10.12.1975
Efri deild: 21. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1049 í B-deild Alþingistíðinda. (719)

92. mál, útvarpslög

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Mig rekur minni til þess að vinsælasta umræðuefnið í Sþ. hér um þriggja eða fjögurra ára skeið var sjónvarpið og dreifing þess um landið. Og svo fór jafnan, í hvert sinn sem einhver fyrirspurn eða eitthvað bar á góma í þessu efni, að þá spruttu þm. upp sem óðast og varð jafnan á annan tug þm. er til máls tóku, og allir tjáðu hug sinn og stuðning við málið og sjónvarpið náði raunverulega nokkuð góðri og skjótri útbreiðslu um landið. En síðan hefur verið þó nokkur kyrrstaða í málinu. Og ástæðan til þess er auðvitað fjármagnsskortur. Þrátt fyrir svo góðan vilja þm. í ræðu hefur skort úthaldið þegar að afgreiðslu fjárlaga kemur til að fylgja eftir töluðu orði og tryggja sjónvarpi og útvarpi — eða Ríkisútvarpinu í einu orði sagt — nægilegt fjármagn til í fyrsta lagi að byggja yfir starfsemi sina, en stofnunin er að verulegu leyti húsnæðislaus. Það út af fyrir sig er háðung sem þm. ættu að muna eftir áður en þeir flytja frv. sem nemur hundruðum millj. kr. í útgjaldaaukningu eða meira, að þessi virðulega og gamla stofnun er sem næst húsnæðislaus og starfsaðstaða algjörlega úrelt og það væri miklu meira að mínu skapi og vonandi í samræmi við huga og vilja annarra þm. að tryggja þessari stofnun sómasamlegt húsnæði á næstu fimm árum skýlaust og undanbragðalaust og vera ekki með sýndarmennsku eins og þetta frv. er. Ég er því í mótsögn við þá er hér hafa talað áður. Þetta er sýndarmennska, eins og staða útvarpsins er í dag, og ekkert annað. Það getur ekki neitt réttlætt það að koma fram með frv. sem nemur á annan milljarð í viðbót í dreifingu á sjónvarps- og útvarpsefni meðan ástandið hjá útvarpinu er eins og það er í dag. Forsvarsmenn útvarpsins hafa komið til fjvn. núna haust eftir haust og beðið um meira fjármagn, þótt ekki væru nema tugir millj., og því hefur verið hafnað. Þess vegna er þetta frv. hrein sýndarmennska og miklu meira en það. Ætti öllum mönnum að vera ljóst, að það er ekki hægt að ætlast til þess að útvarpið taki á sig þá kvöð sem 1. gr. leggur því á herðar, og allra síst er tekjuöflunin nægileg. Það vantar mikið á það. Það er yfir tug ára sem þyrfti að tryggja þessa tekjuöflun til þess að hafa einhvern vott upp í það sem hér á að gera. Samt sem áður hefur útvarpið ekki fjármagn í dag til þess að heill landshluti heyri sómasamlega í hljóðvarpi, eins og hér hefur verið rakið. Hvað eru menn að fara? Tryggjum heldur útvarpinu sérstaka framkvæmd upp á 50 eða 100 millj. til að bæta úr brýnustu nauðsyn, svo að það geti starfað í dag, bókstaflega svo að það geti starfað sómasamlega. Það er margsinnis búið að fara fram á þetta og nóg erindi í fjvn. og alls staðar fyrirliggjandi hjá Alþ. Það er ekki hlustað á það. Þar deili ég ekki á einn eða neinn sérstakan, heldur á okkur alla í því efni.

Ég ætla ekki að fara í meting um það, hver hefur komið fyrr með hugmyndir fram til að auka dreifingu hljóðvarps eða sjónvarps. Það er góðra gjalda vert út af fyrir sig og það má þakka flm. það að vekja athygli á hvað málið er umfangsmikið og stórt í sjálfu sér. Það út af fyrir sig er þakkarvert og eðlilegt og gott að ræða málin. En við getum ekki gengið fram hjá þeirri staðreynd, að óhjákvæmileg verkefni eru svo brýn og kosta nokkra tugi millj. og jafnvel tvö–þrjú hundruð millj., sem við verðum að leysa fyrst, áður en þessi góða hugmynd þeirra nær framgangi, að sögn þeirra manna er koma til fjvn., forsvarsmanna þessarar stofnunar, og biðja okkur um fáa tugi millj. svo að þeir geti starfað eðlilega á árinu. Þetta geta flm. hiklaust séð ef þeir vilja leggja vinnu í það. Og nú skora ég á þá að tryggja þótt ekki væru nema 20 millj. í viðbót til þessarar stofnunar sem getur varla borgað vinnulaun. Á sama tíma erum við hér með frv. um að leggja út í hundruð millj. fjárveitingu og brot af tekjuöflun í því skyni. Það má taka erlend lán. Við höfum nú heyrt það, hvað langt er komið í því efni. Daginn eftir er tekið stærsta neyslulán sem hægt er. Kannske er einhver arabadropi til enn þá sem hægt er að fá fullnægingu út úr. En svona er ekki hægt að starfa. Ég segi það hreinskilnislega, en ámæli þó engum manni sérstaklega í því efni, heldur hitt, að við verðum að líta okkur nær í þessu efni.

Það er frumskilyrði að gera þeim mönnum, sem starfa í þessari stofnun, aðstöðuna starfhæfa, og til þess þarf að tryggja þeim núna nokkra tugi millj. sem þeir hafa margbeðið um að fá og sent óyggjandi grg. með sem sýna okkur að það er nauðsyn. En mér segir svo hugur um að þessi mikli meiri hl. á Alþ. í dag og þeir áhrifamiklu menn, sem flytja þetta frv., — fái því ekki framgengt að hlustað verði á þessa beiðni, þó að ráðh. þeirra sé hæstráðandi til sjós og lands í því efni er varðar málefni þessarar stofnunar. Þess vegna er frv. sem slíkt hrein sýndarmennska við ríkjandi aðstæður. Það er aftur þakkarvert og það get ég sagt aftur: það er þakkarvert að vekja athygli á hve málið er umfangsmikið og að Alþ. verður að horfast í augu við þá staðreynd að hér þarf að tryggja fasta og góða tekjuöflun og einnig heilbrigt og gott lán til þess að allir landsmenn, sem eru í sjálfu sér, eins og fram hefur komið hjá öllum ræðumönnum, réttlætismál, — að menn geti notið hljóðvarps og sjónvarps, allir íslendingar. Þó má benda á það, eins og síðasti ræðumaður sagði, að jafnvel í Noregi, hinu ríka landi, þar sem menn vita ekki hvað þeir eiga að gera við peninga sína, er sjónvarp hvergi nærri komið um allt landið. Hins vegar bendir hann á, eins og allir vita sem hafa kynnt sér það mál. að þeir hafa tekið útvarpið eða hljóðvarpið meira í sína þjónustu til að ná inn í hina þröngu dali og út um hina dreifðu byggð og endurbætt það og látið það flytja meira en menningarefni, enda hygg ég að fólkið, sem er úti á landi, í hinum þröngu dölum hér og úti við sjó, njóti góðrar hljóðvarpsdagskrár mun meira almennt talað heldur en sjónvarps. Það nýtur þess við störf. Bæði hjónin n bóndabýlinu njóta hljóðvarps ágætlega við mjaltastörf og jafnvel heyskap. Þau geta ekki setið inni í stofu um háannatímann og horft á sjónvarp, ekki aldeilis, en geta notið góðs flutnings í hljóðvarpi, bæði tónlistar og talaðs orðs.

En hljóðvarpið er hvergi nærri nægilega gott, mér liggur við að segja í flestum landsfjórðungum, ef ekki jafnvel alls staðar, og það væri verulegt átak að tryggja FM-bylgjusendi sem víðast, því að þar nytu menn góðs flutnings og hefðu áreiðanlega meira mat á hljóðvarpinu heldur en nú ríkir í bili, a. m. k. víða um landið. Flestir yrðu ánægðir ef Alþ. rausnaðist til þess að rétta Ríkisútvarpinu vegna mistaka undanfarin ár 50 millj. kr. til sérstakra endurbóta sem lágmarkssyndakvittun fyrir valefni í þessum málum undanfarið.

Að öðru leyti skal ég ekki, herra forseti, tefja umr. um þetta frv. Kannske finnst flm. að ég hafi verið nokkuð hvass við þá. En ég segi að við ríkjandi ástæður er þetta frv. vonlaust. Það væri miklu meira heillaspor fyrir þessa stofnun að fá sérstaka fjármagnsveitingu sem allir stæðu þá að. Þeir mættu þá beita sér fyrir því, þessir ágætu flm. Hitt er aftur þakkarvert, í þriðja sinn sagt, að vekja athygli á hinu stóra vandamáli, sem Ríkisútvarpið á við að etja í sinni starfsemi, en til þess að það megi takast þarf að tryggja almenna fjármögnun, en ekki sérstakan skatt, fyrst og fremst á þéttbýlismenn.