10.12.1975
Neðri deild: 26. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1069 í B-deild Alþingistíðinda. (731)

107. mál, snjóflóð á Norðfirði og fjáröflun til Viðlagasjóðs

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa því yfir að ég er eftir atvikum mjög ánægður með þá ráðagerð sem birtist í frv. því sem hér er til umr., frv. til breyt. á l. um ráðstafanir vegna snjóflóðanna í Norðfirði. Ég hef ekki nægjanlega þekkingu til þess að dæma um það hvort þessi aðferð um að færa frá Vestmanneyjadeild í Norðfjarðardeild er réttlætanleg eða ekki. Um það hafa tekið ákvarðanir þeir sem hest til þekkja, og ég hlýt að verða að treysta því að sú ákvörðun eigi rétt á sér.

Mesta áherslu vil ég vitanlega leggja á þá yfirlýsingu hæstv. forsrh. að í einu og öllu verði staðið, bæði vegna náttúruhamfaranna í Vestmannaeyjum og í Norðfirði, við þau loforð sem gefin hafa verið af hinu háa Alþ. og hæstv. ríkisstj. Ég vil benda á að nokkurn veginn er gengið til móts við þær tillögur sem við, sem áttum sæti í þingmannanefndinni, gerðum síðast. Ekki er örvænt um það enn, að tekjur Norðfjarðardeildarinnar nemi 570 millj. kr., og frá því sem við höfðum áætlað við síðustu bréfaskriftir okkar til hæstv. ríkisstj., að hlutur Fiskveiðasjóðs vegna hinnar nýju síldarverksmiðju yrði aðeins 168 millj., þá er nú upplýst að Fiskveiðasjóður muni lána 200 millj., svo að hér ber aðeins mjög lítið á milli.

Skýringin, sem hv. 3. þm. Suðurl. bað um, hefur verið gefin hér af hv. 2. þm. Austurl. Þegar við gerðum áætlun okkar var hún vitanlega byggð einvörðungu á þeirri reglugerð sem um Norðfjarðardeildina er og augljóst mál að við höfum sannfært hlutaðeigandi aðila um réttmætari túlkun okkar á þeirri reglugerð heldur en Viðlagasjóður hefur sjálfur haft í frammi. Þess vegna er ætlað til frekari bóta helmingi hærri upphæð en það sem Viðlagasjóðsstjórn gerir í sinni grg. Ég býst við því að tregða Viðlagasjóðsstjórnar byggist miklu fremur á varkárni í þessum sökum en skilningsleysi. Við drógum dæmin af því t. d. að eina fyrirtækið, sem fyrir allöngu lauk endurbyggingu sinni eftir áföllin, frystihúsið á staðnum, það sýndi sig við það uppgjör að þar munaði verulega frá því sem Viðlagasjóðsstjórn hafði áætlað og til þess sem raun varð á um síðir.

Ég vil svo aðeins taka undir þakklæti til hins háa Alþ., hæstv. ríkisstj. og alveg sérstaklega hæstv. forsrh. fyrir mjög drengileg viðbrögð hans nú og frá upphafi vegna þessa áfalls í Neskaupstað.