10.12.1975
Efri deild: 21. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1035 í B-deild Alþingistíðinda. (715)

92. mál, útvarpslög

Flm. (Steingrímur Hermannsson) :

Herra forseti. Á þskj. 105 flyt ég ásamt tveimur öðrum hv. þm. frv. til l. um breyt. á útvarpslögum sem miðar að því að hraða framkvæmdum á sviði hljóðvarps og sjónvarps sem tryggi að landsmenn allir fái notið slíkrar útsendingar. Ég hef ásamt ýmsum öðrum þm. Framsfl. flutt á undanförnum þingum þáltill. um sama eða svipað efni og aðrir hv. þm. úr öðrum flokkum hafa einnig flutt um það till. Fsp. hafa verið margar um framkvæmd á þessum þætti, en það hefur stoðað lítið. Framkvæmdir hafa verið ákaflega litlar undanfarin þrjú ár, og virðist nánast að staðar sé numið þar sem komið er með þessi mikilvægu hlunnindi. Það er ekki að ástæðulausu að menn hafa reynt að ýta við þessu máli. Áreiðanlega er hljóðvarp og sjónvarp ein sú tækni sem tengir einna best saman þessa þjóð og brúar æðioft erfiðar samgöngur, lokaða fjallvegi og sker á þá einangrun sem töluverður hluti landsmanna býr við, oft verulegan hluta á ári. Ég held að það verði ekki ofsagt, að þetta er einhver mikilvægasti þátturinn til þess að brúa langar fjarlægðir og færa þjóðina saman án þess að flytja hana alla á Suðvesturlandið.

Ágætar upplýsingar um ástand á þessum sviðum er að finna í áætlunum sem dreift var á Alþ. s. l. vetur. Það eru áætlanir um sjónvarpsdreifikerfið fyrir hafsvæðið umhverfis Ísland, áætlanir um framkvæmdir við sjónvarpsdreifikerfið og loks um framkvæmdir við hljóðvarpsdreifikerfið. Ég vil — með leyfi forseta — vísa til þessarar skýrslu og vitna þar í um nokkur atriði.

Mjög hefur verið kvartað undan því, að hljóðvarpsútsendingar náist illa á sumum fjarlægari stöðum, eins og t. d. á Austfjörðum. Þetta er staðfest í þeim áætlunum, sem fram koma í fyrrnefndum skýrslum um nauðsynlegar endurbætur á hljóðvarpsdreifikerfi, og þar er talið nauðsynlegt að reisa svokallaða FM-senda, sem eru kannske ekki truflanalausir, en verða minna fyrir truflunum frá sterkum stöðvum sem eru í nágrenni okkar. Sömuleiðis er talið nauðsynlegt að endurbyggja langbylgjustöðvar og reisa eina á Austfjörðum fyrir þann landshluta, sem eins og ég sagði áðan er einna verst settur að þessu leyti. Þó mun vera víðar um landið í hinum afskekktari hlutum þess, afskekktari byggðum, að hljóðvarp næst stundum illa og verður fyrir verulegum truflunum, sérstaklega frá sterkum stöðvum, en hvergi mun þetta þó vera eins víðtækt og á Austfjörðum. Þarna þarf því nauðsynlegar framkvæmdir til þess að tryggja að þessir landsbúar nái hljóðvarpssendingum sem stundum nást nú ekki alllangan tíma.

Í þessum áætlunum er jafnframt að finna ítarlegar upplýsingar um dreifingu sjónvarps, Fyrsta sendistöðin var tekin í notkun 24. des. 1965, var þá eins konar jólagjöf til þessarar þjóðar. Á árunum 1966–1972 voru síðan reistar margar sendistöðvar um land allt, en á árunum 1973–1974 og 1975 hafa hins vegar orðið ákaflega litlar framkvæmdir. Mikið hefur þó unnist. Talið er að um 98.5% þjóðarinnar geti nú notið sjónvarpssendinga með sæmilegu móti. 9 aðalstöðvar hafa verið reistar og 68 endurvarpsstöðvar. Einnig hafa verið reistar allmargar bráðabirgðastöðvar sem voru einkum teknar í notkun á árunum 1967–1970, en margar þeirra eru þannig úr garði gerðar að nú er orðið ákaflega brýnt að endurnýja þær og þá talið sjálfsagt að reisa á þessum stöðum endanlegar stöðvar, annað varla talið fjárhagslega rétt.

Gerð hefur verið athugun á því, hvað þurfi að gera til að koma sjónvarpi til þeirra landsmanna sem ekki ná því í dag. Gert er ráð fyrir því, að reisa þurfi 8 nýjar stöðvar sem ná til notenda sem eru yfir 50 talsins frá hverri þessara stöðva. Hins vegar eru margir sem ekki ná slíkum sendingum, og er talið nauðsynlegt að reisa 150 smærri stöðvar sem mundu þjóna allt frá einum notanda og upp í 7, þ. e. a. s. einu sjónvarpstæki og upp í 7 móttökutæki. Þessar minni stöðvar yrðu af mjög ódýrri gerð og ekki sérstaklega byggt yfir þær. Þær yrðu í járnhúsum, sem hægt væri að flytja á staðina og brott til viðgerðar og gæti þá orðið eitthvert hlé á útsendingum þegar það þarf að gera, en það er talin hagkvæmasta leiðin til þess að fullnægja þessari mikilvægu þörf.

Gerð hefur verið athugun á sjónvarpsdreifikerfi fyrir hafsvæðið umhverfis Ísland og er að finna mjög ítarlega grg. um það í þeirri áætlun sem ég nefndi áðan. Eins og vænta má voru stöðvar sem fyrst voru reistar, ekki gerðar með þetta beinlínis í huga. Á síðara skeiði þessara framkvæmda var hins vegar horfið að því ráði að beina geisla slíkra stöðva, sem yrðu staðsettar nálægt sjó, út á miðin, og nást þannig sjónvarpssendingar nokkuð víða. Eru taldar 11 stöðvar í þessari skýrslu, sem hafa þannig að nokkru leyti fullnægt þessu sjónarmiði, en þó hvergi nærri á fullnægjandi hátt. Við þessa athugun og að höfðu samráði við Farmanna- og fiskimannasamband Íslands er talið æskilegt að sjónvarpsstöðvar nái 20–30 sjómílur frá grunnlínupunktum, að undanskilinni Kolbeinsey, eins og segir í þessari skýrslu, og er þessi athugun byggð á þeim forsendum. Athugunin leiðir í ljós að staðsetning núverandi sjónvarpsstöðva er ekki slík að þær geti komið að miklu gagni fyrir miðin. Til þess að ná út 25–30 sjómílur er nauðsynlegt að sendiorkan sé a. m. k. 10 kw. og að sjónvarpsloftnet verði í 340–600 m hæð og við strönd. Þessu er mjög óvíða fullnægt í þeim stöðvum sem nú eru uppí. Þá er talið mögulegt að stækka 5 núverandi stöðvar þannig að þær geti náð þessu, en jafnframt er talið að byggja þurfi 7 nýjar stöðvar: á Akrafjalli, Kóngshæð við Patreksfjörð, við Siglufjörð, á Kvistarfjalli, Hellisheiði milli Héraðsflóa og Vopnafjarðar, Ósfjalli milli Breiðdals og Berufjarðar, Borgarhafnarfjalli, svo að þær stöðvar séu hér nefndar. Með þessu móti er talið, að á sæmilegan hátt megi ná sjónvarpssendingum til miða, sem eru í fyrrnefndri fjarlægð frá ströndu.

Það er rétt að hafa það í huga, að sums staðar má sameina þetta hvort tveggja: að koma sjónvarpi á miðin og bæta sjónvarpsmóttöku á landi, og er einnig vakin athygli á því í þessari skýrslu. Þó er það óvíðar en kannske mætti ætla, en a. m. k. á þremur stöðum háttar svo til.

Þetta er í grófum dráttum sú framkvæmd sem um er að ræða til þess að tryggja landsmönnum öllum og sjómönnum á þeim miðum, sem nærri liggja, viðunandi móttöku á hljóðvarpi og sjónvarpi. Að sjálfsögðu eru nauðsynlegar ýmsar aðrar almennar endurbætur á þessum kerfum, — endurbætur sem eru ákaflega eðlilegar eftir nokkurn starfstíma og ekki síst vegna þess að tækni hefur fleygt fram. T. d. er nú unnið að því að koma upp örbylgjukerfi fyrir sjónvarpið. Það kerfi er ákaflega mikilvægt, þannig að flytja megi myndir á sem bestan máta á milli landshluta, og að sjálfsögðu þjóna slík örbylgjukerfi einnig þeim sem fjær eru staddir. Þó er það skoðun mín að leggja beri fyrst og fyrr áherslu á bað, að koma sæmilegri sjónvarpsmóttöku til landsmanna allra. Örbylgjukerfið fylgir þá í kjölfarið og kemur öllum til góðs. Að því er reyndar þegar unnið og væntanlega verður unnt að ljúka því fljótlega með þeim tekjustofnum sem sjónvarpið hefur nú.

Við allar umr. um þessi mál hefur komið í ljós að tryggja verður tekjustofn til að standa undir slíkum framkvæmdum. Fjárhagur Ríkisútvarpsins hefur ekki verið slíkur að hann hafi leyft verulega ráðstöfun fjármagns til þessara framkvæmda, þótt eins og ég sagði áðan og ég vil undirstrika sé skoðun mín að þessi þáttur hafi þar því miður orðið nokkuð útundan.

Ég vil geta þess að ég hef fengið í hendur greinargerð sem Ríkisútvarpið lét frá sér fara til hæstv. menntmrh. 30. júlí s. l. Þar kemur fram mjög ákveðinn vilji til þess að vinna samkv. áætlun að endurbótum á þessu sviði, þ. e. a. s. koma viðunandi móttöku til allra landsmanna, og þar eru settar fram hugmyndir um slíka áætlun, en þar kemur einnig mjög ákveðið fram, að Ríkisútvarpið telur sig þurfa að fá sérstakan tekjustofn til þess að geta tryggt nokkuð samfellda framkvæmd á þessu sviði. Það er e. t. v. hægt að hlaupa í einstakar framkvæmdir, en ef um samfellda framkvæmd á að vera að ræða leggur Ríkisútvarpið áherslu á að fá til þess markaðan tekjustofn.

Með tilliti til þessara upplýsinga höfum við þremenningarnir flutt það frv. sem ég nefndi í upphafi míns máls. Við gerum þar ráð fyrir að tvær nýjar gr. komi inn í útvarpslögin.

Í fyrsta lagi gerum við ráð fyrir því að á eftir 9. gr. l. komi ný gr. sem verði 10. gr., og fellur hún inn í þann kafla sem fjallar um hlutverk Ríkisútvarpsins. Við gerum þar ráð fyrir því að Ríkisútvarpinu verði skylt að leggja áherslu á að koma fullnægjandi hljóðvarps- og sjónvarpssendingum til allra landsmanna og til sjómanna á fiskimiðunum í kringum landið, eins og tæknilega og fjárhagslega er talið kleift. Okkur þótti rétt að hafa þarna orðin „tæknilega og fjárhagslega“, því að viðurkenna verður að fjárhagslega og tæknilega er ákaflega erfitt t. d. að koma sjónvarpi til sjómanna sem eru á hinum fjarlægari miðum, við skulum segja út við jaðar okkar nýju 2011 sjómílna fiskveiðilögsögu. Þetta verður að viðurkenna. Vel má vera að tækni fleygi svo fram á næstu árum að þetta verði þá kleift og þá að sjálfsögðu fellur það innan þess ramma sem hér er gert ráð fyrir. Einnig má vera að einhver einstök býli séu þannig innilokuð eð þau nái ekki sjónvarpssendingum, þótt að vísu megi með ýmsum tilfærslum víðast hvar, að því er mér virðist og ég best þekki, ná til þeirra.

Við segjum síðan: „Ríkisútvarpið skal láta gera og leggja fram áætlun til þriggja ára í senn um framkvæmdir þessar.“ Okkur þykir mikilvægt að fyrir liggi framkvæmdaáætlun sem landsmenn eigi aðgang að og viti því hvenær þeir mega vænta þess að fá notið þessara mikilvægu hlunninda. Jafnframt segjum við: „Til þessara framkvæmda skal varið fjármagni því sem fæst samkv. 17. gr., að viðbættu fjármagni sem veitt er til slíkra framkvæmda af öðrum tekjum ríkisútvarpsins og af fjárlögum.“ 17. gr., sem ég kem að á eftir, fjallar um þennan sérstaka tekjustofn. Hins vegar er að sjálfsögðu ljóst að sá sérstaki tekjustofn á ekki að draga úr öðrum fjárveitingum, sem veittar eru í þessu skyni af öðrum tekjum Ríkisútvarpsins, eins og t. d. innflutningsgjöldum, eða fjárveitingavaldið kynni að vilja veita til þessara mála á fjárl. hverju sinni. Og það þarf vitanlega ekki að taka fram, að Ríkisútvarpinu er að sjálfsögðu heimilt að taka lán til þess að hraða þessum framkvæmdum og hefur þá þennan tekjustofn til að endurgreiða slík lán. Okkur þótti ekki þörf á að taka það fram.

Í 2. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir nýrri gr. á eftir núverandi 15. gr., sem fjallar um það hvernig tekna verði aflað til þessara framkvæmda. Við leggjum þar til að 10% viðaukagjald verði lagt á afnotagjald af hljóðvarpstækjum annars vegar og sjónvarpstækjum hins vegar, og við tökum fram að þetta gjald skuli lagt ofan á það afnotagjald sem ákveðið er hverju sinni vegna annarra fjárþarfa Ríkisútvarpsins. Við gerum m. ö. o. ekki ráð fyrir að þetta viðaukagjald skerði þær tekjur sem Ríkisútvarpið fær með afnotagjöldum.

Þetta er mikilvægt atriði. Þetta kemur að litlum notum ef sá háttur verður á að tekjur Ríkisútvarpsins skerðist, eins og ljóst ná vera. Við gerum einnig ráð fyrir því, að þessi viðauki verði innheimtur sérstaklega af hljóðvarpstækjum og sérstaklega af sjónvarpstækjum og gerum ráð fyrir að tekjurnar renni í fyrsta lagi af hljóðvarpstækjum til framkvæmda á því sviði og í öðru lagi af sjónvarpstækjum til framkvæmda á sviði sjónvarps. Um þetta má að sjálfsögðu deila, og við erum vitanlega til viðræðu um breytingu á þessu, en okkur þótti eðlilegt að haga málum á þennan hátt. Við gerum loks ráð fyrir því, að gjald þetta verði ekki innheimt lengur en framkvæmdir standa yfir, þ. e. a. s. gjaldið verði ekki innheimt eftir að framkvæmdum er lokið. Hins vegar verður það kannske seint.

Í grg. með þessu frv. eru áætlaðar tekjur. Þar er bent á að afnotagjald af hljóðvarpi er nú 3800 kr. á ári, en af sjónvarpstæki 8400 kr. Hér er því um að ræða 380 kr. viðaukagjald af hverju hljóðvarpstæki og 840 kr. viðaukagjald af sjónvarpstæki. Ég vil leyfa mér að vona að enginn muni sjá eftir þessu gjaldi til þess að tryggja öðrum landsmönnum einnig afnot af þessum mikilvægu hlunnindum. Ég trúi því ekki að nokkur sjái eftir því. Heildartekjur yrðu þá samkv. þessu 24 millj. á ári af hljóðvarpstækjum, afnotagjöld eru nú áætluð 240 millj., en af sjónvarpstækjum, þar sem afnotagjöld eru áætluð 400 millj., yrðu tekjurnar um 40 millj. kr. Ég viðurkenni að þetta eru ekki miklar tekjur og hrökkva satt að segja allt of skammt, og við flm. erum sannarlega til viðræðu um að þetta gjald verði hækkað ef hv. þm. sýnist það nauðsynlegt. Hins vegar vil ég leggja áherslu á að aðrar tekjur eiga að koma þarna til viðbótar, því að slíkar framkvæmdir hljóta að sjálfsögðu að falla inn í það sem verið er að gera nú á vegum Ríkisútvarpsins, og einnig má hraða framkvæmdum með lánsfé.

Í fyrrnefndri áætlun er að finna upplýsingar um kostnað við þessar framkvæmdir. Þar er m. a. kostnaður við styrkingu hljóðvarpskerfisins áætlaður samtals 650 millj., en þar ber þess að gæta að þar eru með stórir liðir sem eru sjálfsagðir og nauðsynlegir vegna hins almennarekstrar hljóðvarpsins og verða að koma hvort sem þeir fáu fá endurbætur sem ekki njóta hljóðvarps vel í dag, og það er að sjálfsögðu ekki rétt að slíkar framkvæmdir greiðist af þessu sérstaka viðaukagjaldi. Ef það er dregið frá má lækka þennan kostnað verulega, a. m. k. niður í um það bil 400 millj. og rannar kannske töluvert neðar. Þetta er að vísu byggt á áætlunum frá haustinu 1974 og hefur að sjálfsögðu hækkað síðan allverulega.

Einnig er að finna í þessari skýrslu yfirlitsáætlanir um framkvæmdir við dreifikerfi sjónvarps. Það eru taldir upp tíu liðir og heildarkostnaðurinn er 1310 millj. kr. Þar í eru einnig stórir liðir sem að mínu mati geta ekki fallið undir það sem þetta gjald á að standa straum af. Þar er t. d. örbylgjukerfið, metið á 110 millj. kr., á verðlagi ársins 1976, og fleira má þar til telja sem ég tel ekki ástæðu til að fara út í, en sérfróðir menn á vegum Ríkisútvarpsins geta auðveldlega sundurgreint. Hins vegar vil ég geta þess, að þrír mikilvægustu þættirnir í styrkingu sjónvarpskerfisins á landi eru í þremur töflum sem eru í þessari skýrslu, og ég hef fengið endurskoðaða kostnaðaráætlun um þá þrjá þætti. Það er í fyrsta lagi kostnaðaráætlun vegna aðkallandi verkefna við endurbyggingu eða endurbætur nokkurra endurvarpsstöðva sjónvarpsins, en það mætti, að því er mér skilst, falla undir þennan lið þótt um það megi sannarlega deila. Þessi kostnaður var áætlaður 22.9 millj., en í júní 1975 er hann áætlaður 35 millj. kr. Þar er einnig áætlaður kostnaður við endurbætur og frágang ýmissa bráðabirgðastöðva sjónvarpsins, sem ég nefndi í ræðu minni áðan að eru nokkuð margar. Það eru taldar 17 á þessum lista. Þessar endurbætur nema 35.4 millj. kr., en eru á verðlagi síðsumars 1975 53.6 millj. kr. Ég hygg að flestar þessar endurbætur megi fella undir þennan þátt, því að hér er um bráðabirgðastöðvar að ræða fyrir dreifbýlið. Þó er ekki óeðlilegt að töluverður hluti þeirra falli undir annan viðhaldskostnað sjónvarpskerfisins. Og loks er kostnaðaráætlun við nýjar endurvarpsstöðvar sem þjóna 50 íbúum eða fleiri, að vísu er ein stöð, tengistöð, sem er talin þjóna 35. Þær eru 14 talsins og falla allar undir þennan þátt. Áætlaður kostnaður var 49.5 millj., en á verðlagi síðsumars 1976 76.65 millj.

Það er því ljóst að með þessum tekjustofni má hraða mjög þessum mikilvægu framkvæmdum, ekki síst ef lánsfé verður fengið sem greiðist þá af þessum og öðrum tekjum ríkissjónvarpsins. Það er því skoðun okkar að þessi tekjustofn, sem ég viðurkenni að er ekki ýkjahár, — þótt hann skipti tugum millj., þá er hér um það miklar framkvæmdir að ræða að hann mætti vera meiri, — sé mjög mikilvægur til að tryggja framhald þessa verkefnis og tryggja að það verði ekki stöðvað, það verði haldið áfram og þróunin stefni í rétta átt.

Að lokinni þessari umr. legg ég til að frv. verði vísað til 2, umr. og hv. fjh.- og viðskn.