09.12.1975
Efri deild: 20. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1028 í B-deild Alþingistíðinda. (696)

98. mál, lækkun lögbundinna framlaga á fjárlögum

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen) :

Herra forseti. Ég vil taka undir orð hæstv. forsrh. áðan þegar hann óskaði hv. 1. landsk. til hamingju með hitaveituna. Ég efast ekkert um að hann fær lagfæringu á því sem þar fór úrskeiðis í nótt, og sem betur fer var ekki slíkur kuldi að jafnvel þótt hitaveitan hefði ekki verið í lagi, þá færi illa hjá honum.

Í sambandi við það frv., sem hér er til meðferðar, er að sjálfsögðu hægt að fá í n. lista yfir þær lækkanir sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv., til þess að nm. þurfi ekki að hafa fyrir því að fletta öllum fjárl. Þann lista skal ég láta senda nm.

Varðandi það, að hér er um að ræða heimild til lækkunar 1976 og 1977, heimild til lækkunar þannig, að ef mál skipast þannig 1977, þá er hér aðeins um heimildarákvæði að ræða, en ekki skuldbindandi, þannig að hv. þm. þarf ekki að óttast það atriði út af fyrir sig.

Þá vék hann að því sem gerst hefur, að fjvn. hefur oft kallað á sinn fund forstjóra fyrir fyrirtækjum ríkisins og rætt við þá, fengið upplýsingar og greinargerðir um ríkisfyrirtækin. Ég hef sömu skoðun á því og fyrirrennari minn, að það er mjög þýðingarmikið fyrir fjmrn. að fjvn. standi að öllum þeim aðhaldsaðgerðum sem þar eru gerðar, og af minni hendi er að sjálfsögðu allt til reiðu um að boða slíka menn til fundar. Það er aðeins frumkvæði að mínum dómi frá n. sem þarf að koma til, og þá stendur ekki á fjmrn. að stuðla að því að fjvn. fái tækifæri til þess að ræða við þessa menn og sýna þeim þar með að fjárveitingavaldið, fjvn. Alþingis, vill fylgjast með hvernig þessar stofnanir eru reknar, og það styður þá viðleitni fjmrn. í þessu atriði.