10.12.1975
Neðri deild: 26. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1057 í B-deild Alþingistíðinda. (728)

107. mál, snjóflóð á Norðfirði og fjáröflun til Viðlagasjóðs

Guðlaugur Gíslason:

Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. forsrh. fyrir þá yfirlýsingu sem hann gaf hér um að skipuð yrði n. til að meta endanlega fjárhagsaðstöðu Vestmannaeyjakaupstaðar, og ég vona einnig að inn í það dæmi komi aðstaða atvinnuveganna þar, og einnig þá yfirlýsingu að staðið verði við allar skuldbindingar sem áður hafa verið gefnar hér á Alþ. af fyrrv. ríkisstj. í sambandi við uppgjör og bætur til handa vestmanneyingum. Vona ég að þegar upp verður staðið geti allir orðið þar á eitt sáttir.

Í grg. með frv. er vitnað í bréf stjórnar Viðlagasjóðs til forsrh. Þar segir á einum stað, á bls. 2 í grg.: „Stjórn sjóðsins telur þó ríkar ástæður til að taka fram, að fyrirsjáanlegt er að án frekari aðstoðar mun bæjarsjóður Vestmannaeyja verða í miklum fjárhagserfiðleikum um árabil. Stafar þetta af því að bæjarfélagið hefur reist sér hurðarás um öxl með miklum og dýrum framkvæmdum.“ Ég verð að segja að ég kannast ekki við að þessi ábending frá stjórn Viðlagasjóðs geti verið á nokkrum rökum reist. Það má vera að stjórnin sé þar að vitna í það íþróttamannvirki sem nú er þar í smíðum og var á sínum tíma samþykkt af stjórnvöldum, hvernig skyldi staðið með þá byggingu. Þessi bygging er reist á óvenjulegan hátt að því leyti, að þar er um innflutt hús að ræða að mestu leyti, að sjálfsögðu er sundlaug og nokkur annar hluti byggingarinnar byggt á staðnum. En það var samdóma álit bæði bæjaryfirvalda í Vestmannaeyjum og einnig stjórnvalda, menntmrn. og ríkisstj. í heild, að þannig skyldi að þessu máli staðið. Ég tel það því mjög ómaklegt þegar stjórn Viðlagasjóðs fer að vitna í það í þeim tón sem gert er í bréfi hennar til hæstv. forsrh. að bæjaryfirvöld séu þarna að reisa sér hurðarás um öxl með of dýrum framkvæmdum og ótímabærum framkvæmdum. Ég tel ekki að þetta fái á nokkurn hátt staðist. Ég vil á það benda að sundskylda hefur verið sennilega lengst allra staða hér á landi einmitt í Vestmannaeyjum. Það mun hafa verið um aldamótin að þar var tekin upp bein sundskylda allra skólaskyldra barna og hefur svo verið ávallt síðan. Bæjarsjóður byggði á sínum tíma sundlaug sem þá var talin mjög vönduð, þó að hún sjálfsagt væri orðin úrelt nær hálfri öld eða 30-40 árum síðar. Það hefði því verið í alla staði mjög óeðlilegt að láta þessa aðstöðu falla niður kannske einmitt í Vestmannaeyjum. Hefði aftur á móti verið farin sú leið, sem vestmanneyingar að sjálfsögðu hugsuðu sér, að byggja sameiginlega sundhöll og íþróttahús, — það mannvirki var á sínum tíma búið að teikna og búið að ákveða því stað og gera um það kostnaðaráætlun, — hefði verið farin sú venjulega leið, þá liggur það alveg ljóst fyrir að það mannvirki, eins og það var hugsað, hefði sennilega orðið nær helmingi dýrara en þó þetta innflutta hús er í dag. Ég geri ráð fyrir að það hefði tekið a. m. k. 3–5 ár að byggja slíka byggingu eins og fyrirhuguð var, og með síhækkandi verðlagi liggur alveg ljóst fyrir að það mannvirki hefði orðið miklu dýrara en þó það mannvirki sem nú er verið að reisa í Eyjum og kemur til með að verða tekið í notkun á næsta ári.

Ég vil einnig á það benda í þessu sambandi, að ég tel að sameiginleg niðurstaða bæjaryfirvalda í Eyjum og stjórnvalda að fara þess á leit að flýta byggingunni með því að byggja hana að miklu leyti á innfluttu húsi hafi verið alveg rétt. Ég held að þeir, sem kannske þekkja ekki nægilega til málanna verði þó að gera sér það ljóst, að eins og aðstæður voru þegar fólkið flutti heim og byggðarlagið var í því ástandi eins og öllum er kunnugt, að það var á mörkum að hægt væri að telja það byggilegt á fyrstu mánuðum og fyrstu árum eftir að náttúruhamfarirnar höfðu gengið yfir, þá var þetta nauðsyn ef fólk átti að vilja vera á þessum stað og byggja hann upp aftur. Það var alveg nauðsyn að byrja á því að skapa félagslega aðstöðu. Hún var að nokkru leyti fyrir hendi. Þær byggingar, sem áður höfðu verið byggðar, fóru ekki allar. Sumar þeirra fóru, eins og sundlaugin, aðrar fóru ekkí. En ég tel frumskilyrði, ef ætlast var til þess að ungt fólk og reyndar eldra líka byggi þarna, að félagsleg aðstaða yrði fyrir hendi og þá alveg sérstaklega í sambandi við íþróttamálin. Íþróttamál hafa alltaf verið mjög ofarlega á dagskrá í Eyjum, og hefði engin aðstaða til slíks átt að vera þar fyrir hendi í framtíðinni, þá er ég hræddur um að þar hefði margt verr farið en ástæða var til, og ég er sannfærður um að þetta er eitt af því betra sem gert var. Og ég er mjög þakklátur stjórnvöldum fyrir að hafa fallist á hugmyndir vestmanneyinga um að fara þessa leið til að byggja þetta mannvirki á jafnskömmum tíma og raun ber vitni um. Það er alveg nýtt, og verður sennilega ekki gert aftur, að reisa á einu ári hús af þeirri stærð þar sem um er að ræða sundlaug — sundhöll kalla sumir það — og íþróttaaðstöðu. Ég endurtek að ég tel að þetta hafi verið mjög vel ráðið af opinberum aðilum, og ég tel að það sitji síst á stjórn Viðlagasjóðs að vera að láta fara frá sér ábendingu eins og fram kemur í bréfi hennar og er prentað í grg. með þessu frv.

Í grg. eru skýrslur um tekjur og gjöld Viðlagasjóðs og eins og þau eru áætluð í árslok 1976. Þar er vissulega um háar tölur að ræða, en mér þykir rétt, nú þegar þessi mál eru hér til umr. á hv. Alþ., að ræða þessa grg. nokkru nánar, því að það kann að vera nokkuð villandi, þegar talað er um 8 milljarða heildarútgjöld, að það séu allt bætur til vestmanneyinga vegna náttúruhamfaranna, því að sem betur fer er það ekki svo. Það komu inn í stórar tölur, eins og kaupin á viðlagasjóðshúsunum, sem nú er verið að selja aftur, og kemur að sjálfsögðu til tekna fyrir sjóðinn og niðurgreiðslu á útgjöldum hans vegna þessara kaupa, og virðist ætla að fara svo, að húsin verði seld við því verði endanlega að þar verður ekki um nein útgjöld að ræða, — jafnvel þó að tekið sé fullt tillit til tollagreiðslu og vaxtagreiðslu, þá muni það fé, sem í húsin var lagt, endanlega skila sér og kannske heldur betur.

Samkv. hinu endanlega uppgjöri, sem stjórn Viðlagasjóðs hefur sent rn., eru heildarbætur til vestmanneyinga vegna þess tjóns, sem þeir urðu fyrir, samtals 3 milljarðar 62 millj. kr. Ég tel að hv. Alþ. eigi rétt á því og það sé sjálfsagt að gera grein fyrir hvernig þessi upphæð raunverulega sundurliðast. Ég fékk í gær hjá stjórn sjóðsins upplýsingar um hvernig staðan var miðað við 30. nóv. s. l. Þessir 3 milljarðar 62 millj. skiptast þannig:

1. Það eru bætur fyrir íbúðarhús 1176 millj. kr. 2. Það, sem stjórn Viðlagasjóðs telur fyrirtækjabætur, það eru greiðslur til fyrirtækja vegna þess tjóns sem þau urðu fyrir, 469 millj.

3. Viðgerðarkostnaður á húsum í Eyjum — og er þá aðallega um að ræða þau hús sem voru grafin út úr öskunni, og reyndar önnur hús sem fyrir tjóni urðu — nemur samtals 285 millj.

4. Lausafjárbætur 277 millj.

5. Tekjubætur, að mestu leyti eru það tekjubætur til atvinnufyrirtækja, 211 millj., og greitt var upp í bætur til bæjarsjóðs og stofnana hans 30. nóv. samtals 576 millj.

Hygg ég að í þessar bætur hafi 30. nóv. s. l. verið greitt samtals 2 milljarðar 994 millj., en heildarupphæðin er áætluð endanlega, eins og fram kemur í greiðsluáætlun Viðlagasjóðs, 5 milljarðar 299 millj., og mismunurinn mun vera óuppgerðar bætur til bæjarsjóðs Vestmannaeyja og stofnana hans.

Ég vil aðeins ræða nánar tvo eða þrjá liði þessara bóta, því að ég held að það sé rétt að þetta sé rifjað upp. Málið er nokkuð farið að fyrnast og mörgum þykir hér um stórar tölur að ræða.

1176 millj., sem eru bætur fyrir íbúðarhús, eru bætur fyrir um 400 hús sem fóru undir ösku og hraun. Meðalbætur á hvert hús eru knappar 3 millj., en endurbyggingarkostnaður þessara húsa, miðað við að þau hefðu verið byggð á árinu 1974 og á árinu 1975, nemur ekki lægra en 6–7 millj. á hvert hús. Það liggur því ljóst fyrir að þeir, sem notuðu bótafé sitt til endurbyggingar á húsum í Eyjum, verða að taka á sig þarna milli 3 og 4 millj. hver einasti einstaklingur. Við þessu er ekkert að segja. Menn hafa sætt sig við þetta, tekið þetta eins og hverja aðra skyldukvöð. En ég tel rétt að þetta komi hér fram, því að því er ekki að leyna að hjá almenningi, — ég undirstrika, að það hefur aldrei komið fram hér á hv. Alþ., en hjá almenningi er kannske lítið nokkuð öðrum augum á þessar bætur heldur en eðlilegt er, þær eru í sumum tilfellum kannske taldar nokkuð ríflegar.

Ég endurtek, að það liggur alveg ljóst fyrir að hver einasti húseigandi, sem endurbyggði hús sitt í Eyjum, verður að taka á sig 3–4 millj. í skuldbindingum umfram það sem hann fékk bætur fyrir hjá Viðlagasjóði. Hins vegar er það rétt, það voru nokkrir aðilar sem keyptu, áður en þeir fluttu heim, íbúðir hér í Reykjavík og hafa þar af leiðandi bætt fjárhagsaðstöðu sína með því að selja þær aftur, og þeir verða ekki fyrir sama tjóni og þeir sem ekki gerðu þetta. En allir, hver einasti með tölu, verða fyrir verulegu fjárhagstjóni og þurfa að taka á sig verulegar skuldbindingar, þannig að mér hefur verið um það kunnugt að mörgum mönnum, sem komnir eru á miðjan aldur, hrýs nokkur hugur við þeirri aðstöðu sem þeir hafa lent í í þessu sambandi.

Bætur til atvinnufyrirtækja 469 millj. kr., þetta er vissulega há upphæð. En ef við athugum hvað raunverulega skeði úti í Eyjum, þá hygg ég að flestir séu sammála um að þeir, sem þarna urðu fyrir tjóninu, verða einnig að taka á sig miklar skuldbindingar. Ég vil benda á það, að í þessari upphæð er ein af stærri hraðfrystistöðvum landsins, hraðfrystistöð Einars Sigurðssonar. Hún fór öll til grunna og hlaut því að verða að bætast eftir reglum sem lögin um Viðlagasjóð gerðu ráð fyrir. Einnig fór meira en helmingurinn af síldar- og loðnumjölsverksmiðju hans. Í þessari upphæð er einnig vélsmiðja sem með mest af sínum tækjum fór undir hraun. Þarna er einnig eina hótelið, sem þá var rekið í Eyjum, ásamt öllu tilheyrandi, stærsta rafmagnsverkstæðið sem þar var, raftækjaverslun og tvær aðrar verslanir. Þetta er það sem er innifalið í þessari heildarupphæð, 469 millj. kr. Ég hygg að það sé ekki ofáætlað, þótt aðeins hefði átt að byggja upp þessa einu fiskvinnslustöð sem fór, að þá væri þar um uppbyggingu að ræða sem hefði kostað sennilega 1–11/2 milljarð að lágmarki. Sá aðili, sem fyrir þessu varð, hann varð því vissulega fyrir geysilega miklu tjóni.

Ég taldi eðlilegt og rétt að þessi ábending frá mér kæmi fram, því að eins og ég sagði, vestmanneyingar hafa ekki farið á mis við — og ég er engum að álasa fyrir það — að verða fyrir nokkru aðkasti. Ég endurtek þó að sú rödd hafi aldrei heyrst hér á hv. Alþ., en hjá almenningi í landinu hafa þeir orðið fyrir nokkru aðkasti og af mörgum talið að allar bætur væru kannske óþarflega háar. En svo sannarlega er það ekki því að fyrir utan það sem ég hef gert grein fyrir í sambandi við þá sem misstu íbúðarhús sín og atvinnufyrirtæki, þá þori ég alveg að fullyrða að hver einasti íbúi Vestmannaeyja varð í sambandi við náttúruhamfarirnar fyrir geysilegu fjárhagslegu tjóni, — beinu og óbeinu, sem kannske í mörgum tilfellum var ekki hægt að bæta og ekki hægt að ætlast til að yrði bætt.

Ég endurtek, að ég vil votta hæstv. forsrh. þakkir fyrir þá yfirlýsingu sem hann gaf hér um að skipuð yrði n. til þess að skoða aðstöðu alla í Eyjum, eins og hún raunverulega verður eða hægt verður að gera sér grein fyrir að hún verði á næsta ári. Það kemur fram í grg. með frv. að stjórn Viðlagasjóðs áætlar að heildarbætur fyrir mannvirki og annað til Vestmannaeyjakaupstaðar og stofnana hans nemi 500 millj. kr. Ég varð satt að segja nokkuð undrandi, þegar ég sá þessa tölu, vegna þess að meðan ég var í stjórn Viðlagasjóðs var gerð lausleg áætlun um þetta, hvað hið beina tjón Vestmannaeyjakaupstaðar í sambandi við þær eignir, sem hann missti, mundi verða, og sú upphæð nam aðeins tæpum 1 milljarði, eða 997 millj. kr. Skýringin á þessu er að sú n., sem síðast fékk þetta mál í sínar hendur, notaði fyrningarreglur við matið, þannig að eign, sem var metin kannske á 10 millj., fór eftir fyrninguna niður í 3, 4 eða 5 millj. Þar sem svo stendur á eins og þarna, að það þurfi bókstaflega að flytja þriðjung af byggðinni af austasta hluta Eyjanna og vestur fyrir gömlu byggðina á það svæði, sem hefur verið áætlað að byggð skuli risa að nýju, þá segir það sig sjálft, að þegar tekið er tillit til þess að slíkum flutningi fylgir ekki einasta að það þurfi að vera ný hús í stað þeirra sem fóru, heldur þarf einnig að byggja upp nýtt gatnakerfi, nýtt holræsakerfi, nýjar vatnslagnir í sambandi við vatnsveitu, nýja jarðstrengi fyrir rafveitu — og að áætla að þetta kosti aðeins 500 millj. er svo langt frá því að vera í samræmi við raunveruleikann og það verðlag, sem gildir í dag, og það verðlag, sem kemur til með að gilda á næsta ári, að ef ekki kemur annað til en áætlun Viðlagasjóðs, þá liggur alveg ljóst fyrir að bæjarfélagið fær ekki risið undir þeim kvöðum sem það verður á sig að taka í þessu sambandi. Það er um að ræða þarna 5–6 þús. manna samfélag, og ef ætti að leggja allan þann kostnað í gjöldum á íbúa þessa byggðarlags, þá segir það sig sjálft að þar mundi ekki nokkur maður vilja búa. Það liggur alveg í augum uppi, að menn búa ekki á einum stað ef þeir þurfa að borga kannske tvisvar til þrisvar sinnum bærri gjöld en annars staðar. Þeir auðvitað hljóta að sjá sér hag í því að reyna með einhverju móti að losa sig við sínar eignir og flytja sig til.

Ég endurtek því, að ég er mjög ánægður að það skuli hafa verið skipuð n. af félmrn. sem á að meta þessa aðstöðu alla, því að ef á að halda byggð í Eyjum áfram, þá verður þetta að gerast, því að það fjármagn, sem Viðlagasjóður ræður nú yfir, er eins og kom fram hjá hæstv. forsrh., mest í mjög óarðbærum skuldabréfum. Þar er um að ræða skuldabréf að langmestu leyti frá 7–25 ára með mjög lágum vöxtum, sum þeirra að vísu vísitölutryggð, önnur ekki, þannig að þau bréf verða vart seld nema með geysilega miklum afföllum.

Mér kæmi ekki á óvart þó að heildarkostnaður við flutninginn á þessum hluta bæjarins af austurhluta eyjarinnar og vestur fyrir gömlu byggðina kosti aldrei minna en 2–3 milljarða, miðað við það verðlag sem nú gildir. Ég veit að uppbygging rafveitunnar sem fór undir hraun með öllum vélum og allri aðstöðu, sú uppbygging ein kostar um 400 millj. eða nær alla þá upphæð sem stjórn Viðlagasjóðs gerir ráð fyrir að verði í bætur til kaupstaðarins og stofnana hans.

Í sambandi við bætur til atvinnuveganna þykir mér einnig rétt að gera nánari grein fyrir þeim 469 millj. kr. og þeirri aðstöðu sem atvinnuvegirnir í Eyjum eru í nú, eftir að starfsemi þeirra er aftur flutt heim. Þeir hafa hafið vinnslu og starfsemi á ný. Ég vil benda á að það liggur fyrir í skýrslu, sem Útvegsbanki Íslands lét taka saman, að fiskvinnslustöðvarnar í Eyjum, sem allir vita að voru með þeim stærri í landinu, voru best stæðu fiskvinnslustöðvar sem í árslok 1972 voru til í landinu. Það sýnir sig á þessu uppgjöri, að þær ekki einasta áttu inni tugi millj. í útibúi Útvegsbankans í Eyjum, heldur áttu þær nokkuð á annað hundrað millj. í umframbirgðum sem þær höfðu ekki veðsett, þannig að aðstaða þeirra fyrir náttúruhamfarirnar var mjög sterk og mjög góð, enda voru þær yfirleitt engum háðar. Sá banki, sem hafði með þeirra fjárreiður að gera, hafði svo sannarlega litlar eða engar áhyggjur af þeim, vegna þess að hann, eða það útibú sem hafði með rekstur stöðvanna að gera, það var þá rekið eingöngu með fjármagni sem vestmanneyingar sjálfir áttu og þurfti yfirleitt aldrei að leita til aðalbankans um neina fyrirgreiðslu eða stuðning umfram það fjármagn sem útibúið sjálft réð yfir.

Þessi aðstaða hefur því miður gjörbreyst eftir að þær fluttu heim aftur og hófu vinnslu á ný, þannig að þær eru allar með tölu í geysilega mikilli rekstrarfjárþröng. Eignir þeirra eru mjög lítið veðsettar, en aðstaða þeirra nú hefur verið mjög erfið og sennilega með því erfiðasta sem til þekkist á landinu. Nú kunna menn eðlilega að spyrja hvernig þetta megi vera, hvort þær séu þetta verr reknar en áður eða hvað hafi þarna raunverulega gerst. Ég vil benda á að það eru enn í dag sömu forsvarsmenn stöðvanna, sömu aðilarnir sem reka þær, og eins og þeir áður kunnu að standa fyrir rekstri sinna fyrirtækja, þá er ég sannfærður um að þeir kunna það ekki síður í dag, þannig að því verður ekki um kennt að þarna sé um neitt óeðlilegt að ræða að eigi sér þar stað, sem hægt væri að benda á að ekki væri eins og ætti að vera. Það er ekki að mínum dómi neitt slíkt fyrir hendi. En það, sem skeði, er einvörðungu sú röskun sem þessir aðilar urðu fyrir þegar þeir urðu fyrirvaralítið og fyrirvaralaust að heita mátti að flytja að segja má megnið af öllum vélum, tækjum, lausafjármunum burt úr Eyjum, og síðan, þegar þeir fluttu heim aftur, að taka þá allt til baka og setja vélar og tæki upp að nýju og hefja reksturinn. Það, sem skeði við þetta og kom því miður of seint í ljós, var að eftir að helmingur af vestmanneyingum var fluttur heim í árslok 1973, þá auðvitað lá það ljóst fyrir að þeir áttu þangað ekkert erindi nema atvinnuvegirnir færu þá þegar í gang aftur. Þeir, sem réðu atvinnuvegunum, voru einnig mjög sammála að gera allt sitt til að svo mætti verða. Það var því tekið það ráð haustið 1973 og í ársbyrjun 1974 að leggja allan þunga, allan kraft, eins og hægt var, á að koma atvinnutækjunum í rekstrarhæft ástand aftur þegar í ársbyrjun 1974 fyrir þá vetrarvertíð sem þá var að hefjast. Það var unnið þarna dag og nótt og auðvitað hafði það í för með sér óhemjukostnað umfram það sem eðlilegt hefði veríð ef aðstæður hefðu verið aðrar.

Eigendur þessara atvinnutækja stóðu í þeirri meiningu að þetta mundi verða gert upp af Viðlagasjóði. En því miður fór það svo, að það varð ekki, og kom þar aftur á ný til fyrningarreglan sem matsmenn Viðlagasjóðs notuðu, að fyrna allt niður eftir settum reglum. Þannig fékkst ekki nema lítill hluti af þeim kostnaði, sem stöðvarnar urðu að taka á sig og höfðu fengið leyfi til að ávísa á sína hlaupareikninga hjá sínum viðskiptabanka sem þeir síðan stóðu uppi með.

Það kom í ljós eftir vertíðina að fyrirtækin urðu að nokkru og verulegu leyti að byggja rekstur sinn á nýju fólki. Þetta hafði það í för með sér að afköst urðu mun minni en áður hafði verið, þegar um samhentan og vanan vinnukraft var að ræða. En þessi mál komust í lag þegar á síðustu vertíð, 1975, því að þá var fólkið orðið starfinu vant og afköstin urðu þá eins og eðlilegt var hægt að telja.

Eitt atriði, sem mjög hefur farið illa með atvinnuvegina heima, er sú stóra skuld sem þeir komust í við sinn viðskiptabanka á hlaupareikningi og á hæstu vöxtum sem hægt var með nokkru móti að finna út að hægt væri að kría út úr einum viðskiptamanni. Ég hygg að þessir vextir hafi verið frá 19–25%. Þetta skapaði það mikla erfiðleika, að stöðvarnar sáu varla fram á að þær mundu nokkurn tíma upp úr þessu komast. Fjórar stöðvarnar heima borguðu árið 1974 í vexti rúmar 96 millj. Hjá einni stöðinni komst það yfir 50 millj., og 1. okt. nú í ár voru þessir aðilar búnir að greiða í vexti rúmar 102 millj. kr. Hver sem þekkir inn á rekstur eins og er hjá fiskvinnslustöðvum hlýtur að geta gert sér ljóst að það var útilokað að rekstur, sem ekki er stærri en þessar stöðvar, sem eru, eins og ég sagði áðan, þó með stærri fiskvinnslustöðvum í landinu, þyldi slíkar vaxtagreiðslur. Ég skal taka fram, að eftir að Viðlagasjóður hafði gert upp tekjubætur við þessa aðila og eftir að millifærslulánið af gengishagnaðinum 1974–1975 hefur verið gert upp batnaði aðstaða þessara aðila allverulega. En það var ekki fyrr en nú á seinni hluta þessa árs sem þessar tilfærslur áttu sér stað og hafa því vaxtagreiðslur fram að þeim tíma valdið fyrirtækjunum mjög miklum fjárhagslegum erfiðleikum, þannig að þau hafa þurft að leita til stjórnvalda og ræða sín mál við stjórnvöld um hvernig þau gætu staðið þetta af sér.

Það, sem hlýtur að valda nokkrum áhyggjum einnig, er að fyrir liggur, svo að ekki verður um villst, að bátafloti vestmanneyinga, sem stendur undir hráefnisöflun til fiskvinnslustöðvanna, er kominn nokkuð til aldurs almennt, auk þess varð hann fyrir geysilegum skakkaföllum við að þurfa að vera á flækingi utan byggðarlagsins í nær heilt ár. Hver einasti bátur varð fyrir mjög miklu fjárhagslegu tjóni bæði á meðan hann var í burtu og einnig þurfti að endurbæta hann eftir að hann hafði komist í höfn aftur. Ég tel því að það liggi alveg ljóst fyrir, að ef þessar stöðvar, sem hafa mjög mikla afkastagetu og eru mjög vélvæddar, voru a. m. k. í árslok 1972 sennilega einna best vélvæddu stöðvar sem til voru á landinu, — ef þær eiga að hafa nægjanlegt verkefni í framtíðinni, þá verður að eiga sér stað veruleg endurnýjun á þeim flota sem á bak við þær stendur og hráefni aflar handa þeim.

Vestmanneyingar voru komnir í gang með það á árinu 1972 að verða þátttakendur í þeim togarakaupum sem þá áttu sér stað hjá landsmönnum. Þeir voru því miður ekki komnir það langt að þeir væru búnir að ganga frá neinum kaupum á slíkum skipum, töldu sig eiginlega geta nokkurn veginn ákveðið sjálfir hvenær það yrði. Þeir höfðu fjármagn að leggja fram án þess að þurfa yfirleitt að leita til neinna aðila um sitt skylduframlag. Þetta var matsatriði, hvenær þeir ættu að fara í það og hvernig þeir ættu að standa að slíkum kaupum. Eftir að heim var komið aftur og það sýnir sig að bátaflotinn er þess vart megnugur að standa undir nægjanlegri hráefnisöflun til að halda uppi eðlilegu atvinnulífi á þessum stað hafa atvinnufyrirtækin heima sameiginlega rætt það við stjórnvöld og farið formlega fram á að þeim yrði veitt fyrirgreiðsla eins og öðrum sem áður hafa keypt skip — í sambandi við kaup á einum til tveimur skuttogurum. Við höfðum ástæðu til að ætla fram undir það síðasta að úr þessu gæti orðið, þannig að við gátum séð fram á nokkuð tryggt atvinnulíf í Eyjum, nokkuð tryggan rekstur fiskvinnslustöðvanna þar. Því miður hefur aðstaða þjóðfélagsins breyst þannig, eins og Alþ. er best kunnugt um og kom fram í svari hæstv. forsrh. í gær í sambandi við togarakaup, að erfiðleikar munu vera á því að ráða fram úr þessum málum eins og aðstaðan er í dag.

Ég endurtek því, að ég tel það mjög mikils virði í sambandi við þetta mál í heild að hæstv. forsrh. skuli hafa lýst því hér yfir að n. manna frá tilteknum stofnunum: Seðlabankanum, rn. og bæjarstjórn Vestmannaeyja, er stofnuð til þess að kanna aðstöðu alla eins og hún kann að verða á næsta ári, því að ég sé ekki annað en að ef það verður ekki gert og að n. kemst ekki að þeirri niðurstöðu að gera þurfi vissar ráðstafanir til þess að byggð geti haldist áfram í Eyjum, þá muni svo fara að þar verði kyrrstaða og kannske að fólk sjái sér ekki hag í að taka þar búsetu eða flytjast þangað út. Ég tel að þetta sé ekki einasta hagsmunamál þess fólks, sem býr á þessum stað, heldur sé það hagsmunamál þjóðarinnar í heild að þarna geti í framtíðinni verið um svipaða framleiðslu að ræða og var í árslok 1972. Ég man að þá kom fram í ræðu þáv. hæstv. forsrh. að útflutningur og gjaldeyrisöflun af afurðum frá Vestmannaeyjum hefðu numið á milli 12 og 13%. Ég held að það verði að líta á þetta augum þjóðfélagsheildarinnar ekki síður en með augum þeirra aðila sem nú byggja þennan stað að nýju.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, aðeins koma inn á eitt atriði í grg. með frv., en það er umsögn þeirrar þingskipuðu n. í sambandi við Norðfjarðardeild Viðlagasjóðs, en þar segir svo, með leyfi forseta:

„Á sínum tíma skipaði forsrh. n. þriggja þm., þá Lúðvík Jósepsson, Tómas Árnason og Sverri Hermannsson, til að hafa milligöngu milli Viðlagasjóðs og heimaaðila í Neskaupstað. Þm. sendi forsrh. bréf 20. nóv. 1975 þar sem segir m. a.:

„Það er skoðun okkar eftir að hafa rætt við fulltrúa Viðlagasjóðs og þá heimaaðila í Neskaupstað, sem málið varðar mest, að tryggja þurfi Norðfjarðardeild Viðlagasjóðs a. m. k. 250 millj. kr. á næsta ári og miðum við þá við að tekjur deildarinnar af gildandi tekjustofni til áramóta verði 570 millj. kr. Við teljum tillögu Viðlagasjóðs um viðbótartekjur 100 millj. kr. ófullnægjandi og bendum á að þær bótakröfur, sem fram eru komnar og ekki hefur verið synjað, enda ekki fjallað um þær skv. reglugerð sjóðsins, samsvara þeirri tekjuþörf sem við gerum till. um.“ “

Ég vil mjög undirstrika það, að ég tel sjálfsagt að Norðfjarðardeild og norðfirðingar fái fullar bætur í samræmi við þau lög, sem sett voru um Norðfjarðardeild, og þá reglugerð, sem gefin var út í því sambandi — í samræmi við þau lög — og að þeir fái fullar bætur eftir því sem eðlilegt getur talist. En ég hlýt að spyrja, þar sem þarna kemur fram mjög mikið ósamræmi milli niðurstöðu þmn. og niðurstöðu stjórnar Viðlagasjóðs, sem telur að aðeins vanti 100 millj. kr. á að stjórnin telji sig geta staðið við sínar skuldbindingar, og þar sem taka á umrætt fé úr Vestmannaeyjadeild, — þá hlýt ég að spyrjast fyrir um það, hvað þarna beri á milli. Það ber annars vegar á milli 150 millj. sem þmn. telur að vanti og hins vegar 100 millj. miðað við niðurstöður Viðlagasjóðsstjórnar og niðurstöðu þess frv. sem hér liggur fyrir og gerir ráð fyrir að færa eigi 200 millj. á milli, og þá vænti ég þess, að það sé ekki talið óeðlilegt þó að ég spyrji um hvaða ágreining sé þarna að ræða. En ég vil undirstrika og endurtaka, að þó að ég beri hér fram þessa fsp., þá er það ekki á nokkurn hátt gert í þeirri meiningu eða þeim tilgangi að réttur norðfirðinga verði á nokkurn hátt skertur, því að svo sannarlega ætti ég að þekkja þetta manna best og slíkar hugmyndir ættu að koma frekar fram frá öðrum en mér. En þarna ber á milli 100–150 millj. sem á að færa úr Vestmannaeyjadeild yfir í Norðfjarðardeild, og því hlýt ég um það að spyrja, fyrst ágreiningur er um þessa upphæð, hvernig á því standi að hann er fram kominn og að frv. gerir ráð fyrir 100 millj. kr. meiri millifærslu úr Vestmannaeyjadeild til Norðfjarðardeildar en stjórn Viðlagasjóðs telur að með þurfi.