09.12.1975
Efri deild: 20. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1026 í B-deild Alþingistíðinda. (692)

100. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki hafa um þetta frv. mörg orð. Ég segi eins og síðasti ræðumaður, þetta á eftir að koma fyrir n. þar sem ég á sæti. En ég vil á sama hátt og hann vara við því að nota eignir sem gjaldstofn yfirleitt. Ég hef ávallt verið á móti skattgjöldum af fasteignum í hvaða mynd sem er. Síðasti ræðumaður gat þess að húsnæði er kannske það eina sem gamalt fólk á, efnalítið fólk og hefur stefnt að því alla sína ævi að koma sér þaki yfir höfuðið og hefur kannske komið því upp fyrir nokkur hundruð þús. kr. fyrir nokkrum árum, síðan er þetta orðið milljónaverðmæti í nýjum og nýjum mötum. Það má segja að þetta sé sparifé þess fólks, — sparifé sem það hefur notað til þess að fjárfesta á þennan hátt. En fólk með samsvarandi tekjur á sama æviskeiði sem hefur notað sína peninga illa eða eytt þeim í annað en að skapa verðmæti til frambúðar fyrir land og þjóð, það sleppur við þessa síendurteknu skattlagningu.

Ég er ekki þar með að segja að það sé ekki nauðsynlegt að taka einhverja skatta af fasteignum. En ég held að þetta sé orðin nokkurs konar eignaupptaka sem er að færast yfir okkur, og ég vara við því að halda áfram að hækka og síhækka fasteignaskatta, því að ég lít á það, eins og margir aðrir gera, sem hreina eignaupptöku. Ég er reiðubúinn til þess að leggja fram í krónutölu hvað það kostar orðið að fara út og inn úr eigin heimili, miðað við að fara einu sinni á dag til vinnu og koma heim að kvöldi. Það skiptir orðið nokkrum hundruðum kr., a. m. k. í því hverfi sem ég bý í í Reykjavík.

Sem sagt, ég hef þessi orð ekki fleiri, en ég vil aðeins tala þessi varnaðarorð og lít á þessa braut sem nokkurs konar eignaupptöku sem ég vit vara við.