16.10.1975
Neðri deild: 7. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í B-deild Alþingistíðinda. (68)

2. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Ingólfur Jónsson:

Hæstv. forseti. Hæstv. forsrh. hefur örugglega létt miklum áhyggjum af hv. 1. flm. þessa frv. með því að lýsa því yfir að lög um Framkvæmdastofnunina verði endurskoðuð. Þá kemur í ljós hvort hæstv. forsrh. og væntanlega fleiri hv. þm. Sjálfstfl. hafa svipaða skoðun og þeir höfðu 1971. Þegar ríkisstj. var mynduð haustið 1974 var það sett inn í stjórnarsamninginn að lög um stofnunina skyldu endurskoðuð. Það var búist við því að þeirri endurskoðun yrði hraðað meira en orðið hefur. Fjórir alþm. voru skipaðir haustið 1974 til þess að semja drög að frv. til l. um breyt. á lögunum. Þessir þm. voru allir úr stjórnarflokkunum. Þeir skiluðu frv. til hæstv. ríkisstj. og hæstv. ríkisstj. ætlaði sér haustið 1974 að hraða þessu máli. En ég geri ráð fyrir að hv. 1. flm. þessa frv., sem lengi hefur verið á þingi og lifað mörg stjórnarskipti, þekki reynsluna af því að ný ríkisstj., sem ætlar sér að breyta lögum, gerir það ekki alltaf á fyrsta þingi, á fyrsta árinu sem hún starfar. Mér dettur ekki í hug að efast um að hæstv. ríkisstj. beiti sér fyrir breytingu á lögunum.

Það frv., sem hér um ræðir, er ekki stórt í sniðum út af fyrir sig. Það er aðeins um 4. gr. laganna. Það er um að skipa framkvæmdastjóra og að þeir framkvæmdastjórar, sem yrðu skipaðir, ættu þá ekki að hafa „kommissara“ — stimpilinn. Með því að breyta þessu ákvæði í l. ætlar hv. 1. flm. að uppræta alla spillingu í stofnuninni og alla þá spillingu í stjórnkerfinu sem hann var að gefa í skyn að hefði þróast síðan lög um þessa stofnun voru sett og síðan hún tók til starfa.

Hv. þm. nefndi út af fyrir sig ekki í hverju spillingin væri fólgin. Það gerði hann ekki. En hann taldi víst að það væri spilling, og vegna okkar löngu vináttu og samstarfs í ríkisstj. vorkenndi hann mér að hafa tekið að mér það hlutverk að vera formaður í stofnuninni eins og hún væri nú upp byggð. Hv. þm. veit þó að þessi stofnun var og er staðreynd og stjórnlaus mátti hún ekki vera á meðan verið var að breyta lögunum. Einhverjir urðu að taka að sér að vera í stjórn, einhver hlaut að vera formaður. Og eins og hér var minnst á áðan, þá er formaður Alþfl. í stjórninni. Ef þetta væri spillingarbæli, þá hef ég það álit á hv. formanni og landsk. þm. Alþfl. að hann hefði sagt sig úr stjórninni frekar en að starfa í þessu spillingarbæli. Og ef ég hefði búist við því að það væri ekki hægt að reka stofnunina nema með spillingu, þá hefði ég ekki tekið að mér formennsku í þessari stjórn.

Það er ekki langur tími síðan ég tók þátt í störfum í þessari stofnun. Það var í byrjun þessa árs. Ég hef þess vegna ekki kunnugleika af starfsemi stofnunarinnar langan tíma. En ég leyfi mér að fullyrða að á þeim tíma, sem ég þekki til. hefur starfsemin ekki verið rekin með ósiðlegum hætti eða nokkur tilhneiging til spillingar eða hlutdrægni átt sér þar stað.

Það hefur oft verið talað um vald „kommissaranna“ og ég get játað það hér, sem er skjalfest í þingtíðindum, að þegar frv. um Framkvæmdastofnun var til umr. 1971, þá var margt sem ég og fleiri sjálfstæðismenn gagnrýndum í því frv., m. a. að skipa 3 „kommissara“ með þeim hætti sem frv. gerði ráð fyrir. Ýmis fleiri ákvæði í frv. gagnrýndum við. Og vegna þess að við vildum ekki hafa lögin um Framkvæmdastofnun eins og þau voru sett upphaflega beittu sjálfstæðismenn sér fyrir því að fá inn í stjórnarsamninginn ákvæði um, að lögin yrðu endurskoðuð. Ég efast ekkert um að hæstv. ríkisstj. kemur sér saman um endurskoðunina, eins og við fjórmenningarnir, sem vorum settir til þess að semja drög að frv., komum okkur í aðalatriðum saman um brtt. við lögin.

Ég sé ástæðu til þess að upplýsa hér að þeir tveir framkvæmdastjórar, sem nú eru yfir stofnuninni og hafa verið settir, ekki skipaðir, heldur settir, hafa ekki haft tilhneigingu til þess að sölsa undir sig meira vald en eðlilegt er af mönnum sem hafa það hlutverk að fara með daglega stjórn í virðulegri og umfangsmikilli stofnun. Þessir menn starfa eftir heimildum frá 7 manna þingkjörinni stjórn. Í þessari stjórn eiga fulltrúa allir þingflokkar nema sá minnsti. Framkvæmdastjórarnir starfa eftir heimildum sem þeir fá á fundum stjórnar stofnunarinnar. Og það er nú svo að framkvæmdastjórarnir hafa ekki atkvæðisrétt um lánveitingar, heldur eingöngu stjórnin.

Frv. það, sem hér um ræðir, er eingöngu um hvernig skuli fara með skipun eða ráðningu framkvæmdastjóra í stofnuninni. Ég tel eðlilegast að framkvæmdastjórinn eða framkvæmdastjórarnir, ef þeir yrðu fleiri en einn, væru ráðnir af stjórn stofnunarinnar fremur en hann eða þeir væru skipaðir af ríkisstj. Það væri þá svipað og með bankaráðin, þau ráða bankastjórana. Ráðninguna má hafa með þeim hætti sem henta þykir. Það þarf ekki að vera æviráðning. Það má ákveða í ráðningarsamningnum að hann sé uppsegjanlegur með 6 mánaða eða árs fyrirvara. Ég held að með þessum hætti gætu störf framkvæmdastjóranna og sambandið milli framkvæmdastjóranna og stjórnarinnar verið hið ákjósanlegasta, eins og það einnig getur verið með öðru fyrirkomulagi, jafnvel því fyrirkomulagi sem verið hefur.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja meira um þetta atriði málsins, taldi aðeins ástæðu til að fara nokkrum orðum um það að gefnu tilefni frá hv. 1. flm. Ég vil. eins og hér var gert áðan, mótmæla því að spillingarstarfsemi eigi sér stað í stofnuninni. Það hefur ekki gerst síðan ég þekkti þar til og mér dettur ekki í hug heldur að halda því fram að það hafi áður verið. Ég er hins vegar enn sömu skoðunar og ég var 1971, þegar löggjöfin var sett, að ég tel það fyrirkomulag, sem þá var gert ráð fyrir um skipun framkvæmdastjóra, ekki eins og það ætti að vera og ýmislegt fleira í löggjöfinni ekki hentugt og ástæða sé til að breyta. Þar sem drög að frv. liggja hjá hæstv. ríkisstj. um breytingar, þá ætla ég ekki að ræða breytingarnar frekar og alls ekki það frv. sem fjórmenningarnir sendu frá sér. Það verður gert þegar ríkisstj. flytur frv. um þetta efni til breytinga á gildandi lögum.

Hér hefur verið minnst á að Þjóðhagsstofnunin starfi nú eftir sérstökum lögum, aðskilin frá Framkvæmdastofnuninni. Það þótti heppilegra og eðlilegra en að hafa Þjóðhagsstofnunina inni í Framkvæmdastofnuninni undir þeim lögum sem áður voru sett. Reynslan sýndi að það var rétt sem við héldum fram um þetta atriði haustið 1971 þegar frv. til l. um Framkvæmdastofnun var til umr. Í Framkvæmdastofnuninni eru því nú aðeins þrjár deildir.

Það er áætlanadeildin sem allir stjórnmálaflokkar eru sammála um að sé nauðsynleg og eru sammála um að vinni gott starf. Hv. 1. flm. þessa frv. minntist í ræðu sinni áðan á Efnahagsstofnunina. Ég veit að hv. þm. minnist þess hvaða hlut Sjálfstfl. hefur átt að Efnahagsstofnuninni og að hv. þm. minnist þess að Sjálfstfl. hefur verið með því að taka upp áætlanir um framkvæmdir fyrir atvinnuvegina og landshlutaáætlanir og byggja þjóðfélagið upp þannig á skipulegan hátt. Það var þess vegna ekki svo að við værum að gagnrýna frv. til l. um Framkvæmdastofnun 1971 vegna þess að þar væri gert ráð fyrir að halda uppi áætlanagerð, siður er svo. Það viljum við gera og teljum nauðsynlegt og sjálfsagt að verði gert.

Framkvæmdasjóður er ein deildin í Framkvæmdastofnuninni. Framkvæmdasjóður er arftaki Framkvæmdabankans. Ég veit, að hv. 1. flm. þessa frv. man að Sjálfstfl. beitti sér fyrir stofnun Framkvæmdabankans og átti stóran hlut í að tryggja Framkvæmdabankanum tekjur. Þess vegna er öruggt að Sjálfstfl. vill efla Framkvæmdasjóð og dettur ekki í hug að leggja hann niður. En Framkvæmdasjóður var áður í Seðlabankanum og það hvarflaði að mér og fleiri sjálfstæðismönnum að stjórn Framkvæmdasjóðsins, á meðan hann var í Seðlabankanum, væri e. t. v. ódýrari þannig heldur en að flytja hann til í aðra stofnun. Nú hefur Framkvæmdasjóðurinn stækkað og verksvið hans aukist. Það er þess vegna mjög hæpið að það væri rétt og eðlilegt að flytja Framkvæmdasjóðinn aftur inn í Seðlabankann. Það er mjög hæpið, svo að ekki sé meira sagt.

Byggðasjóðurinn er arftaki Atvinnujöfnunarsjóðsins, og ég veit að hv. flm., Gylfi Þ. Gíslason, man vel tildrögin að Atvinnujöfnunarsjóðnum. Hann man að sjálfstæðismenn beittu sér fyrir stofnun Atvinnujöfnunarsjóðsins. Og ég er viss um, að hv. þm. minnist þess líka að viðreisnarstjórnin tryggði Atvinnujöfnunarsjóði tekjur, ekki síst frá álverksmiðjunni. Upp úr atvinnujöfnunarsjóði hefur Byggðasjóður komið og hlutverk Byggðasjóðs og Atvinnujöfnunarsjóðs er það sama. En við stjórnarmyndunina á s. l. ári var stigið mjög stórt spor til þess að efla Byggðasjóð, að tryggja Byggðasjóði 2% tekjur árlega af útgjöldum fjárlagafrv. Með þeim bætti er Byggðasjóður efldur. Á þann hátt fær Byggðasjóður eigið fé og rekstrargrundvöllur hans er tryggður, ekki aðeins í bili eða nútíð, heldur einnig í framtíð, vegna þess að Byggðasjóður hefur þá sérstöðu að fá eigið fé og þarf ekki að berjast í bökkum eins og margir aðrir sjóðir með því að taka erlend lán eða vísitölutryggð lán sem geri rekstrarstarfsemina og framtíð sjóðanna ótrygga. Byggðasjóður ætti að hafa árlega til ráðstöfunar um einn milljarð kr. eða meira þegar endurgreiðslur lána og vextir koma inn. Má segja að nú í verðbólgunni sé þetta ekki ýkja mikið fé, en það er þó það mikið að það munar verulega um það. Og það er rétt, sem var sagt áðan, að lánveitingar úr Byggðasjóði hafa í mörgum tilfellum bjargað atvinnumálum á ýmsum stöðum víðs vegar úti um land.

Ég er alveg sannfærður um að allir hv. alþm., hvar í flokki sem þeir standa, geta verið sammála um nauðsyn þess að efla Byggðasjóðinn. Og það er alveg víst að það er nokkur ábyrgð sem því fylgir að útdeila þessu fé á réttlátan hátt til þess að það komi að sem bestum notum. Þess vegna er það dálítið viðkvæmt og ábyrgðarmikið þegar sagt er að spilling þróist innan veggja Framkvæmdastofnunarinnar. Ef það væri, þá yrði að rífa það upp með rótum strax. Ef spillingin er ekki fyrir hendi, þá er ekki leyfilegt að kasta slíkum fullyrðingum fram. Það vekur tortryggni og það skapar það andrúmsloft, sem ekki er hollt eða heillavænlegt.

Sannleikurinn er sá að það er best að það geti orðið friður um þessa stofnun nú strax á meðan verið er að endurskoða lögin og einnig og ekki síður eftir að ný lög hafa tekið gildi. Það þarf að ske. Og ég held að það ætti að vera frekar möguleiki á því að skapa frið um þessa stofnun heldur en margar aðrar vegna þess að stjórnmálaflokkarnir eiga hlutdeild í stjórn stofnunarinnar. Ef þeir taka þátt í stjórninni og starfseminni og stjórnin er sammála um það, sem gert er, bæði um lánveitingar og annað, þá á ekki að vera möguleiki á hlutdrægni eða rangsleitni í stofnuninni og þá á ekki heldur að vera neinn grundvöllur fyrir rifrildi eða fullyrðingum í þá átt sem hv. 1. flm. viðhafði hér áðan.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð öllu fleiri, að svo komnu að minnsta kosti, en vona að það verði samkomulag í hæstv. ríkisstj. um þær breytingar sem eðlilegt er talið að gera á lögum um stofnunina. Eins og hæstv. dómsmrh. sagði áðan, þá er eðlilegt, að lögin séu endurskoðuð. Ég er sannfærður um að fyrrverandi stjórnarflokkar, sem beittu sér fyrir löggjöfinni, geta fallist á að ýmsir agnúar hafi verið á þeirri löggjöf, eins og oftast vill verða þegar ný lög eru sett, agnúar sem heppilegt er að sníða af þar sem reynslan hefur sýnt að getur farið betur. Þess vegna er það að ég efast ekkert um að hæstv. ríkisstj. ber fram frv. á þessu þingi, eins og hæstv. forsrh. lýsti yfir áðan. En ég get sagt það, að ég hefði talið heppilegra ef hæstv. ríkisstj. hefði flýtt sér meira og þá hefði hv. 1. flm. þessa frv. sem við nú erum að ræða um, losnað við að halda þá ræðu sem hann flutti hér áðan. Það getur vel verið að hv. þm. eigi eftir að sjá það þegar hann les ræðuna yfir, annaðhvort áður en hún fer í prentun eða í þingtíðindunum seinna, að það hefði verið betra að hafa minni fullyrðingar um sumt sem hann sagði áðan.