10.12.1975
Efri deild: 21. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1042 í B-deild Alþingistíðinda. (717)

92. mál, útvarpslög

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég get vissulega tekið undir flest meginatriðin í máli hv. frsm. og einnig því, sem hér kom fram hjá hr. forseta, 3. þm. Vestf., og einnig ýmsu af því sem kemur fram í grg. flm. Þar er sá sannleikur sagður sem áður hefur hljómað hér úr ræðustól á þingi, og ekki dreg ég góðan vilja flm. í efa, en samt vil ég gera hér stutta athugasemd.

Það er rétt að kvartanir hafa heyrst og verið á fullum rökum reistar, — kvartanir sem stofnunin hefur oftar en hitt látið sem vind um eyrum þjóta, stundum verið gert eitthvað til bráðabirgða og stundum, svo að allrar sanngirni sé gætt, eitthvað verið aðhafst. Í grg. er sérstaklega á Austurland minnst, og þá sakar ekki að geta þess að þar féllu úr á sumum stöðum yfir 10% sjónvarpsdaga á s. l. ári, að nær öllu leyti vegna lélegs dreifikerfis. Dreifikerfi sjónvarpsins er, eins og allir þm. vita, ákaflega lélegt, og á fundi Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi í haust kom mál þetta eðlilega til umræðu, því að hvergi sáust merki úrbóta, og þar upplýsti Sigurður Blöndal afar athyglisverðan hlut og hafði hann það eftir einum færasta tæknifræðingi á þessu sviði hérlendis. Ekki veit ég hvort þetta er rétt eftir haft, en það sakar ekki að koma með það hér. Þessi maður kvað útbúnað allan í þessum stöðvum vera af þriðja flokks gæðum eða almennt það lakasta sem unnt hefði verið að fá. Ætlunin hefði sem sagt verið sú að spara fyrir Ríkisútvarpið, en raunin orðið önnur, svo sem vænta mátti, og bilanir hafi því orðið svo tíðar sem raun ber vitni. Um þetta atriði hafði ég reyndar orð fróðustu manna varðandi Gagnheiðarstöðina t. d., þar væri meginhlutinn af búnaði lélegur, svo að ekki sé meira sagt, sumt notað og úr sér gengið. Um þetta og fleira óskaði ég nokkurra svara í fyrra, en fékk eigi.

Sé þessi staðhæfing rétt höfð eftir þessum tæknimanni, að allur eða mestallur útbúnaður dreifistöðvanna sé svona lélegur, þá hefur hér verið um furðulega og hæpna sparnaðarráðstöfun að ræða og þarna er þá ef til vill að hluta að finna skýringuna varðandi sjónvarpsdreifingu og hinar tíðu bilanir t. d. á Gagnheiði.

Svo að minnst sé á hljóðvarpið, 45 ára gamalt, og dreifingu þess t. d. til Austurlands, þá hef ég nú ekki þrek í mér til að ræða þau ósköp fremur en hv. samþm. minn austan að um Borgarfjarðarbrúna. Ég skil afstöðu hv. flm. vel. Þeir vilja gera tilraun til úrbóta, vita hve brýn hún er, en viðurkenna þó jafnframt að skammt muni þessi nýja leið duga þó að farin verði. Þá er spurningin um réttmæti hennar gagnvart öllum.

Rætt er um það í 1. gr. að til framkvæmda í þessu skyni skuli veitt viðbótarfjármagn til viðbótar við þær aðrar tekjur Ríkisútvarpsins sem fari til slíkra framkvæmda, og einnig segir: „og á fjárlögum“. Hér staldra ég við. Ég spyr: Hefur Ríkisútvarpið nokkur bein fyrirmæli um að láta ákveðinn hluta tekna sinna renna til þessa kerfis, að undanskildum þá ef til vill aðflutningsgjöldum af sjónvarpstækjum, sem á að heita að hafi til þessa farið? Mér er ekki kunnugt um að svo sé, að Ríkisútvarpinu sé þetta skylt, en sé svo ekki, þá verður það upplýst. En sé svo ekki, þá hefði mér þótt nærtækast og eðlilegast að láta á það reyna með beinni lagaskyldu að ákveðinn hluti teknanna rynni til þessara tilteknu framkvæmda. Eða hver skyldi þessi prósenta hafa verið á s. l. ári af heildartekjum Ríkisútvarpsins, — prósenta sem hefur þá átt að renna til dreifikerfisins? Það fæst væntanlega glögglega upplýst í nefnd. Mér tókst ekki að fá það staðfest fyrir þennan fund, hver prósentan væri nú og þá t. d. á næsta ári, hvað Ríkisútvarpið hugsaði þá að gera.

Þá segir í greininni: „og á fjárlögum“. Þessu fagna ég ef hv. flm. ætla að beita sér fyrir ákveðinni upphæð á fjárlögum hvers árs í þessu skyni. Það tel ég eðlilegt, þó að þá þurfi auðvitað allir að greiða jafnt með sem án sjónvarps, það er vitanlega rétt. Engu að síður er það svo, að samfélagslegt átak á þessu sviði er eðlilegt og sjálfsagt.

Þá spyr ég: Hví ekki að fara þá leið ásamt með hinu að ákvarða vissa prósentu af heildartekjum Ríkisútvarpsins núverandi til þessara verkefna, og sú prósenta mætti gjarnan vera nokkuð há, í staðinn fyrir það sem kemur í 2. gr. og ég get ómögulega fengið mig til að samþykkja einfaldlega að fenginni reynslu hafandi stöðuna t. d. í mínu kjördæmi í huga? Ég efa ekki góða hugsjón hér að baki, og maður hefur heyrt þetta áður annars staðar frá og víst er hér um leið að ræða sem kemur til skoðunar, en annmarkar hennar eru miklir frá mínu sjónarmiði, svo miklir að ég treysti mér ekki til að mæla þar með fyrr en annað er þá þrautreynt. Í fyrsta lagi hefði ég viljað að framkvæmd væri í alvöru og fyrst úttekt á rekstri þessarar virðulegu stofnunar, úttektin mun liggja fyrir og kostaði vist ekki tiltakanlega margar milljónir, en eftir er að fylgja þeim hollráðum sem þar hlýtur að hafa verið að finna. Ég held að ýmis ævintýri, dýr og ljót, hjá þessari stofnun þurfi athugunar við og gjarnan hefði þar mátt af ýmsu klípa og það rösklega, en í staðinn verja til þeirra verkefna sem hér um ræðir og ég viðurkenni með flm. að eru brýnustu verkefni. Ekki svo að skilja að þessi stofnun sé einstök hvað þetta snertir, það eru fleiri stofnanir sem eyða í óþarfa, en við vitum einfaldlega, það vita hv. flm. jafnvel og ég, að áhugi forráðamanna þessarar stofnunar stefnir til annars en þess sem bæði flm. og ég teljum brýnast. Meðan við tölum um lélegt hljóðvarp, lélegt eða ekkert sjónvarp víðs vegar um landið, þá tala þeir í fjálgleik um litasjónvarp sem hina einu stóru hugsjón. Þetta vita hv. flm. nákvæmlega eins og ég, að ef breyting á að verða á, raunveruleg breyting, þá þarf að koma fram hugarfarsbreyting hjá forráðamönnum þessarar stofnunar. Ég held að þyrfti fyrst að kryfja mál til mergjar áður en farið er út í framkvæmd 2. gr. þessa frv., sem ég óttast, og ég segi það alveg hreinskilnislega — ég óttast að það yrði þá hið raunverulega framkvæmdafé í þessu verkefni og hitt, sem vikið er að í 1. gr., færi þá í eyðsluhítina áfram þrátt fyrir þau ákvæði sem reyndar er þar að finna, en er það óákveðið og ekki nægileg skylda þar að baki til þess að þeir geti ekki skotið sér einhvern veginn þar undan.

Það getur verið að þetta sé ótuktarskapur og ég sé svona illa hugsandi bara, en þetta læðist að mér eftir að hafa séð yfirlýsingar þessara sömu manna um að t. d. austfirðingar geti sjálfum sér um kennt að sjá ekki Sjónvarpið. Það var upplýst í fyrra af hv. þingmanni hér og ég las þetta síðar í ágætu viðtali í Tímanum við þennan forráðamann, að þeir hefðu aldrei átt að vera að fá sér neitt sjónvarp, bara verið þeirra vitleysa. Og eftir einnig að hafa heyrt Stefán Jónsson, hv. þm., lýsa viðbrögðum annars forráðamanns Ríkisútvarpsins, fyrrv. að vísu, um kvörtun austfirðinga um hljóðvarpið á árum áður, einhvern veginn á þessa leið: Ríkisútvarpinu var ekki ætlað að heyrast út um hvippinn og hvappinn. (Gripið fram í.) Það hefur aldrei verið stefna þess, það er nú einmitt þetta sem er kjarni málsins. Já, og hafandi til viðbótar reynsluna frá mínum heimastað um 10% missi á sjónvarpsefni eða vel það, auk þess að þar er eins og viðar enn bráðabirgðastöð í kofaskrifli sem því miður fauk nú ekki í fyrra, hefði betur gert það, þá hefði kannske eitthvað verið gert. En þar átti að koma stöð samkv. framkvæmdaáætlun Ríkisútvarpsins sjálfs strax á árinu 1971, sem bólar ekki á enn. Þetta töldu þeir sig geta sjálfir þá. Nei, hér láta menn sig bara dreyma um imbakassa í lít í staðinn fyrir að hugsa um þennan hégóma.

Það má enginn misskilja mín orð. Sjónvarpið okkar er hvergi nærri ómissandi, það væri skömm að segja, meginefni þess er því miður oft ruslkennt, svo að ekki sé meira sagt. En þetta er þó eins konar vara, svo að ég tali nú á kaupsýslumáli, sem við greiðum fullu verði. Munurinn er bara sá, að hér í Reykjavík greiða menn sjónvarpsgjald fyrir tiltölulega ógallaða vöru, skulum við segja, víða úti á landi sama gjald fyrir meingallaða vöru, með 10–15% rýrnun að auki.

Þá kemur að spurningunni um jöfnuðinn, og þá er komið að efni 2. gr. Það mætti leggja hana auðvitað í versta falli út á þennan veg: Til þess að mega enn um sinn kaupa þessa meingölluðu vöru, þá eigum við ekki aðeins að greiða fullt verð, við eigum að fá 10% álag í stað þess 10% afsláttar sem allir heiðarlegir kaupsýslumenn mundu gefa og auðvitað í þeirri von að eitthvað miðaði hraðar í átt til úrbóta frá hálfu þessarar stofnunar. Ég viðurkenni að þetta er versta útleggingin á þessu og hún er ekki gerð neitt með tilliti til flm., heldur er ég aðeins að vitna í það sem áður hefur gerst hjá þessari ágætu stofnun sem hér um ræðir. Ég held samt sem áður að þessi frvgr. hljómi þannig í eyrum ansi margra sem við verst skilyrði búa.

Ég vil gjarnan eitthvað á mig leggja til þess að þeir, sem ekki sjá sjónvarp, fái þó notið þess efnis sem þar er nothæft, en ég vil þá jafnhliða fá sæmilega gallalausa vöru.

Þá er komið að því sem okkur flm. greinir á um, að því er virðist. Þeir telja að þetta sé eina leiðin til að flýta fyrir þessum verkefnum sem vanrækt hafa verið. Ég er sammála þeim um að hér er um leið að ræða, sérstaklega ef 1. gr. verður framkvæmd undanbragðalaust af hálfu stofnunarinnar. Það dreg ég stórlega í efa. Ég hygg einmitt að þeir fagni þessum tekjustofni, þarna sé kominn sá stofn sem þeir ætla að nota í dreifikerfi, síðan ekki söguna meir. Það óttast ég. Ég vil sem sagt láta reyna á það í alvöru hjá stofnuninni sjálfri, á svipaðan hátt og hv. 3. þm. Vestf. (ÞK) var hér með áðan, hvort útgjaldaskiptingin þar inni, — ég held að ég hafi skilið það rétt að af afnotagjöldum væri tekinn ákveðinn hluti sem rynni beint til þessa dreifikerfis, — hvort útgjaldaskiptingin hjá þessari stofnun gæti ekki litið allt öðruvísi út, hvort ekki mætti með sjálfsagðri hagkvæmni, svo sem einni fréttastofu þessara aðila, svo að dæmi sé tekið, og minni óþarfaeyðslu, svo sem um eru mörg og ófögur dæmi, — hvort ekki mætti að sama skapi auka útgjöld til dreifikerfisins, láta það hafa forgang, — forgang sem það hefur ekki haft. Spurningin er um þetta, og í þessu liggur tortryggni mín við þetta form, nema öruggt sé að annað form sé ekki fyrir hendi og annað sé ekki kleift. Nú veit ég að mætti hugsa sér þetta viðaukagjald á þá sem gjalda nú þegar fyrir ógallaða vöru, en ég veit að þá yrði eitthvað sagt ófagurt af þeim sem þessa þjónustu hafa í dag fullkomna og viðhlítandi, og ég veit þess vegna að þótt hv. flm. hafi eflaust langað til þess arna, þá hafa þeir ekki talið sér stætt á því.

Ég mun við 2. umr. þessa máls leggja fram brtt. við þetta frv. um ákveðna prósentu af heildartekjum útvarpsins til þessara umtöluðu verkefna. Ég tel það eðlilega leið og viðkunnanlegri, og meðan ekki liggur fyrir að hún sé útilokuð, því að það tel ég að liggi alls ekki fyrir, heldur liggi bara fyrir yfirlýsingar frá þessari stofnun sjálfri, heldur þvert á móti, þá treysti ég mér ekki til að bæta hér viðbótargjaldi við, a. m. k. ekki á þá sem í dag bíða við óhæf skilyrði og óhæfa þjónustu. Við 2. umr. mun ég þá nánar fjalla um þessi mál.