16.10.1975
Neðri deild: 7. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í B-deild Alþingistíðinda. (67)

2. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Ég skal ekki fara mjög mörgum orðum um þetta mál og ekki heldur gera margar aths. við þá annars skemmtilegu og að mörgu leyti athyglisverðu ræðu sem hv. flm. flutti áðan. Það voru þó viss orð sem fram komu í hans ræðu sem ég vil ekki láta hér ómótmælt og ég kem að síðar. Ég vil þó aðeins líta til baka og athuga aðdraganda þessa máls og þá um leið kannske reyna að gera gleggra um hvað er deilt í raun og veru.

Það var ætlan þeirrar stjórnar, sem vinstri stjórn hefur verið kölluð, að taka upp áætlunarbúskap í ríkara mæli en hér hafði áður átt sér stað. Til þess að standa fyrir slíkum áætlunarbúskap þarf sérstaka stofnun, og ég hygg að þar sem slíkt er viðhaft og unnið að málefnum á þann hátt, þá séu það ein eða fleiri stofnanir sem sérstaklega sinna slíkum málum. Ég held t. d. að þess megi finna ýmis dæmi í löndum þar sem jafnaðarmannastjórnir fara með völd, að þá muni einmitt slík ráð eða n. hafa verið sett á laggirnar. Það voru þessi rök sem lágu til grundvallar því að Framkvæmdastofnun ríkisins var sett á fót. Á þau meginrök féllst hv. 1. flm. þessa frv., eins og hann réttilega gerði grein fyrir áðan, og hans flokkur og taldi heppilegt að koma fastari skipan á þessi mál en verið hafði. En eins og hann líka réttilega sagði, þá hafði vísir að áætlanagerð átt sér stað á ýmsum sviðum og reyndar hjá fleiri en einni stofnun. En ég held að ef á að vinna að áætlunarbúskap og ef það er stefna einnar ríkisstj. að gera það, og það var, eins og ég sagði, stefna fyrrv. ríkisstj., — hvernig svo sem til tókst um það, það fer ég ekki að rökræða hér, — þá held ég að það sé eðlilegt sjónarmið að að framkvæmd þeirrar stefnu vinni pólitískir aðilar. Ég held að ríkisstj., sem hefur slíkt á stefnuskrá sinni, muni tæplega geta fallið frá því sjónarmiði að hafa pólitíska aðila sem eiga að sjá um framkvæmd þeirrar stefnu. Það var það sem vakti fyrir vinstri stjórninni þegar það stjórnarfyrirkomulag var tekið upp sem er í lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins.

Nú er það alveg laukrétt, eins og hv. 1. flm. sagði, að stjórnmálaflokkar skipta oft um skoðun og afstöðu eftir því hvort þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu. Og það var ekkert við því að segja þó stjórnarandstöðuflokkar þá hreyfðu ýmsum athugasemdum. Við þetta frv. voru gerðar ýmsar athugasemdir, og þeir höfðu þá uppi allmiklar hrakspár um það hvernig fara mundi. Ég fylgdi þessu frv. úr hlaði, og ég held að ég hafi látið þess getið bæði í Ed. og Nd. að vitaskuld yrði í þessu efni eins og öðrum að læra af reynslunni og sjá hver reynslan yrði af þessu stjórnarfyrirkomulagi, og því yrði þá að breyta ef það sýndi sig að það ætti ekki við í þessum lögum. Ég er enn alveg sama sinnis, að hvað sem því líður sem einstakir menn hafa sagt þegar ný stofnun hefur göngu sína, þá verður þó alltaf reynslan ólygnust um það hvernig hún hefur gefist og hvernig það stjórnarfyrirkomulag, sem sett var á laggirnar, hefur gefist. Og ég held að það sé ekki hægt að segja með neinum gildum rökum að það stjórnarfyrirkomulag, sem var sett á þessa stofnun, hafi gefist illa. Ég held að það sé ekki hægt að finna stað þeim hrakspám sem voru hafðar uppi áður en hún tók til starfa, að þeir framkvæmdastjórar, sem settir væru, mundu misnota vald sitt í pólitískum tilgangi, — þeir pólitísku „kommissarar“ sem þá voru kallaðir, og „kommissarar“ eru þeir kallaðir enn og það er orðið svo vinsælt heiti að það er orðið gælunafn, en ekki slíkt orð sem því var eiginlega ætlað að vera.

Það er rétt að það hefur verið gerð breyting á þessum lögum frá því sem var í upphafi. Sú breyting var byggð á fenginni reynslu. Það þótti eðlilegt að skilja hagrannsóknadeildina alveg frá og setja sérstaka Þjóðhagsstofnun. Að öðru leyti held ég að þetta kerfi hafi ekki gefist illa.

Ég vil fyrir mitt leyti mótmæla því, — þó að það sé ekki mitt hlutverk sérstaklega að halda uppi vörnum fyrir þá sem gegnt hafa störfum í þessari stofnun, þeir geta sjálfir svarað fyrir sig, — en ég mótmæli því að þeir hafi misnotað vald sitt í pólitískum tilgangi. Og ég skora á menn, sem vilja halda slíku fram, að nefna dæmi máli sínu til stuðnings. Enda er það nú svo að hv. flm. gerði of mikið í sjálfu sér úr valdi þessara „komissara“. Það eru ekki þeir sem fara með endanlega valdið, heldur er það stjórn stofnunarinnar. Þannig veit ég ekki betur en að stjórn stofnunarinnar leggi t. d. samþykki sitt á allar lánveitingar. Það var a. m. k. svo og ég hygg að það sé svo enn og þannig á það að vera samkv. lögunum.

Það er óhjákvæmilegt, að það séu framkvæmdastjórar fyrir þessari stofnun sem sjá um daglegan rekstur hennar, undirbúa till. sem lagðar eru fyrir stjórn hennar. Það er auðvitað aukaatriði, og um það vonast ég til að hv. flm. þessa frv. sé mér sammála, hvort framkvæmdastjóri fyrir þessari stóru stofnun er einn eða tveir eða kannske þrír. Það eru nægileg verkefni fyrir þá þó að þeir séu tveir eða þrír. Nú er það svo að það er jafnvel ómögulegt að finna mann, þó að sérmenntaður sé á því sviði sem Framkvæmdastofnuninni er ætlað að fjalla um, sem hafi ekki neina pólitíska skoðun. Það getur því ekki verið um það að tefla að hv. 1. flm. meini að það sé skipaður einhver pólitískur geldingur, ef ég má svo segja, til þess að vera forstjóri þessarar stofnunar. En það, sem máli skiptir, og það, sem í raun og veru er deiluefnið, er þetta: Á ný ríkisstj. að hafa aðstöðu til þess að breyta um og skipa nýja forstjóra fyrir svona stofnun eða ekki eða á þarna að vera hið gamla kerfi sem er yfirleitt um ríkisstarfsmenn, að þeir séu æviráðnir og það sé ekki hægt að segja þeim upp, hvernig sem á stendur, nema þeir brjóti eitthvað sérstaklega af sér? Þarna er um tvær stefnur að ræða, og mér skilst þá að það sé stefna hv. 1. flm. þessa frv. að í þessa stofnun eins og annars staðar í ríkiskerfinu skuli vera um skipun að tefla, skipun forstjóra þessarar stofnunar ævilangt, hvort sem er einn eða fleiri. Hins vegar er það að þeir séu skipaðir með þeim hætti að hver ríkisstj. geti sagt þeim upp starfi með tilteknum og hæfilegum fyrirvara og skipað aðra í þeirra stað sem hún treystir til þess að framkvæma þá stefnu sem hún markar og vill marka á þessu sviði, t. d. í byggðamálum.

Ég er að meginstefnu fylgjandi síðari kostinum. Ég tel hann eðlilegri þegar um störf eins og þessi er að ræða, að menn séu ekki skipaðir ævilangt til þess að veita forstöðu stofnun sem þessari. Og það er meira að segja svo að það eru uppi háværar raddir í þjóðfélaginu og ég vil segja réttmætar að mörgu leyti, að það eigi að hverfa frá þeirri skipan sem verið hefur á þessum málum hér á landi, æviráðningu, og taka upp skipun á ýmsum embættismönnum til takmarkaðri tíma. Ég held að það geti verið heilbrigð stefna. En hvað sem því líður, þá er hún að mínum dómi eðlileg í þessu tilfelli.

Mergurinn málsins er sá, að ég tel að menn eigi nú að dæma um þessi mál og fyrirkomulag þessara mála, stjórnarfyrirkomulag, eftir þeirri reynslu sem fengist hefur, en ekki eftir spám sem uppi voru hafðar áður en menn höfðu fengið nokkra reynslu af þessu. Þetta er að mínu viti mergurinn málsins. En það er svo auðvitað, að það er með þessa stofnun eins og aðrar, að það þarf að fylgjast með því og endurskoða löggjöf um hana eftir því sem tímar breytast, þarfir breytast e. t. v. og að fenginni reynslu. En það á sem sagt að styðjast við reynsluna.

Auðvitað verður það gert, eins og hæstv. forsrh. tók hér fram áðan, það verður að sjálfsögðu staðið við það fyrirheit í stjórnarsáttmálanum að lögin um Framkvæmdastofnun verði endurskoðuð. En hvort og að hve miklu leyti sú endurskoðun leiðir til breytinga á sjálfu stjórnarfyrirkomulaginu skal ég ekkert fullyrða um á þessu stigi. En ég hef hér lýst skoðun minni á því að ég álít þá stefnu, sem felst í skipan stofnunarinnar, alls ekki óheilbrigða á þann hátt sem hv. 1. flm. vildi vera láta. Ég tel að það megi færa skynsamleg rök fyrir því, að hafa þennan hátt á, að stjórnartímabil framkvæmdastjóra stofnunarinnar sé í raun og veru bundið við æviskeið hverrar ríkisstj. og ný ríkisstj. fái tækifæri til þess að hreyta um stjórn á þvílíkri stofnun.

Ég sagði í upphafi að ég hefði aðallega ætlað að mótmæla hér vissum orðum sem hv. 1. flm. hafði, m. a. því að hann talaði um spillingarkerfi sem þarna væri og hefði átt sér stað. Nú sakna ég vinar í stað. Nú sakna ég þess að hv. formaður Alþfl., Benedikt Gröndal, hv. alþm., skuli ekki staddur hér í þingsalnum. Hann er þó vissulega vitnisbær um það spillingarbæli og spillingarkerfi sem þarna er talið vera. Hann hefur, að ég best veit, átt setu í stjórn þessarar stofnunar frá upphafi. Vill hv. formaður Alþfl. koma hér upp og halda því fram að í þessari stofnun hafi verið um einhverja sérstaka spillingu að tefla? Vill hann halda því fram að stjórn Framkvæmdastofnunarinnar eða framkvæmdastjórar hennar hafi beitt valdi sínu eftir pólitískum sjónarmiðum eða misnotað vald sitt í pólitískum tilgangi? Ég held að það verði erfitt að finna þess dæmi. Hins vegar veit ég að hv. 1. flm. getur farið um landið og kynnt sér hvað gert hefur verið á ýmsum stöðum. Hann mun víða verða var við að fyrirgreiðslu þessarar stofnunar hefur notið við, og hann mun víða verða þess var að ýmis fyrirtæki, þörf atvinnufyrirtæki, smærri eða stærri, sem sett hafa verið á laggirnar á allra síðustu árum, hafa einmitt komist á fót vegna þess að fyrirgreiðslu naut við frá þessari stofnun. Um þetta er að vísu ekki ástæða til að fjölyrða því að ég veit að hann er mér alveg sammála um þetta, enda er hann mér alveg sammála í sjálfu sér um ágæti stofnunarinnar sem slíkrar. En það er bara þetta, sem okkur greinir á um, um reynsluna. Ég held því fram að hún sé ekki neitt viðlíka slæm eins og hv. flm. vill vera láta, að þarna hafi átt sér stað spilling. Okkur greinir enn fremur á um hvort það sé heppilegt í stofnun sem þessari að hafa æviráðningu forstjóra, hvort sem er einn eða fleiri, eða hvort það sé heppilegt að tímabinda ráðningu forstjóra. Ég er á seinni skoðuninni. Hann hefur flutt málið frá því sjónarmiði að það væri betra, að mér skilst, að hafa þarna alveg fastskipaðan embættismann. Ég er satt að segja svolítið hissa á því sjónarmiði hjá hv. flm. En eins og ég sagði áðan, þá tel ég mig ekki eiga að hafa það hlutskipti hér sérstaklega að halda uppi vörnum fyrir þessa stofnun. Jafnvel þótt hv. alþm., formaður Alþfl., Benedikt Gröndal, sé ekki viðstaddur, þá eru hér nægilega margir hv. alþm. sem hafa tekið þátt í störfum þessarar stofnunar og eru færir um að halda uppi skildi fyrir hana ef þess væri nokkur þörf, sem ég tel að ekki sé.