09.12.1975
Sameinað þing: 30. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1019 í B-deild Alþingistíðinda. (675)

66. mál, skuttogarakaup

Forsrh. (Geir Hallgrímsson) ; Herra forseti. Vegna fsp. hv. 1. þm. Norðurl. e. á þskj. 71 um skuttogarakaup, sem hann hefur gert grein fyrir, vil ég segja eftirfarandi varðandi fyrri spurninguna:

Ríkisstj. hafa borist umsóknir frá 6 aðilum um kaup á 7 skuttogurum frá Noregi, en þessir aðilar eru:

1. Vinnslustöðin hf., Fiskiðjan hf. og Ísfélag Vestmannaeyja hf., Vestmannaeyjum, sem sækja um 2 togara.

2. Væntanlegt hlutafélag á Húsavík um 1 togara.

3. Útgerðarfélag Þórshafnar hf., sem sækir um 1 notaðan togara.

4. Fiskiðjan hf., Keflavík, og Miðnes hf., Sandgerði, um 1 nýjan togara.

5. Ólafur S. Lárusson hf., Keflavík, 1 nýjan togara.

6. Bragi hf., Borgarklettur hf. og Hraðfrystihús Breiðdælinga hf., Breiðdalsvík, um 1 nýjan togara.

Auk þessa hefur sjútvrn. orðið vart við áhuga aðila á Vopnafirði, Hólmavík, Ólafsfirði og Tálknafirði á skuttogarakaupum.

Um 2. spurningu á þskj. 71 vil ég segja þetta: Afstaða ríkisstj. til fiskiskipakaupa erlendis frá er mörkuð með samþykktum hennar á verklagsreglum um meðferð á umsóknum um fiskiskipakaup hinn 25. nóv. s. l., en þar segir:

1. Ríkisábyrgðir verða ekki veittar í sambandi við kaup og innflutning á fiskiskipum.

Þessa reglu yrði að endurskoða þegar ástæða þykir til. Hér er um það að ræða að ríkisábyrgðir um allt að 13% verða ekki veittar eins og á stendur til viðbótar lánum Fiskveiðasjóðs vegna kaupa á fiskiskipum erlendis frá sem hafa numið 2/3 kaupverðs.

2. Fylgt verði reglum lánanefndar um innflutning fiskiskipa, enda verði reglum n. breytt á þann veg að ekki verði leyfðar erlendar lántökur vegna kaupa á fiskiskipum umfram lán Fiskveiðasjóðs. Umsóknum til langlánanefndar skulu fylgja: a) Umsögn viðskiptabanka viðkomandi um fjárhagsstöðu hans og með hvaða hætti kaupin yrðu fjármögnuð. b) Staðfesting stjórnar Fiskveiðasjóðs Íslands um að sjóðurinn muni veita stofnlán til viðkomandi skipakaupa og með hvaða hætti. c) Yfirlýsingar annarra sjóða um lánveitingar til viðkomandi skipakaupa ef um slíkt er að ræða.

Athygli er vakin á því, að hér hefur aðeins verið fjallað um innflutning fiskiskipa, en varðandi smíði fiskiskipa innanlands gegnir öðru máli. Innlendar skipasmíðastöðvar hafa á undanförnum árum verið byggðar upp, og verður að teljast eðlilegt að það verði fyrst og fremst hlutverk þeirra að halda við fiskiskipaflotanum, en eins og kunnugt er eyðileggjast árlega allmörg fiskiskip. Er hér um verulegt hagsmunamál landsbyggðarinnar að ræða og þeirra sem atvinnu hafa af innlendum skipasmíðum og viðgerðum. Enn fremur má vekja athygli á þeirri nauðsyn að innlendu skipasmíðastöðvarnar kanni möguleika á sölu nýbygginga til erlendra kaupenda ef innanlandsmarkaðurinn þarfnast ekki þeirra skipasmíða.