10.12.1975
Efri deild: 21. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1052 í B-deild Alþingistíðinda. (721)

92. mál, útvarpslög

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki leggjast gegn því, að sjónvarp komi sem allra fyrst til landsmanna allra og þá sjómanna á fiskimiðum í kringum landið líka. En ég vil með örfáum orðum benda á að það er mesti misskilningur hjá þeim utanbæjarþm., sem standa hér upp hvað eftir annað, a. m. k. þann stutta tíma sem ég hef verið hér á þingi, og halda að ungir og aldnir á höfuðborgarsvæðinu hafi yfirdrifið af peningum og stanslaust sé hægt að seilast í vasa þeirra. Það er verið að tala um að leggja á skatt sem að mati þeirra, sem flytja þessa till., nemi aðeins 64 millj. Það er eins og það sé hreint ekki neitt. Ég vil bara mótmæla þessu. Ég held að það sé búið að ganga of langt í því að leggja viðaukagjöld á reykvíkinga og aðra þá, sem búa hér á þessu landssvæði, til þess að standa undir framkvæmdum víðs vegar um landið. Hitt er annað mál, að það er nauðsynlegt að finna aðra tekjuöflun til þess að breiða út þau þægindi sem þéttbýliskjarninn hefur sjálfur komið sér upp.

Flm. talaði um að þetta væri lítið, 80 millj., með 80 millj. ætlaði hann að leysa vanda 810 manns. Ég vil benda á að í yfirlitsáætlun um framkvæmdir við dreifikerfi sjónvarps eru gefnar upp samtals 1310 millj., og af þessum 400 millj. kr., sem hann tekur 10% af, eru 40 millj. sem á að fá á einu ári. Hann endar grg. sína með því að það komi til mála að hraða framkvæmdum með lánsfé sem síðan verði endurgreitt af þeim tekjustofni sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Þetta frv. gerir ráð fyrir þessum 40 millj. kr. tekjustofni til þess að koma þessu dreifikerfi sjónvarps á. Ef um lánsfé er að ræða, hvað þarf það að standa langan tíma ef það eru 1310 millj.? Ef við tökum enga vexti með, þá eru þetta 30 ár. Og hvar ætlið þið að fá lán til þess að standa undir slíku?

Ég tek undir með hv. 1. landsk. þm. að þessi till. lítur út fyrir að vera sýndarmennska, en málefnið er allt of gott til þess að nota það í þeim tilgangi.