10.12.1975
Neðri deild: 26. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1066 í B-deild Alþingistíðinda. (729)

107. mál, snjóflóð á Norðfirði og fjáröflun til Viðlagasjóðs

Tómas Árnason:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður um þetta mál, enda á ég sæti í fjh.- og viðskn. sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar.

Ég vil fyrst láta í ljós þakklæti til hæstv. forsrh. og raunar hæstv. ríkisstj. allrar og Alþ. fyrir hve myndarlega þessir aðilar hafa staðið að bótagreiðslum og uppbyggingu í sambandi við náttúruhamfarirnar í Vestmannaeyjum á öndverðu ári 1973 og í Neskaupstað fyrir u. þ. b. ári. Enn fremur vil ég láta í ljós ánægju yfir þeirri yfirlýsingu hæstv. forsrh. að staðið verði við allar skuldbindingar stjórnvalda varðandi þessi mál.

Það kom fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns, 3. þm. Suðurl., að það væri nokkur munur á þeim heimildum, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, og hugmyndum okkar í þmn., sem skipuð var á sínum tíma til að hafa milligöngu á milli heimamanna í Neskaupstað og Viðlagasjóðs um þessi málefni. Ég vil taka það fram í fyrsta lagi, að þessi munur er ekki ýkjamikill. Í öðru lagi, að þó að við höfum verið þessarar skoðunar eftir athugun málsins, þá eiga þessi mál öll eftir að rekja sig upp og þess vegna ekki hægt að segja um það nú með neinni vissu hver endanlegur kostnaður muni verða. Það kemur á daginn þegar búið er að fjalla um mat og gera málin endanlega upp.

Ég vil svo bæta því við, að yfirlýsingu hæstv. forsrh. áðan um að stjórnvöld mundu standa við sinar skuldbindingar tel ég vera alveg fullnægjandi og enga ástæðu til að gera neinn ágreining út af þeim mun sem hér er um að tefla.

Varðandi einstök atriði vildi ég minnast með örfáum orðum á einn þátt þessara mála í Neskaupstað. Eins og menn muna voru það nokkur fyrirtæki, aðallega þrjú fyrirtæki, sem urðu fyrir miklu tjóni vegna snjóflóðanna í Neskaupstað. Eitt af þessum fyrirtækjum er Síldarvinnslan hf. sem varð fyrir langsamlega mestu tjóni. Það kemur fram á bls. 5 í fskj. II að útgjöld vegna tjóns Síldarvinnslunnar hf. nemi samtals 328 millj. kr. Þar er um að ræða tvö fyrirtæki, annars vegar fiskiðjuver og hins vegar loðnuverksmiðju. Fiskiðjuverið tók til starfa strax í fyrravetur og gekk mjög greiðlega að gera þar við og koma því í ganginn. Það stendur á sama stað að sjálfsögðu, sem er talinn hættustaður, og verður sjálfsagt að gera sérstakar ráðstafanir í framtíðinni til þess að tryggja þennan vinnustað. En það er mál út af fyrir sig.

Varðandi Síldarvinnsluna hins vegar var það ráð tekið að flytja hana burt af hættusvæðinu. Um það voru allir aðilar sammála sem fjalla um skipulagsmál. Ákveðið var að flytja hana inn á athafnasvæði nýju hafnarinnar sem verið var að gera í Norðfjarðarbotni. Þetta hafði ýmis áhrif á hafnarframkvæmdirnar. Það þurfti að gera nýjar áætlanir. Það þurfti að breyta fyrri áætlunum um gerð hafnarinnar vegna þessa, sem höfðu í för með sér stórkostlega aukinn kostnað við hafnargerðina. Það þurfti að taka skjótar ákvarðanir, vegna þess að það var talið mjög þýðingarmikið að stefna að því að loðnuverksmiðjan yrði upp byggð og hægt að taka hana í notkun á þeirri loðnuvertíð sem nú er fram undan. Án þess að fara nánar út í einstök atriði, þá er rétt að geta þess að hafnarframkvæmdir hafa kostað nokkru meira en ráð var fyrir gert, eða að því er ég ætla um 160 millj. kr. Ég vil vísa því til hv. n. að hún athugi sérstaklega hvort ekki er unnt að dreifa þessum kostnaði að einhverju leyti á næstu ár til þess að hann gangi ekki út yfir aðrar eðlilegar hafnarframkvæmdir á Austurlandi. Vonast ég til að n. taki það mál sérstaklega til athugunar.