09.12.1975
Efri deild: 20. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1026 í B-deild Alþingistíðinda. (694)

98. mál, lækkun lögbundinna framlaga á fjárlögum

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen) :

Herra forseti. Sem kunnugt er byggjast ákveðnir útgjaldabálkar fjárlaga á sérlögum og verður ekki náð langt í þeirri viðleitni að hafa hemil á vexti ríkisútgjalda án þess að breyta slíkum sérlögum. Með þessu frv. er leitað heimildar til þess að lækka á árunum 1976 og 1977 um 5% þau útgjöld, sem byggð eru á sérstökum lögum, og hafa viðkomandi gjaldaliðir í fjárlagafrv. fyrir árið 1976 verið áætlaðir á þessari forsendu. Er þetta liður í þeirri stefnu ríkisstj. að stuðla að bættu efnahagsjafnvægi innanlands og í utanríkisviðskiptum. Í þessu efni eru þó framlög til almannatrygginga sérstaklega undanskilin í þessu frv. þar sem gert er ráð fyrir sérstökum ráðstöfunum á því sviði.

Við mat á aðstæðum, þegar ákveðið var að draga með þessum hætti úr sjálfvirkni vaxtar ríkisútgjalda, komu svokallaðir markaðir tekjustofnar sérstaklega til álita. Því er þannig háttað, að þessir tekjustofnar ganga ýmsir óbreyttir sem sama fjárhæð gegnum tekju- og gjaldahlið fjárlaga og ríkisreiknings eða við þá er bætt mótframlagi í gjaldahlið sem beinu ríkissjóðsframlagi. Varð niðurstaðan sú, að ekki væri rétt að láta skerðinguna ná til þeirra tekjustofna sem fara óbreyttir í gegnum gjaldahlið, heldur skyldi skerðingin miðast við stofna þar sem hreint ríkissjóðsframlag bættist við í gjaldahliðinni. Veigamestu framlögin af þessu tagi eru þau sem renna í Byggingarsjóð ríkisins.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um frv. Í grg. er getið þessara atriða og að sjálfsögðu eru allar upplýsingar til reiðu fyrir hv. n. sem fjallar um þetta frv.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.