum, og t. d. í Finnlandi hefur Umferðarmálastofnunin alveg fastan tekjustofn frá bifreiðatryggingafélögum.

Þess skal svo getið hér einnig, að áskoranir um aukið fjármagn til Umferðarráðs hafa komið frá ýmsum aðilum sem um umferðarmál fjalla, m. a. aðalfundi Samvinnutrygginga, og margir fundir á vegum klúbbanna „Öruggur akstur“ hafa lagt til þá tekjuöflunarleið sem frv. þetta gerir ráð fyrir.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns, var frv. með samhljóða ákvæði til meðferðar hér á hv. Alþ. fyrir nær tveim árum. Þm. töldu þá eigi rétt að leggja þetta gjald á, m. a. af því að Umferðarráð ynni ekki aðeins að slysavörnum í sambandi við bifreiðar og önnur ökutæki, heldur væri þar nánast um almennar slysavarnir að ræða og því ætti ríkissjóður að greiða til Umferðarráðs það fjármagn sem það þyrfti á hverjum tíma, auk þess sem það mun að einhverju leyti hafa mótað afstöðu þm. að óeðlilegt sé að marka ákveðna tekjustofna ákveðnum útgjöldum. Varla fer þó á milli mála að umferðarslysin eru fyrst og fremst vegna tilvistar ökutækjanna og því ekki óeðlilegt að hluti af kostnaði við rekstur þeirra gangi til umferðarslysavarna, enda hlýtur árangurinn að skila sér í bættri umferð og þá fækkun umferðarslysa, sem þá dregur svo aftur úr tjónagreiðslum, er síðan ætti að leiða til lægri vátryggingariðgjalda.

Þó að auðvitað verði að leggja alla áherslu á umferðarfræðslu og megi þar ekki neinu slaka á, þá dugar það þó ekki eitt út af fyrir sig til þess að skapa hér bætta umferðarmenningu. Ýmis önnur atriði koma þar til, svo sem aukin löggæsla og hert viðurlög, bæði í formi refsinga og tíðari ökuleyfissviptinga, greiðari meðferð dómsmála, endurskoðun umferðarreglna til samræmis við endurskoðun sem nú fer fram á Norðurlöndunum í kjölfar nýlegrar alþjóðasamþykktar, endurskoðun ökukennslu og ökuprófa, bættur búnaður ökutækja, skipulagsmál umferðarinnar, ásigkomulag gatnakerfisins o. fl., o. fl. Þessi atriði öll og ýmis fleiri hafa að sjálfsögðu stöðugt verið til athugunar og unnið að endurbótum á þeim. Hef ég nýlega óskað þess að Umferðarráð láti í té ábendingar um atriði sem til úrbóta geta orðið, einkum ef þar væri um að ræða atriði sem framkvæma mætti með skömmum fyrirvara og án lagabreytinga eða verulegs kostnaðar. Er von á þeim ábendingum á næstunni og verða þær þá teknar til athugunar í dómsmrn. Þá er og mjög nauðsynlegt samstarf og aukinn skilningur sem flestra aðila í þjóðfélaginu á nauðsyn bættrar umferðar. Slíkt er auðvitað alger forsenda almennra umbóta á þessu sviði. Kom slíkt greinilega fram á sínum tíma þegar breytt var yfir í hægri umferð, þar sem með samstilltu átaki tókst að koma þeirri breytingu á án þess að veruleg vandkvæði yrðu á. Sama má segja að átt hafi sér stað nú á dögunum, þegar hin hörmulegu slys urðu hvert af öðru. Í framhaldi af þeim atburðum virðist sem almenningur hafi vaknað til vitundar og umhugsunar um þessi efni, a. m. k. um hríð Má þakka það samstilltu átaki fjölmargra aðila, svo sem löggæslu, fjölmiðlauna, bæði blaðanna og útvarpsins, að ógleymdum varnaðarorðum lækna Borgarspítalans sem án efa hafa haft mjög djúpstæð áhrif.

Þetta frv. er í sjálfu sér einfalt í sniðum, en ég hef talið rétt að fara nokkrum almennum orðum um þau mikilvægu mál sem hér er um að ræða, umferðarmálin og ráðstafanir til þess að reyna að tryggja umferðaröryggi eftir því sem hægt er. Það er sannfæring mín að einn þátturinn í því sé að styrkja Umferðarráð til þess að geta sinnt hlutverki sínu á sómasamlegan hátt og svo sem því er ætlað í lögum. Með þessu frv., ef að lögum yrði, mundi nokkuð verða bætt úr fjárþörf Umferðarráðs.

Ég vil svo, herra forseti, mælast til þess að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn., sem þegar hefur til meðferðar fyrir annað frv. um breyt. á umferðarlögum.