09.12.1975
Sameinað þing: 30. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1018 í B-deild Alþingistíðinda. (674)

66. mál, skuttogarakaup

Fyrirspyrjandi (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera hér fram tvær fyrirspurnir til hæstv. forsrh. um skuttogarakaup. Það er óþarfi af minni hálfu að hafa nokkurn formála fyrir þessum fyrirspurnum, en þær hljóða þannig:

„1. Hvað er ríkisstj. kunnugt um áform og óskir útgerðaraðila í landinu um skuttogarakaup?

2. Hver er afstaða ríkisstj. til slíkra áforma og óska?“

Ég tel eðlilegt að þessar fyrirspurnir komi fram. Það er eðlilegt að þingheimur fái vitneskju um hvað er að gerast í þessum málum og hver sé afstaða ríkisstj. til þessa máls, en að öðru leyti gefst auðvitað ekki ráðrúm hér til þess að ræða þessi mál ítarlega.