09.12.1975
Sameinað þing: 30. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1014 í B-deild Alþingistíðinda. (669)

307. mál, milliþinganefnd í byggðamálum

Fyrirspyrjandi (Jóhannes Árnason) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera hér fram fsp. til hæstv. forsrh. um störf milliþn. í byggðamálum. Fyrirspurn þessi hljóðar þannig:

„1. Hvað líður störfum milliþn., sem kosin var af Sþ. til að gera till. um markmið, leiðir og mörkun almennrar stefnu í byggðamálum samkv. þál. um milliþn. í byggðamálum frá 13. apríl 1973, og hvenær er þess að vænta að n. skili áliti ?

2. Hver er orðinn kostnaður við störf nefndarinnar?“

Hinn 13. apríl 1973 var samþ. á Alþ. þál. um millilm. í byggðamálum. Þessi þál. er alllöng, í 7 liðum, og ætla ég að leyfa mér að lesa hana hér, með leyfi hæstv. forseta. Hún er þannig:

.,Alþ. ályktar að kjósa 7 manna nefnd þm., kosna hlutfallskosningu í Sþ., sem gerir till. um markmið, leiðir og mörkun almennrar stefnu í byggðamálum. Skal að því stefnt að varanleg starfsemi í byggðamálum verði efld og viðurkennd sem fastur þáttur í íslenskri stjórnsýslu. N. skal m. a. hafa eftirtalin verkefni:

1. Kanna hvaða atriði valda fyrst og fremst mismunun á milli landsmanna eftir búsetu, bæði fjárhagslegri og félagslegri.

2. Kanna og meta eins og unnt er hin þjóðhagslegu áhrif þeirrar þróunar í byggðamálum, sem átt hefur sér stað á undanförnum áratugum.

3. Kanna hvaða ráðstafanir nágrannaþjóðirnar hafa gert á þessu sviði og hvaða almenna stefnu þær hafa markað.

4. Athuga, hvað unnt er að gera af opinberri hálfu til þess að jafna metin á milli landsmanna, og gera tilraun til að meta áhrif slíkra aðgerða og kostnað.

5. Gera till. um markmið í byggðamálum.

6. Gera till. um leiðir til þess að ná framangreindum markmiðum.

7. Leggja drög að almennri stefnu í byggðamálum.

Auk þess skal n. athuga till. til þál. á þskj. 383 og leggja fram þau frv. til breyt. á lögum þegar í byrjun næsta þings, sem n. telur að ekki þoli bið. N. skal einnig leitast við að gefa Alþ. bráðabirgðaskýrslu í byrjun næsta þings um verkefni sitt.

Forsrh. skipar formann n. Í samráði við forsrn. skal n. fá eðlilega starfsaðstöðu, og henni skal heimilt að leita álits sérfróðra manna. Framkvæmdastofnun ríkisins skal skylt að veita n. nauðsynlegar upplýsingar og aðstoð. Kostnaður við störf n. greiðist úr Byggðasjóði.“

Þessi till. var, eins og ég gat um áðan, samþ. árið 1973 og kosin þá 7 manna milliþn. sem ekki hefur enn skilað till. sínum svo að mér sé kunnugt, og þess vegna er þessi fyrirspurn flutt.

þál., sem ég var að lesa upp áðan, var flutt af þm. Steingrími Hermannssyni, Vilhjálmi Hjálmarssyni og Stefáni Valgeirssyni. Ef þessi þál. er skoðuð nánar kemur í ljós að þarna er svo sem ekki um neitt smámál að ræða og milliþn. var falið að vinna ákaflega þýðingarmikið starf, þar sem er mörkun almennrar framtíðarstefnu í byggðamálum og gera till. um markmið og leiðir á þessu sviði, — að því skal „stefnt, að varanleg starfsemi í byggðamálum verði efld og viðurkennd sem fastur þáttur í íslenskri stjórnsýslu,“ eins og þar segir.

Þá kom fram í þál., í næstsíðustu málsgr., að milliþn. átti að athuga till. á þskj. 383. Sú þáltill., sem til er vitnað á þessu þskj. 383, er till. til þál. um skipulag byggðamála og auknar ráðstafanir til hagkvæmrar byggðaþróunar og var lögð fram á þinginu 1972–1973. Flm. þeirrar till. voru 9 þm. Sjálfstfl. með Lárus Jónsson sem fyrsta flm. Ég hygg að samkomulag hafi orðið um að sameina þessar till. í þá till. sem fsp. þessi snýst um.