10.12.1975
Neðri deild: 26. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1092 í B-deild Alþingistíðinda. (748)

53. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Í tilefni af ræðu hv. 5. landsk. þm. vil ég taka fram í fyrsta lagi að það frv., sem hún hefur flutt og er á þskj. 58, um svipað eða sama efni, var lagt fram á Alþ. að ég ætla daginn eftir að stjfrv. var lagt fram. Hún telur að í frv. hennar hafi verið ákvæði sem ekki voru í stjfrv. og nú hafi Ed. fallist á sjónarmið sín og sett þau inn í frv. Þetta er allt saman eintómur misskilningur.

Í frv. stjórnarinnar er veitt heimild til endurgreiðslu ef högum umsækjenda er þannig háttað að mati ráðh. að brýna nauðsyn beri til að leyfa endurgreiðsluna. Það var athugað vandlega í rn., hvort væri æskilegt eða nauðsynlegt að telja upp sérstök tilvik, og var álitið að það væri nauðsynlegt og ekki víst að það væri til bóta, heldur að hafa heimildina almenna. Hins vegar, eins og ég gat um áðan, voru m. a. þrjú tilvík höfð í huga. Það voru öryrkjar, einstæðir foreldrar og námsmenn. Kom til orða hvort ætti að nefna þessi þrjú tilvik. Var horfið frá því í stjfrv., því að vitanlega gætu komið upp fleiri tilvik sem þættu gefa tilefni til undanþágu. Í stjfrv. er heimildin þetta rúm, að það er ekki bundið við eitt eða annað tilvik, heldur aðeins ef brýna nauðsyn ber til. Þetta er mjög á svipaða lund í frv. hv. þm., að öðru leyti en því að þar er nefnt eitt dæmi. Þar segir: „sé aðili að hefja nám eða færi fullnægjandi sönnur á að endurgreiðslu sé þörf af félagslegum ástæðum.“ Þetta rúmast auðvitað allt saman innan stjfrv.

Í Ed. kom fram að einstakir þm. óskuðu heldur eftir því að inn í lögin yrðu tekin þessi þrjú atriði sem ýmist eru nefnd í grg. eða ég hafði getið um í framsöguræðu: öryrkjar, einstæðir foreldrar eða námsmenn. Þó að ég teldi það ekki breyta neinu að efni til og út af fyrir sig ekki þörf á því taldi ég sjálfsagt til að fá samstöðu um málið að fallast á þessa breytingu.

Hv. þm. spurði hvort þeir, sem ætla að hefja nám, falli undir hugtakið námsmenn. Það skiptir engu máli hér vegna þess að heimildin í stjfrv. er það rúm. Það er talað um félagslegar ástæður og þetta þrennt, m. a. námsmenn, er aðeins nefnt sem dæmi. Vitanlega kemur ekki síður til að veita undanþágu þeim, sem eru í þann veginn að hefja nám, heldur en öðrum. Þetta verður auðvitað allt saman að meta eftir aðstæðum hverju sinni.