10.12.1975
Efri deild: 21. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1035 í B-deild Alþingistíðinda. (713)

96. mál, sjúkraþjálfun

Oddur Ólafsson:

Herra forseti, Ég vil þakka hæstv. heilbr.- og trmrh. fyrir að þetta frv. er fram komið. Sannleikurinn er sá að efling sjúkraþjálfunar er íslenskri heilbrigðisþjónustu geysilega verðmæt, og ég álít að þetta frv. sé liður í því. Það er nú svo komið að innan skamms mun hefjast kennsla í sjúkraþjálfun við okkar háskóla, og þetta er mál sem búið er að dragast árum saman, en er okkur mikil nauðsyn. Það er vaxandi þörf fyrir sjúkraþjálfara, og þeirri þörf hefur ekki verið fullnægt á undanförnum árum. Við höfum orðið að leita út fyrir landssteinana eftir starfsliði og hefur háð heilbrigðisþjónustunni mjög mikið sá skortur sem verið hefur í þessari heilbrigðisstétt. Því vona ég að þetta frv. verði til úrbóta á því ástandi sem er og verið hefur á undanförnum árum.