09.12.1975
Sameinað þing: 30. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1015 í B-deild Alþingistíðinda. (670)

307. mál, milliþinganefnd í byggðamálum

Forsrh. (Geir Hallgrímsson) :

Herra forseti. Forsrn. sneri sér til formanns umræddrar milliþn. í byggðamálum, hv. 2. þm. Vestf., Steingríms Hermannssonar, til þess að afla svara við þeirri fsp. er hv. fyrirspyrjandi gerði grein fyrir áðan, og ég held að gleggst sé að ég lesi upp grg. formanns n. um störf milliþn. í byggðamálum, með leyfi forseta. Hljóðar sú grg. svo:

„Á Alþ. 13. apríl 1973 var samþ. þál. sú um mþn. í byggðamálum sem fylgir hér með í ljósriti. Eru í ályktuninni tilgreind meginverkefni n. Á fundi Sþ. 18. apríl 1973 fór fram kosning 7 alþm. til þess að taka sæti í umræddri milliþn. En tilgreindir þm. voru kjörnir: Lárus Jónsson, Steingrímur Hermannsson, Helgi F. Seljan, Matthías Bjarnason, Ingvar Gíslason, Karvel Pálmason og Pétur Pétursson. Með bréfi, dags. 4. maí 1973, skipaði forsrh. Steingrím Hermannsson formann n.

Fyrsti fundur n. var haldinn 5. júní 1973. Ákveðið var að ráða starfsmann. Var Magnús Pétursson hagfræðingur fenginn til þess starfs í um það bil 11/2 mánuð sumarið 1973 og aftur sumarið 1974. Gísli Pálsson nemandi í þjóðfélagsfræði vann einnig að sérstökum verkefnum fyrir n. sumarið 1973.

N. ákvað að leita eftir samstarfi við landshlutasamtökin utan Reykjavíkur og Reykjanessvæðisins. Voru fundir haldnir með þeim öllum sumarið 1973. Einnig var rætt við forstöðumenn Framkvæmdastofnunar, framkvæmdastjóra Húsnæðismálastofnunar ríkisins, póst- og símamálastjóra, vegamálastjóra o. fl. um sérstök málefni sem n. hafði til athugunar. N. ákvað að skipta starfinu í tvo meginflokka: annars vegar athugun einstakra byggðamálefna og hins vegar mörkun almennrar stefnu í byggðamálum. Framan af var áhersla fyrst og fremst lögð á einstök málefni. Var ríkisstj. gerð grein fyrir þeim málefnum, sem n. taldi mikilvægust, með bréfi til forsrh., dags. 8. nóv. 1973. M. a. var lögð áhersla. á eftirgreind málefni:

1. Húsnæðismál. Lögð var áhersla á 6 atriði sem n. taldi mikilvægust til þess að rétta hlut dreifbýlisins í húsnæðismálum. Jafnframt var flutt á vegum n. frv. til laga um örvunarlán vegna almennra íbúðabygginga í dreifbýli.

2. Landshlutasamtökin. N. lagði áherslu á að rammalög fengjust samþ. fyrir landshlutasamtökin, og beitti sér fyrir því, að frv. þess efnis var endurflutt á Alþ.

3. Bygging iðnaðarhúsnæðis í dreifbýli. Á vegum n. var flutt frv. um það mál.

4. Skipting fjármagns til lagningar þjóðvega í kaupstöðum og kauptúnum. N. lagði í fyrrnefndu bréfi og í bréfi dags. 5. des. 1973, til samgrh. áherslu á að vegalögum yrði breytt og aukinn hluti þéttbýlisfjár til framkvæmda í dreifbýli án tillits til íbúafjölda. Var slík breyt. tekin inn í frv. til l. um breyt. á vegalögum, sem flutt var af samgrh. og samþ. á síðasta þingi.

5. Lækkun símakostnaðar í dreifbýli. Á vegum n. var lögð fram till. til þál. um lækkun símakostnaðar í dreifbýli og var sú till. samþ.

6. Athugun á framfærslukostnaði. Á vegum n. var á síðasta þingi flutt till. til þál. um athugun á framfærslukostnaði á nokkrum þéttbýlisstöðum á landinu. Þáltill. þessi var samþ. Hagstofu Íslands var falið að vinna þetta starf og áhersla lögð á að því yrði hraðað. Því er þó ekki lokið enn.

Til undirbúnings mörkunar almennrar stefnu í byggðamálum var samþ. viðamikil starfsáætlun sem gerir ráð fyrir því að safna upplýsingum um hina fjölmörgu þætti byggðamála. Ítarlegum upplýsingum hefur verið safnað frá Skotlandi, Noregi og Svíþjóð um skipulag byggðamála þar. Gísli Pálsson nemandi í þjóðfélagsfræði gerði könnun á byggðaröskun á Íslandi með athugun á tveimur stöðum. Skýrsla um þá könnun kom út í okt. 1973 og var henni dreift til alþm. Magnús Pétursson hagfræðingur tók saman yfirlit yfir heilbrigðismál og Sigfús Jónsson hagfræðingur um þjónustuaðstöðu á Íslandi. Rætt var við fyrirtækið Hagvang um úttekt á ýmsum öðrum þáttum, einkum á sviði atvinnu- og tekjumála, en ekki hefur orðið úr því starfi vegna fjárskorts.

N. stefnir að því, að ganga á þessum vetri frá almennum till. um stefnu í byggðamálum. Í jan. 1974 var dreift á Alþ. skýrslu um störf milliþn. í byggðamálum.

Kostnaður við störf n. hefur verið greiddur úr Byggðasjóði. Í fyrrnefndri skýrslu í jan. 1974 kom fram að kostnaður árið 1973 var 543 364 kr. Var þar fyrst og fremst um að ræða launakostnað vegna starfsmanna og ferðakostnað vegna funda með stjórnum landshlutasamtaka o. fl. Kostnaður árin 1974 og 1975 er um 700 þús. kr.

F. h. milliþinganefndar um byggðamál,

Steingrímur Hermannsson.“

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að bæta neinu við þessa grg.