10.12.1975
Efri deild: 21. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1040 í B-deild Alþingistíðinda. (716)

92. mál, útvarpslög

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hér er hreyft hinu þýðingarmesta máli. Ég ætla ekki að fara að ræða þetta mál hér efnislega, en taldi rétt aðeins að segja nokkur orð við 1. umr.

Ég vil þá fyrst af öllu segja það, að ég tek undir allt sem hv. 2. þm. Vestf. sagði um mikilvægi þessa máls. Ég hygg að það verði ekki um það deilt að hér er um að ræða óleyst verkefni sem þarf að leysa.

Það var og ágætt að hv. 2 þm. Vestf. rifjaði hér upp þá skýrslu sem hæstv. menntmrh. gaf Alþ. á síðasta þingi um verkefni sem vinna þarf.

Hv. 2. þm. Vestf. vék aðeins að því að þetta mál hefði verið töluvert á dagskrá, bæði af hans hálfu og annarra, á undanförnum þingum. Og það er auðvitað rétt, eins og annað sem hv. 2. þm. Vestf. sagði um þetta mál. Ég vil þó aðeins með nokkrum orðum koma inn á það atriði og vekja þá athygli á því, að af mér og fleirum hefur verið gerður mjög glöggur munur á þessu vandamáli á tvennan hátt: Annars vegar er það vandamál sem lýtur að því að koma í framkvæmd því verkefni að allir landsmenn geti haft aðstöðu til þess að njóta þess menningartækis sem sjónvarp er. Hins vegar er að leysa ýmis aðkallandi verkefni við dreifingu hljóðvarps og sjónvarps þar sem hljóðvarps- og sjónvarpsskilyrði eru fyrir hendi þegar í dag þó að með mismunandi hætti sé. Með tilliti til þessa bar ég fram á þingi 1972–73 ásamt fleiri hv. þm tillögu um að fela ríkisstj. að hlutast til um að Ríkisútvarpið komi upp endurvarpsstöðvum fyrir þá sveitabæi sem njóta ónothæfra eða engra sjónvarpsskilyrða, ríkisstj. skyldi afla sérstaks fjármagns í þessu skyni og stefnt skyldi að því að ljúka framkvæmdum innan tveggja ára. Þetta var á þingi 1972–73. Við flm. þessarar tillögu fluttum á næsta þingi á eftir þessa till. í annað sinn, því að í fyrsta sinn náði hún ekki fram að ganga. Á sama þingi bar hv. núv. 2. þm. Vestf. o. fl. fram sams konar tillögu, sem fór í sömu átt, þannig að þá var nú farinn að breikka mjög stuðningurinn við þessar hugsjónir. En það er leitt að þurfa að rifja þetta upp, en málið náði ekki fram að ganga. Á síðasta þingi heldur málið áfram. Hv. 2. þm. Vestf. flytur till. sem hafði verið flutt árið áður og gekk í sömu átt og mín upphaflega tillaga. Ég og fleiri hv. þm. berum svo fram aðra tillögu um sama efni. En í till. minni og meðflm. minna á síðasta þingi var einnig nýtt atriði, þ. e. að s. hinn þáttur þessa vandamáls, sem lýtur að dreifingarkerfi hljóðvarps og sjónvarps í heild, og var þá komið fram með þá hugmynd að það yrði athugað til þess að leysa þetta aðkallandi og stóra vandamál, hvort ekki, eins og það var orðað, væri rétt að ákveða afnotagjöld með tilliti til þess að föstum hundraðshluta þeirra sé jafnan varið til dreifikerfis hljóðvarps og sjónvarps.

Tillögurnar um þetta efni náðu ekki fram að ganga á síðasta þingi. Það er nokkuð furðulegt í raun og veru, því að allir, sem tóku þátt í umræðum um báðar tillögurnar, voru í raun og veru meðmæltir þeim og hv. fjvn. sýndi skilning, en allt kom fyrir ekki. (Gripið fram í.) Hér er kallað fram í að það hafi ekkert heiðarlegt legið á bak til tillöguna. Ég skal ekki gerast dómari um það, hvað er heiðarlegt af því sem ég stend að eða ekkí. Ég læt hv. 6. þm. Norðurl. e. um að dæma það. En ég hef ekki hugsað mér að gefast upp í þessu máli. Og nú undanfarnar vikur hef ég mjög hugleitt þetta mál og verið að undirbúa næstu aðgerðir í því. Í millitíðinni er svo komið þetta frumvarp sem hér er til umræðu og byggir á sömu hugsun og ég og mínir meðflm. komum fram með í tillögu á síðasta þingi, þ. e. að ákveða afnotagjöld með tilliti til að föstum hundraðshluta afnotagjalda verði jafnan varið til dreifikerfis hljóðvarps og sjónvarps. Þetta þýðir það sama og er í frv. því sem hér liggur fyrir, þótt mismunandi orðalag sé. Ég hef þess vegna ekkert nema gott um það að segja, að þetta frv. er fram komið.

En ég vildi aðeins láta það koma hér fram, að ég er ekki ánægður með suma hluti í frv. Ég viðurkenni að það orkar ýmislegt tvímælis. Þess vegna hef ég verið að ræða þetta við ýmsa aðila á undanförnum víkum, m. a. útvarpsstjóra. Nú á ég sæti í þeirri nefnd þar sem þetta frv. kemur fram, og ég hef þar tækifæri til þess að bera fram og lýsa brtt. við frv. Það mun ég gera, ef ég vel þá ekki hinn kostinn, að bera fram sérstakt frv. sem mundi koma fyrir sömu nefnd og þá hefur nefndin bæði frv. til athugunar. Satt að segja hafði ég hugsað mér, þegar ég væri búinn að undirbúa þetta betur, að ræða við hv. 2. þm. Vestf. og athuga möguleika á því að þessar fríðu fylkingar tvær, sem hafa sótt fram í þessu máli á undanförnum árum, gætu sameinast um eina tillögu. En aðalatriðið er að eitthvað gott komi út úr þessu og það erum við allir — með hvaða till. sem við höfum verið — að sjálfsögðu sammála um.

Ég vil aðeins til viðbótar leggja áherslu á að ég held að það sé rétt baráttuaðferð fyrir þessum hugsjónamálum að halda aðskildu því verkefni að koma sjónvarpinu á þá sveitabæi, sem eftir eru frá hinu verkefninu, að bæta sjónvarpsskilyrði, þar sem komin eru, og bæta hljóðvarpsskilyrði. Þetta er vegna þess að ef þetta er ekki gert, þá óttast ég að það nýja fjármagn, sem til kynni að hrökkva í þessu efni, yrði fyrst og fremst notað til þess að bæta aðstöðuna þar sem sjónvarpsaðstaða er þó komin fyrir og menn geta hlýtt á hljóðvarp. Skýringin á þessu er að það er fullkomin þörf á þessu. Hins vegar er hitt málið, að það skuli tiltölulega fáir einstaklingar í þjóðfélaginu, er búa yfirleitt í mesta strjálbýlinu og þyrftu mest af ýmsum ástæðum á þessari þjónustu að halda, sem fá þetta ekki. Það er slíkt ranglæti og óréttlæti sem hv. þm. geta ekki látið afskiptalaust. Við verðum því að mínu viti að halda þessu aðskildu til þess að beita okkur fyrir lausn á því að koma sjónvarpsskilyrðum á þá sveitabæi sem ekki njóta þeirra í dag. Ég mun því halda áfram á þeirri braut. Og ég hef ekki hugsað mér að gefast upp við það. Með tilliti til þeirra athugana, sem ég hef verið með á undanförnum víkum í þessu máli, mun ég ásamt fleirum bera fram þáltill. í Sþ. um þetta atriði, sem verði endurbætt frá fyrri till., í þeirri von að þær breytingar geti riðið baggamuninn til þess að þetta sérstaka mál verði leyst sem fljótast og sem best. En leiðin til þess er ekki að leggja þá kvöð á Ríkisútvarpið, og er hægt að færa langt mál sem rök fyrir því. Þetta er byggðamál. Þetta er mál sem heyrir undir það verkefni að efla jafnvægi í byggð landsins, og þetta er mesta réttlætismálið í því efni sem hægt er að leiðrétta fyrir minnsta fjármagn.