09.12.1975
Sameinað þing: 30. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1011 í B-deild Alþingistíðinda. (667)

306. mál, barnalífeyrir og meðlög

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Þegar lög um launajöfnunarbætur o. fl. voru afgreidd frá Alþ. á liðnu vori var eftirfarandi bráðabirgðaákvæði sett aftan við þau:

„Fyrir árslok 1975 skal heilbr.- og trmrh. láta fram fara könnun:

a. Á framfærslukostnaði elli- og örorkulífeyrisþega og skal könnunin bæði ná til einstaklinga og hjóna, er njóti elli- og örorkulífeyris. Hliðsjón af könnun þessari skal höfð við ákvörðun elli- og örorkulífeyris og tekjutryggingar hjóna og einstaklinga.

b. Á framfærslukostnaði barna einstæðra foreldra. Hliðsjón af könnun þessari skal höfð við ákvörðun barnalífeyris.“

Fsp. hv. 5. þm. Norðurl. v., til mín er í fyrsta lagi um það, hvað líði efndum á loforði hæstv. forsrh. sem hann gaf Ed. Alþ. 15. maí s. l., að ríkisstj. taki greiðslu barnalífeyris og meðlaga til sérstakrar endurskoðunar. Ég skal ekki rekja þau ummæli sem ég hafði þá um þetta mál, enda var þá og er enn að heilbr.- og trmrh. hefur haft þetta mál til athugunar og taldi sig hafa vald til þess að gefa út sérstaka reglugerð er greindi á milli ákvörðunar á upphæð elli- og örorkulífeyris annars vegar og barnalífeyris hins vegar. Við nánari könnun og athugun málsins í rn. hefur það komið fram, að það þarf lagabreytingu til ef þarna á að vera um misjafna hækkun að ræða. En mál þetta er í athugun og úrslit þess munu velta á niðurstöðu þeirrar könnunar, sem fram fer á Hagstofunni.

Ég vil í þessu sambandi láta það koma hér fram, að eigi má rugla saman barnalífeyri annars vegar og meðlagsgreiðslum hins vegar. Það verður að gera sterkan greinarmun á þessu tvennu. Greiðslur barnalífeyris Tryggingastofnunar ríkisins eru sem sagt bundnar með lögum, en meðlagsgreiðslur eru ákveðnar hverju sinni og mega aldrei vera lægri en greiðslur barnalífeyris almannatrygginga. Hins vegar virðist ekkert vera í lögum, sem hindrar að slíkar greiðslur séu ákvarðaðar mun hærri og að við slíkar ákvarðanir sé tekið tillit til fjárhagsaðstæðna aðilanna. Í lögum um þetta efni er beinlínis tekið fram að við ákvörðun meðlagsgreiðslna eigi að hafa hliðsjón af högum beggja foreldra og miða meðlagsgreiðslur við hag þess foreldris sem er betur stætt. Það þarf því engar breytingar á barnalífeyri almannatrygginga til þess að meðlög hækki. Þetta tel ég út af fyrir sig rétt að hér komi fram, þótt á hinn bóginn hafi sú venja myndast að langalgengast sé að upphæð þessa tvenns, barnalífeyris og meðlaga, fari saman.

Þá skal ég einnig ítreka það, sem fram hefur komið hér áður, að barnalífeyrir hefur breyst eins og greiðslur annarra bóta frá almannatryggingum, þ. e. a. s. almennra elli- og örorkulífeyrisbóta.

Seinni hluti fsp. er á þá leið, hvort mér sé ekki ljóst að könnun á framfærslukostnaði barna einstæðra foreldra hafi ekki hafist fyrr en í haust og ljúki ekki á þessu ári og því sé fráleitt að draga öllu lengur að taka ákvarðanir til bráðabirgða um sérstaka hækkun barnalífeyris og meðlaga. Það liggur fyrir að dregist hefur meira en skyldi að athugun sú, sem fyrir er mælt í bráðabirgðaákvæði laganna um launajöfnunarbætur, hæfist. Samkv. upplýsingum frá heilbr.og trmrn. dróst það fram eftir sumri að rn. tæki mál þetta til meðferðar sem ákvæðið gerði ráð fyrir. En það sneri sér síðan fyrst til Þjóðhagsstofnunar. sem taldi eðlilegra að verkefni þetta væri falið Hagstofunni, og með bréfi dagsettu 17. sept. s. l. óskaði heilbr.- og trmrn. eftir því við Hagstofuna að hún tæki að sér að gera umrædda könnun á framfærslukostnaði barna einstæðra foreldra. Hagstofan varð við þessari ósk og er verkið hafið. Að sögn Hagstofunnar er hér um að ræða flókið og vandasamt verkefni, og ég vil ekki gefa neinar yfirlýsingar á þessu stigi hvenær því verki verði lokið. Menn verða að gera sér grein fyrir að því verður ekki lokið fyrir áramót, þótt áhersla verði á það lögð að hraða því eins og aðstæður frekast leyfa.

Ég vil því með tilvísun til þess, sem hér hefur komið fram, láta þá skoðun í ljós að ég tel ekki svo langt í að niðurstöður athugana hagstofunnar liggi fyrir, að ekki sé rétt að bíða með ákvörðun á breytingu á barnalífeyri þangað til þessi athugun liggi fyrir og því ekki rétt að afla sér lagaheimildar til þess að breytingar á barnalífeyri hlíti öðrum reglum en breytingar á almennum elli- og örorkulífeyri, fyrr en niðurstaða þessarar athugunar liggur fyrir. Þá byggi ég á því, að það verði ekki verulegur dráttur á þeirri niðurstöðu.

Ég vil láta það koma fram, að frá því í apríl 1974 hefur barnalífeyrir hækkað um 32% eins og ellilífeyrir án tekjutryggingar, en aftur á móti hefur ellilífeyrir með tekjutryggingu hækkað á sama tíma um 55%. Ég er ekki reiðubúinn nú til þess að fallast á þá skýringu, þótt það megi vel taka hana til athugunar, að barnalífeyrir eigi að fylgja ellilífeyri með tekjutryggingu. Á sama tímabili og þessi hækkun hefur orðið á barnalífeyri og almennum ellilífeyri án tekjutryggingar, þ. e. a. s. 32%, hafa launahækkanir orðið þær, að laun samkvæmt 21. flokki Bandalags starfsmanna ríkis og bæja hafa hækkað um 24%, laun samkvæmt 15. fl. bandalags starfsmanna ríkis og bæja um 30% og laun samkvæmt 2. launafl. Iðju um 41%.