10.12.1975
Efri deild: 21. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1051 í B-deild Alþingistíðinda. (720)

92. mál, útvarpslög

Flm. (Steingrímur Hermannsson) :

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mjög. Ég stend fyrst og fremst upp til þess að þakka hv. þm. góðar undirtektir undir þetta frv., öðrum en hv. 1. landsk. þm. Ég veit ekki hvort menn geta kallað þetta sýndarmennsku eða sýndarmennsku ekki. Ég skal viðurkenna að þetta er ekki mikið fjármagn, en þó vil ég vekja athygli á því að 14 endurvarpsstöðvar, sem samkv. síðustu áætlun kosta um 80 millj., ná til 810 manns og þessum 810 manns þykir þetta ekki sýndarmennska. Ég veit að það er mikið eftir, en þetta er töluvert skref, og tekjur, sem hér eru ætlaðar, 40 millj. á ári, mundu greiða þennan kostnað á tveimur árum. Og það er einlæg von mín að þeir, sem búa í Kópavogi og njóta góðra útvarpsog sjónvarpssendinga, hafi víðari sjóndeildarhring. Ég veit ekkert hvað þarf til að fullnægja hv. þm. eða öðrum, en ég er sannfærður um að þessir 810 gleðjast mjög við að fá notið sjónvarps og hljóðvarps.

Ég þóttist finna að það væri hjá öðrum þm. ákveðinn stuðningur við þetta mál, og ég hef tekið mjög skýrt fram, vona ég, í minni framsöguræðu að við flm. erum til viðræðu um breyt. á þessu frv. Ég er sjálfur dálítið efins um þá leið, sem hv. 7. landsk. þm. benti á, að marka ákveðinn hluta af tekjum Ríkisútvarpsins í þessu skyni, m. a. af þeirri ástæðu sem kom fram hjá hv. 1. landsk. þm. Ég er ekki að draga úr aðhaldi við þessa stofnun, ég held að það þurfi að koma fram, en ef við ætlum að bíða eftir því að kerfið láti af hendi nokkra milljónatugi í þessu skyni á ári, þá held ég að við þurfum að bíða mjög lengi, vil ég segja hv. 7. landsk. þm. Við skulum heldur sameinast um að koma þarna á aðhaldi, en sameinast jafnframt um að tryggja tekjur til þess að framkvæma þetta verkefni. Ég vil fremur að við einbeitum okkur að því að tryggja í 1. gr. frv. betur en þar kann að vera gert að þetta fjármagn renni til slíkra framkvæmda. T. d. má hugsa sér að það verði lagt inn á sérstakan reikning og gerð skil fyrir því árlega til Alþ. með áætlun sem gerð yrði, þannig að ekki fari á milli mála að það er notað í þessu skyni, en geymist ekki í einhverjum hirslum Ríkisútvarpsins eða bankakerfisins þar til það er orðið verðlaust. Ég vil því beina því til hans að við skoðum þennan þátt sem allra best.

Ég tek það enn fram að ef menn vilja hækka þetta gjald, þá er ég sannarlega til viðtals um það. Ég vil þakka hv. 3. þm. Vestf. stuðning hans, og ég vil nú vekja athygli á því, að þegar tveir hv. þm. Vestf. hafa ár eftir ár reynt að koma þessu máli fram og reyndar fleiri, því að ég man að hv. 5. þm. Vestf. hefur flutt um þetta sérstakt mál, þá hlýtur að vera einhver draugur sem þarna er í vegi, að það skuli ekki ná fram að ganga. Við skulum láta okkur það að kenningu verða og reyna að sameinast í þessari deild um að ná þessu máli fram á þessu þingi og tryggja þar með að þessar framkvæmdir komist á skrið.