09.12.1975
Sameinað þing: 30. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1008 í B-deild Alþingistíðinda. (663)

308. mál, endurskoðun laga um skipan opinberra framkvæmda

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 75 að bera fram svo hljóðandi fsp. til hæstv. fjmrh.:

Hvað líður endurskoðun þeirri á l. um skipan opinberra framkvæmda sem samþ. var samkvæmt þáltill. frá 14. maí 1975?“

Okkur flm. þóttu mörg rök liggja til þessarar endurskoðunar. Við bentum á hana í fyrra, það er óþarfi að rekja það hér. Fjölmörg dæmi voru rakin þar, þar sem bein lagafyrirmæli eða túlkun á lagafyrirmælum kom í veg fyrir nauðsynlegar framkvæmdir á þann hátt að þau drægjust ár frá ári á orðhengilshætti einum saman, svo að segja. Það er margt gott um þessi lög að segja varðandi aðhald það, sem þau áttu að veita, og eiga því jákvæðar hliðar, en hitt hefur orðið enn meira áberandi, því miður, sem neikvætt er, og þar hafa margir, sérstaklega smærri staðir, orðið hart úti. Ég skal ekki rekja þá sögu hér, dæmin frá Hólmavík og Breiðdalsvík eru næg til að minna á sem víti til varnaðar.

Sú var ætlun okkar flm. í fyrra að fá sniðna af verstu agnúana sem sannanlega hafa komið í ljós. Við teljum jafnbrýnt nú að fá nauðsynlegustu lagfæringar, svo að ekki þurfi bæði þingmenn og jafnvel ráðh. að knékrjúpa fyrir vissum aðilum í kerfinu til að fá fram sjálfsögðustu atriði sem Alþ. hefur í fjárl. lagt til og samþ., — hluti sem eiga að ganga af sjálfu sér, ef rétt er að farið. Því er nú spurt um það, hvort nokkur hreyfing sé á þetta mál komin?