09.12.1975
Sameinað þing: 30. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1013 í B-deild Alþingistíðinda. (668)

306. mál, barnalífeyrir og meðlög

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds) :

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svar hans, enda þótt ég verði því miður að bæta því við að ég get ekki lýst ánægju minni með svarið.

Yfirlýsing hæstv. forsrh. í umr. um þetta mál á s. l. vori var alveg ótvíræð. Hann hét því, að þessi mál yrðu tekin til sérstakrar endurskoðunar, og benti á að breyta mætti þessu atriði með reglugerð og sjálfsagt væri að taka það til athugunar. Nú upplýsir hann að menn hafi komist að þeirri niðurstöðu að þetta muni ekki vera hægt að gera með reglugerð, og má vel vera að það sé rétt. Ég hef skoðað það mál sjálfur og ég tel að vísu að á þessu geti veríð einhver vafi vegna orðalags viðkomandi gr. almannatryggingalaganna. En ég get fallist á það með honum að vegna þessa vafa mundu menn sennilega telja eðlilegast að um lagabreyt. væri að ræða. En ég sé ekki að það hefði átt að breyta ýkjamiklu. Ef vilji hefði verið fyrir hendi til þess að efna þetta fyrirheit var hæstv. ríkisstj. í lófa lagið að gefa út brbl. um þetta atriði alveg jafnt og að gefa út reglugerð. Ég held satt að segja að brbl. hafi á s. l. vori verið gefin út af minna tilefni heldur en hér er um að ræða. Eins er það, að Alþ. nú hefur tekið til starfa og starfað í 2 mánuði og ætti því ekki að vera skotaskuld úr því að lagfæra þetta atriði, þannig að lagaheimild verði til að koma þessari breyt. fram.

Hæstv. forsrh. ræddi hér nokkuð um meðlagsgreiðslurnar og ég sá ekki að það, sem hann sagði um það atriði, breytti neinu sem ég sagði hér áðan. Meðlagsgreiðslurnar eru miðaðar við barnalífeyri að því leyti, að lágmark þeirra miðast við barnalífeyri. Og það er rétt sem hann sagði, að myndast hefur sú venja að miða við barnalífeyrinn, þannig að fram hjá því verður ekki gengið.

Um rannsókn málsins er það hins vegar að segja, eins og hann tók fram, að það dróst fram eftir sumri að hafist væri handa um þá könnun sem fyrirskipuð var í lögunum um launajöfnunarbætur og það heldur betur, því að þessi rannsókn hófst ekki fyrr en langt var liðið á haust. Það var ekki aðeins sumarið sem leið, heldur talsvert af haustinu 1íka. Það er því löngu orðið ljóst, að ekki er viðunandi að ætla að fara að biða eftir því að þessari rannsókn ljúki. Það er greinilegt að á því getur orðið töluvert langur dráttur.

Ég ætla ekki að ræða um þær prósentutölur sem hæstv. forsrh. ræddi hér áðan varðandi hækkun ellilífeyris annars vegar og hækkun kaupgjalds hins vegar, en vil benda á þriðju prósentutöluna, sem ætti ekki að skipta minna máli, en það er sú hækkun sem orðið hefur á vísitölu vöru og þjónustu á þessu tímabili, en það er hvorki meira né minna en 91% sem sú vísitala hefur hækkað. Væri auðvitað miklu eðlilegra að miða við þá gífurlegu hækkun heldur en þá litlu hækkun almenns kaupgjalds sem orðið hefur.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta atriði, enda leyfir tími minn það ekki. Ég vil bara undirstrika það hér, að þetta er mál, sem snertir samskipti þúsunda einstaklinga í þjóðfélaginu, og ég tel að með þessari naumu hækkun barnalífeyris hafi ríkisvaldið haft afskipti af málefnum þessa fólks á mjög ranglátan hátt. Ég vil eindregið vænta þess, að hæstv. ríkisstj. taki það til gaumgæfilegrar athugunar hvort hún geti ekki fallist á, miðað við það hvað þessi könnun hefur dregist úr hömlu, að teknar verði nú þegar ákvarðanir til bráðabirgða um sérstaka hækkun barnalífeyris og meðlaga.