09.12.1975
Sameinað þing: 30. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1017 í B-deild Alþingistíðinda. (671)

307. mál, milliþinganefnd í byggðamálum

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég hef að sjálfsögðu litlu við það að bæta sem hæstv. forsrh. sagði. En ég vil aðeins leggja áherslu á það við hv. fyrirspyrjanda, að n. hefur fullan hug á því að ljúka sínum störfum og það sem fyrst.

Þess var getið í þeirri skýrslu sem hæstv. forsrh. las, að nefndin hefði safnað miklum upplýsingum frá nágrannalöndum okkar um skipulag þessara mála. Ég fór í slíka ferð og kynnti mér þessi mál vel, reyndar ásamt fleirum, m. a. þm. Það er ekki eins einfalt mál að móta heildarstefnu og sumir ætla e. t. v. og mikil spurning hvernig sú stefna á að vera eða hve nákvæm hún á að vera. Ég hef ekki tíma til að rekja það hér á þessum stutta tíma.

Ég vil þó geta þess að norðmenn sem hafa unnið einna mest starf á þessu sviði, setja stefnuna ákaflega einfalda fram. Hún er raunar bara ein: að skapa jafnvægi í byggð landsins sem við höfum talað hér um í áratugi. Að vísu eru síðan talin mörg undirmarkmið, eins og t. d. atvinnuöryggi og sambærileg þjónusta, og það síðan flokkað áfram niður skalann.

Ég lít svo á að það eigi að vera hlutverk

þessarar n. og ég vænti þess að hún ljúki því í vetur að koma fram með þál. sem markar þessa meginstefnu. En ég hefði gjarnan viljað að hún gæti verið nokkru nánari og nokkru nákvæmari en sú stefna sem ég nefndi að norðmenn hefðu markað, en eins og ég sagði áðan er það ekki auðvelt starf, og ég hygg að til þess að það megi vinnast vel þurfum við að finna góðan starfsmann. Það er von til þess nú að sá starfsmaður fáist.