09.12.1975
Sameinað þing: 30. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1021 í B-deild Alþingistíðinda. (678)

66. mál, skuttogarakaup

Forsrh. (Geir Hallgrímsson) :

Herra forseti. Ég vil láta það koma fram, að með þessum reglum, sem ríkisstj. hefur sett, er ekki verið að banna skipakaup. Í fyrsta lagi er ljóst að unnt er að láta smíða fiskiskip hér innanlands, og það er veruleg fyrirgreiðsla sem þeir menn fá sem það gera. Í öðru lagi er ekki um neitt bann að ræða við innflutningi fiskiskipa erlendis frá, þótt dregið hafi verið úr lánafyrirgreiðslu með þeim hætti að ríkisábyrgð fyrir 13% til viðbótar 67% láni Fiskveiðasjóðs sé nú niður fallin. Ég tel þetta eðlileg viðbrögð við skýrslu fiskifræðinganna hjá Hafrannsóknastofnuninni, og þótt segja megi að þegar til lengdar lætur sé okkar nýi fiskiskipastóll ekki of stór, þá er þó þess að geta að eðlilegt er að sú breyting og þróun, sem átt hefur sér stað og þarf að eiga sér stað í endurnýjun fiskiskipastóls landsmanna, eigi sér nokkurn aðlögunartíma, þannig að ekki valdi búsifjum í ýmsum öðrum greinum útgerðar víða á landinu. Ég er því þeirrar skoðunar að þessi nýja verklagsregla sé skynsamleg og nauðsynleg.