08.12.1975
Neðri deild: 24. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1008 í B-deild Alþingistíðinda. (659)

61. mál, kaupstaðarréttindi til handa Garðahreppi

Frsm. (Gunnlaugur Finnsson):

Herra forseti. N. skoðaði þetta frv. og var sammála um að mæla með því að það yrði samþ. óbreytt. Hér er raunar um sömu þróun að ræða og átti sér stað á öndverðu ári 1974 þegar 5 sveitarfélög fengu kaupstaðarréttindi. En n. gerir sér að sjálfsögðu grein fyrir því, að hér er ekki um einhlíta þróun að ræða. Þá kom t. d. í ljós að veiting kaupstaðarréttinda fyrir einstakt sveitarfélag gat þýtt það að viðkomandi sýslufélag varð svo lítið að það varð í raun og veru ófært um að halda uppi því starfi og sinna þeim hlutverkum sem því var ætlað. Það má t. d. benda á það, að í Kjósarsýslu verða aðeins 4 hreppsfélög eftir þegar Garðahreppur væntanlega hefur fengið kaupstaðarréttindi. Tvö af þessum sveitarfélögum eru nokkuð fjölmenn, þ. e. a. s. Mosfellshreppur, þar er ört vaxandi byggð, og við höfum líka haft af því fréttir að búast má við mjög aukinni byggð í Bessastaðahreppi, og fengju þau í náinni framtíð kaupstaðarréttindi, þá yrðu ekki eftir nema tvö sveitarfélög í þessari sýslu.

Þetta kallar að sjálfsögðu á það að menn leiði hugann að lögsagnarumdæmum landsins og stöðu sveitarfélaganna í heild. Það þótti þó ekki ástæða til að fjalla um það sérstaklega, enda er það ekki á dagskrá hér nú. En n. þóttu engin rök mæla með því að hafna málaleitan Garðahrepps, miðað við þá þróun sem átti sér stað á s. l. ári, og mælir þess vegna með því að frv. verði samþ. óbreytt.