09.12.1975
Sameinað þing: 30. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1010 í B-deild Alþingistíðinda. (666)

306. mál, barnalífeyrir og meðlög

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds) :

Herra forseti. Við afgreiðslu frv. til l. um launajöfnunarbætur úr Ed. 15. maí s. l. flutti ég till. þess efnis, að árlegur lífeyrir með hverju barni skyldi vera 109 740 kr. frá 1. mars 1975 og breytast síðan ársfjórðungslega í samræmi við vísitölu vöru og þjónustu. Samkv. þessari till. hefði barnalífeyrir, þ. e. a. s. meðlagsgreiðslur orðið 9160 kr. í staðinn fyrir 7 440 eins og frv. gerði ráð fyrir. Ég benti þá á að þessar greiðslur hefðu hækkað mjög óverulega seinustu missirin, eða aðeins um 9% í okt. fyrir einu ári, 3% í des. fyrir einu ári og 9% í aprílmánuði. Aftur á móti hefði framfærslukostnaður aukist mjög verulega eða um 40%. Skýringin á þessum litlu hækkunum meðlagsgreiðslna eða barnalífeyris er sú, að þessar hækkanir hafa fylgt hækkun almenns lífeyris, eins og reyndar lög gera ráð fyrir, en ekki hækkun tekjutryggingarinnar eins og miklu eðlilegra væri.

Ég veit ekki, hvort allir hv. alþm. gera sér grein fyrir því að Tryggingastofnun ríkisins greiðir aðeins lítinn hluta af þeim greiðslum sem hér er um að ræða. Stærsti hluti þessara greiðslna eru meðlagsgreiðslur milli einstaklinga í þjóðfélaginn, því að lágmarksmeðlag er ákveðið með ákvörðun barnalífeyris, og með því að halda niðri barnalífeyri er verið að grípa inn í fjárhagsleg samskipti þúsunda einstaklinga, á mjög óréttlátan og ósanngjarnan hátt. Þeir aðilar, sem verða fyrir barðinu á þessari þróun, eru einkum einstæðir foreldrar.

Þegar ég kynnti þessa brtt. í Ed. á s. l. vori varð ég var við allmikinn skilning á því að þetta væri óeðlileg þróun mála. Menn gerðu sér grein fyrir því að miklu eðlilegra væri að barnalífeyrir hækkaði í hlutfalli við tekjutrygginguna. Í fjh.- og viðskn. urðu nokkrar umr. um þetta mál. og á fundinum voru einnig hæstv. forsrh. og hæstv. heilbr.- og trmrh. sem ræddu þetta mál við n. Á þessum fundi varð að samkomulagi að ég drægi áður nefnda till. til baka gegn því að forsrh. gæfi almenna yfirlýsingu um ráðstafanir í þessu máli. Það gerði hæstv. forsrh. í umræðunni sem síðan fylgdi á eftir. Hann sagði þá, með leyfi forseta:

Heilbr.- og trmrh. hefur vald til þess með reglugerð að breyta þessu og ákveða barnalífeyri eða meðlag með öðrum hætti. Það hefur hann haft til athugunar, og ríkisstj. mun taka það til meðferðar að athugun lokinni. Ég get ekki lofað neinni ákveðinni hækkun. Það fer eftir þeirri athugun, sem fram fer, hver úrslit málsins verða. En mál þetta er til meðferðar í rn. og ríkisstj. mun taka afstöðu til þess að lokinni þeirri athugun.“

Síðan þetta var er liðið meira en hálft ár og enn hefur ekkert gerst í málinu. Allar greiðslur almannatrygginga hafa verið hækkaðar um sömu upphæð, þ. e. a. s. 11%, og barnalífeyrir er nú 8 259 kr. á mánuði. Til samanburðar er rétt að geta þess að daggjald á barnaheimili er nú 9000 kr. og það mun vera í fyrsta sinn um alllangt skeið að barnalífeyrir eða meðlagsgreiðsla dugir ekki fyrir dagvistun barns, hvað þá öðrum útgjöldum sem fylgja framfærslu þess. Þar að auki er vitað að dagvistunargjöld á barnaheimilum munu hækka enn frekar á næstu mánuðum, væntanlega um áramótin, upp í 10 000 kr., eftir þeim upplýsingum sem fengist hafa hjá Sumargjöf. Ég vil undirstrika hér að ekki eru líkur á að hækkun í t. d. 12 000 sem mundi vera vel í samræmi við hækkun vísitölu vöru og þjónustu, þyrfti að vera svo ýkjadýr fyrir ríkissjóð, samkvæmt þeim útreikningum sem ég hef gert. Á grundvelli upplýsinga, sem ég hef aflað mér frá Tryggingastofnun ríkisins mundu barnalífeyrisgreiðslur ekki aukast miðað við ár um meira en 16 millj. af þessum orsökum, og sjá allir að ekki er um stórar fjárhæðir að ræða.

Í lögum um launajöfnunarbætur var ákvæði um það, að fram skyldi fara rannsókn á framfærslukostnaði einstæðra foreldra. Ég hef leitað upplýsinga um það hjá hagstofustjóra, hvernig þessari rannsókn liði og hvaða líkur séu á því að henni ljúki innan tíðar, og fengið þær upplýsingar, að ekki sé útlit fyrir að þetta fáist á hreint nú fyrir áramótin. Með hliðsjón af þessu hef ég leyft mér að bera fyrir forsrh. nokkrar fsp. á þskj. 51.