09.12.1975
Efri deild: 20. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1024 í B-deild Alþingistíðinda. (691)

100. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Á sínum tíma kom það fram í ræðu hv. fjmrh. að mikil umbreyting yrði gerð á skattkerfi landsmanna og virðist nú að við séum að sjá hér fyrstu áhrifin á þeirri kerfisbreytingu sem fram undan er og boðað hefur verið. Hér liggja fyrir í hv. d. tvö frv. varðandi skattmöguleika á fasteignir og skráningu og mat fasteigna. Það er 99. nál. á þskj. 121 og 100. mál á þskj. 122.

Það getur vel verið að það sé nauðsynlegt að færa þetta til verðlagsins í dag, en þetta er ekki alveg einfalt mál. Íbúð eins einstaklings er að vísu skráð hærra í árslok þessa árs. Vegna hvers? Einstaklingurinn hefur sjálfur alls ekki gert neitt fyrir íbúðina. Raunverulega hefur hún rýrnað fyrir áhrif veðrunar og fyrningar, en vegna verðbólgudraugsins hefur hún kannske tvöfaldast á pappírnum eða guð veit hvað. Það er þessi skattstofn, sem er tilbúinn vegna verðbólgudraugsins, sem á að fara að beita margföldun á, og það er mál sem þarf að athuga gaumgæfilega. Hér er viðmiðun að af 2 millj. kr. greiðist enginn skattur — rausnarlega boðið, 2 millj. kr. af fasteign. Hjá gömlu fólki, segjum 70 ára, er það kannske eina verðmætið sem það á og heldur gildi sínu í verðbólgunni. Ég held að þetta þurfi að athuga gaumgæfilega, mjög vel.

Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum um málið við 1. umr., þar sem það fer í n, þar sem ég á sæti, en ég held að hæstv. ríkisstj. verði að gefa gaum að því að margt fólk hefur enga minnstu möguleika til að bera aukna skattbyrði í krónum talið, þó að verðmæti íbúðarinnar sé reiknað í árslok meira en var í ársbyrjun vegna verðbólgunnar einnar, af húsnæði sem það notar eingöngu til að lifa í. Það gegnir öðru máli um húsnæði þar sem atvinnurekstur fer fram, og einnig má þá athuga verðmæti landsins sem er hér í kringum okkur. Hví fylgir ekki frv. um sérstakan skatt á verðmæti lands í nágrenni þéttbýlissvæða eða almennt talað alls staðar á landinu? Hvað gera vegaframkvæmdirnar sem er verið að annast á vissum svæðum á landinu? Að hverju stuðla þær? Verðmæti lands margfaldast, jafnvel tugfaldast á einu ári. Má ekki sækja þangað krónur í tóman ríkissjóð? Má sækja fremur krónur í íbúð gamals fólks eða ungs fólks sem býr í 100 fermetra íbúð og hefur komið sér upp íbúðinni við illan leik og er allt í einu skráð í dag á 10 millj.? Hvaða möguleika hefur þetta fólk til aukinnar skattbyrði úr 20 000 kr. segjum í 60 000 kr.? Ég fæ ekki komið auga á það í skyndingu. Ég segi það alveg hreinskilnislega. Það verður að sannfæra mig um að það sé einhver nýr skattgrundvöllur vegna verðbólgu fyrir hendi. Jú, ríkissjóður þarf meiri peninga, það vitum við, vegna rekstrarútgjalda og aukningar á því sviði, og vissulega er sótt fast að okkur fjvn.-mönnum nú og síminn stansar aldrei næstum allan sólarhringinn til þess að vita hvernig hefur farið með innlögð erindi, svo að hæstv. fjmrh. er vorkunn að reyna að seilast eftir fjármagni til að mæta hinum mörgu röddum þrýstihópanna. En þarf ekki þessi sérstaki skattur betri athugunar við? Hann tók fram í stuttri framsögu að hér væri ekki ætlunin að auka fjölda þeirra manna er greiða skattinn. Það út af fyrir sig er ánægjulegt að heyra. En ég tel að við þurfum að fá mun gleggri og betri grg. fyrir áhrifum þessa gjalds og hvað það þýðir, — miklu betri grein en kemur fram í aths. með frv. og kom fram í framsögu hæstv. ráðh.

Ég vil vekja athygli á þessu strax í upphafi, vegna þess að ég tel óhjákvæmilegt annað, þar sem þessi aukning byggist ekki á neinni sérstakri verðmætasköpun, en við fáum fleiri krónur vegna verðbólgunnar einnar sér, og jafnvel eignir, sem ekkert hefur verið gert við allt árið, ekki einu sinni málað hvað þá meira, eru skráðar jafnvel milljónum hærra í árslok en ársbyrjun. Þetta er mikið vandamál. En skapar þetta grundvöll fyrir margföldun í skattverðmæti — fasteignamatsverðmæti? Er hér um nokkurt raunverulegt verðmæti að ræða? Er þetta ekki eina atriðið, eini hluturinn á Íslandi sem hefur haldið verðgildi sinu? Hitt hefur brunnið upp. Spariféð brennur upp. Fólkið neyðist til að fjárfesta vegna verðbólgunnar.

Ég hef þessar vangaveltur ekki lengri. Ég vildi aðeins undirstrika að þetta er æðiviðkvæmt og erfitt mál og þarf áreiðanlega mjög yfirvegaða athugun, og mér virðist í fljótu bragði að við þurfum í fjh.- og viðskn. að fá gaumgæfilegar upplýsingar um áhrif þess. Nú er þetta eitt af þeim frv. sem eiga að fá skjóta afgreiðslu á síðustu dögum þingsins fyrir jólafrí. Það er afar leiðinlegt að það skuli bera að við slíkar aðstæður og kann að valda því að ekkert má athuga og engu má breyta, heldur aðeins afgr., eins og áður hefur komið fyrir, og það er lítt til sóma þeim er að standa.