10.12.1975
Neðri deild: 26. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1085 í B-deild Alþingistíðinda. (739)

105. mál, söluskattur

Lúðvík Jósepsson:

Forseti. Aðalefni þessa frv., sem hér liggur fyrir, er að gert er ráð fyrir að hækka söluskatt til ríkissjóðs um 2 prósentustig, en það mun jafngilda um 2500 millj. kr. í aukinni skattheimtu eftir þessari leið á ári. Í frv. er einnig um að ræða nokkra breytingu á hlutdeild sveitarfélaganna í söluskattstekjum. En sú breyting skiptir hér litlu máli, vegna þess að þó að nokkuð af þessari fjárhæð eigi að renna til sveitarfélaga umfram það sem áður hefur verið, þá er gert ráð fyrir því um leið að sveitarfélögin taki á sig ýmis útgjöld sem hingað til hafa verið útgjöld ríkissjóðs. Meginefnið er því að það er verið að auka tekjur ríkissjóðs sem nemur um 2500 millj. kr. á ári.

Ég vil taka það skýrt fram að við Alþb.-menn erum algerlega á móti þessu aðalefni frv. Við teljum að eins og nú er ástatt hefði einmitt átt að nota þetta tækifæri, ef mögulegt þótti að fella niður þessa söluskattsinnheimtu til Viðlagasjóðs, þá hefði átt að nota þetta tækifæri til þess að stuðla að verðlækkun í landinu og skapa svigrúm til þess að leysa önnur vandamál, eins og t. d. í sambandi við kaupgjaldsmál. Það er enginn vafi á því að ríkissjóður hefur aðra möguleika til þess að leysa sín fjárhagsvandamál. Ég vil í þeim efnum nefna að í fyrirliggjandi fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs á næsta ári lækki um 800 millj. kr. vegna lækkunar á tollum, aðallega á iðnvarningi sem til landsins yrði fluttur frá Efnahagsbandalagslöndum. Ég tel að eins og ástatt er í samskiptum okkar við þessi lönd nái í rauninni engri átt að gera ráð fyrir þessari tollalækkun og það sé engin þörf á því, eins og sakir standa, og ríkissjóður geti því haldið þessum tolltekjum eins og þær hafa verið.

Þá tel ég einnig að það sé tiltölulega auðvelt fyrir ríkissjóð að afla sér nokkuð aukinna tekna frá því, sem verið hefur í reynd, með því að breyta tekjuskattslögum þannig að fyrirtæki og félög greiði hærri tekjuskatt en þau gera nú, því að það er alkunna, eins og hefur reyndar verið dregið inn í þessar umr., að ýmsar reglur, sem nú gilda í skattalögum, einkum varðandi fyrningar, eru þannig að fyrirtæki í landinu greiða óeðlilega lítinn hluta af tekjuskatti. Þessu á vitanlega að breyta og hefði verið miklu réttara að gera það en fara þá tekjuaukaleið sem ætlað er að fara með þessu frv.

Þá tel ég einnig að sjálfsagt væri að breyta ákvæðum í skattalögum í þá átt að tryggja að þeir fjölmörgu einstaklingar, sem hafa með höndum atvinnurekstur, sleppi ekki frá allri tekjuskattsgreiðslu eða mjög verulegri tekjuskattsgreiðslu, eins og nú er raunin á, það yrði sem sagt sett inn ákvæði um að þeir skyldu alltaf þurfa að greiða tekjuskatt eins og aðrir af sanngjörnum og eðlilegum launum sem á að reikna þeim í þeim atvinnurekstri þar sem þeir starfa, en að þeir geti ekki í skjóli atvinnurekstrarins sloppið við að greiða tekjuskatt af sínum eðlilegu tekjum.

Það væri einnig hægt að nefna sparnað í sambandi við útgjöld ríkissjóðs á mörgum sviðum. Ég nefni aðeins eitt atriði. Í því fjárlagafrv., sem liggur fyrir nú, er gert ráð fyrir útgjöldum ríkissjóðs í sambandi við járnblendiverksmiðju upp á 285 millj. kr. Það sýnist alveg augljóst og sjálfsagt að fella niður þennan útgjaldalið og væri auðvelt að koma þessum sparnaði við eins og nú standa sakir. Það er skoðun okkar Alþb.- manna að það væri auðvelt fyrir ríkissjóð að tryggja sér tekjur eða jafngildi tekna sem þessari fjárhæð nemur sem hér er um að ræða og því eigi að fara aðrar leiðir til að leysa fjárhagsvandamál ríkissjóðs en þær sem gert er ráð fyrir með þessu frv., en nota hins vegar þann möguleika, sem hér berst upp í hendur með því að hægt er að láta niður falla tvö söluskattsstig, til þess að draga úr verðhækkunum eða beinlínis að koma fram verðlækkun. það hefði verið það sem nú skipti mestu máli.

Ég skal ekki hafa mörg orð um þetta mál nú við 1. umr., tel ekki þörf á því. Það er aðalatriðið sem ég hef hér minnst á, en ég vil aðeins segja það, að ég get að sjálfsögðu tekið undir viss atriði af þeim sem komu fram hjá hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasyni varðandi breytingar á tekjuskattslögum varðandi skattgreiðslu fyrirtækja og atvinnurekstrar. En ég er honum andvígur að því leyti til að ég tel ekki rétt þrátt fyrir augljósa annmarka, sem eru á núgildandi tekjuskattslögum, að hverfa frá þeirri skattheimtu með öllu, heldur tel ég fyllilega mögulegt að gera ýmsar breytingar á þeirri löggjöf. Ég tel að það væri síður en svo láglaunafólki í landinu til hagsbóta að fella niður tekjuskattinn og standa síðan frammi fyrir því að þurfa að halda uppi tilsvarandi hærri söluskatti sem að sjálfsögðu hvílir með miklu meiri þunga á lágtekjufólki heldur en hátekjumönnum, hlutfallslega miðað við tekjur. Ég tók eftir því í þeim till., sem hann gerði hér grein fyrir fyrir hönd Alþfl., að þar gerði hann ráð fyrir að áfram yrði haldið að innheimta þau 2 söluskattsstig sem hafa verið innheimt til þessa til Viðlagasjóðs, að ríkið yfirtaki þann tekjulið og reyndar einnig eitt söluskattsstig sem nú er varið til sérstakrar niðurgreiðslu á olíuverði til þeirra sem þurfa að búa við hátt olíuverð til að hita upp húsnæði sitt. Ég lýsi í rauninni undrun minni á því að það skuli vera till. Alþfl. að ætla að hverfa frá því vandamáli, eins og það er hrikalegt fyrir þá sem verða að hita upp íbúðarhúsnæði sitt með olíukyndingu, og ætla að vísa ríkissjóði á þann tekjustofn, því að það er ábyggilegt að þeir, sem njóta hans nú, búa við miklum mun lakari kjör en aðrir nú. (GÞG: Má ég skjóta inn í leiðréttingu? Það, sem ég átti við, er að þetta kæmi til framkvæmda þegar það hvort eð er yrði lagt niður, ekki 1. mars n. k.) Nú, þá yrði náttúrlega lítið úr því á meðan við þurfum á þessu að halda, þá gerði það heldur lítið fyrir ríkissjóð. En ég skildi það svo að þetta ætti að falla niður 1. mars. En að sjálfsögðu gerir núv. ríkisstj. ráð fyrir því að framlengja þetta söluskattsstig áfram í þessu skyni. (GÞG: Þá mundum við samþykkja það.) Já, við skulum vona að við verðum sammála um það.

En ég skal sem sagt ekki fara að ræða hér almennt um breytingar á skattalögum, en hef lýst almennri afstöðu okkar Alþb.-manna, að við erum algjörlega andvígir meginefni þessa frv. og teljum í rauninni mjög miður farið að nota ekki það tækifæri sem þarna bauðst til þess að reyna að draga úr dýrtíðinni sem menn eru sí og æ að tala um. Þarna var möguleiki til þess og sá möguleiki hefði einnig hjálpað mjög til þess að leysa mörg önnur vandleyst vandamál í sambandi við okkar efnahagsmál.