10.12.1975
Neðri deild: 26. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1091 í B-deild Alþingistíðinda. (747)

53. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Svava Jakobsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég fór þess á leit í upphafi fundar í dag að máli þessu yrði frestað sakir þess að hæstv. félmrh. var þá ekki viðstaddur. Ástæðan var fyrst og fremst sú, að ég vildi bera undir hann vafaatriði, sem ég tel vera í frv., og fá úrskurð hans eða skoðun á hvernig túlka bæri, auk þess sem ég kann því betur að ráðh. mæli fyrir málum sínum hér á Alþingi.

Hv. þm. til glöggvunar vil ég rifja það upp að sama dag og hæstv. félmrh. mælti fyrir þessu frv. í Ed. mælti ég fyrir frv. hér í Nd. um sama efni. Þá gagnrýndi ég að í frv. ríkisstj. skyldu ekki taldar upp í frvgr. þær ástæður sem teldust réttlæta undanþágur frá ákvæðunum um endurgreiðslu sparifjár, en í frv. mínu voru þær ástæður greindar. Ég sé að hv. þm. Ed. hafa verið sömu skoðunar og ég og fært þetta frv. nær mínu og fagna ég því að sjálfsögðu.

En það vafaatriði, sem ég ræddi um í upphafi máls míns , varðar námsmenn. Ég hafði lagt til í mínu frv. að fólk, sem væri að hefja nám eftir að hafa tekið þátt í atvinnulífinu í nokkurn tíma eða nokkur ár, skyldi eiga þess kost að fá sparifé sitt endurgreitt gæti það engan veginn leyst byrjunarörðugleika við námið á annan hátt, og þannig notið jafnræðis við fólk sem á samfellda skólagöngu að baki. En þeir námsmenn hafa getað fengið sparifé endurgreitt hafi þeir stundað nám í sex mánuði á undangengnu ári. Um slíkt eru ákvæði í reglugerð. En til að taka af allan vafa — og ég hygg raunar að hæstv. ráðh. hafi aðeins ýjað að því áðan — en til öryggis vil ég leyfa mér að spyrja hann hvern skilning hann leggi í orðið „námsmenn“ í frv. sínu, hvort það geti orkað tvímælis að þarna sé átt við þann hóp manna sem er að hefja nám, enda þótt það geti ekki fullnægt því skilyrði sem nú gildir um skólagöngu á undangengnu ári.

Að öðru leyti fagna ég því að þetta frv. er fram komið og að það hefur hlotið afgreiðslu í Ed. Ég vænti þess að það eigi jafngreiðan gang hér í gegnum Nd.