09.12.1975
Sameinað þing: 30. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1009 í B-deild Alþingistíðinda. (665)

308. mál, endurskoðun laga um skipan opinberra framkvæmda

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti Ég þakka hæstv. ráðh. svörin. Það er ljóst af svörum hans að málið hefur nokkurn fjörkipp tekið við fsp. og fagna ég því.

Gagnvart þeim aðilum, sem hér eiga um að fjalla, er allt gott að segja. Hér sýnist mér þeir eiga um að velja sem eiga að vera þessum málum kunnugastir. Ég veit hins vegar að tveir þessara aðila munu um margt fyllilega ásáttir við núgildandi skipan og hjá þeim sé og verði vart um ef að ræða. Þ. e. a. s. bæði fjárlaga- og hagsýslustofnunin og fjvn. sjálf. Hins vegar vona ég þá að þeim mun betur verði eftir rekið af þeim þriðja aðila sem þarna var nefndur, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, sem hefur verið beinn gagnrýnisaðili alla tíð og þó einkum nú á síðustu árum á ýmsu í þessari lagaframkvæmd. En sem sagt, málið er komið á hreyfingu, þó heldur seint sé. Ég vænti þess að hæstv. ráðh. fylgi þá málinu þann veg eftir sem hann lýsti að minnsta kosti.