11.12.1975
Sameinað þing: 32. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1096 í B-deild Alþingistíðinda. (758)

44. mál, frestun framkvæmda við Grundartangaverksmiðjuna

Flm. (Jónas Árnason):

Herra forseti. Ég sakna hæstv. ríkisstj. Það er sama hvort maður skyggnist hér til hægri eða til vinstri, allir stallar auðir. (Gripið fram í: Það er einhver kominn.) Ja, það var nú ekki sá rétti. Það stendur til að punda hér töluvert á a. m. k. tvo hæstv. ráðh. sem eru fjarstaddir. Maður gat að sjálfsögðu ekki reiknað með því fyrir fram, (Forseti: Ef hv. þm. óskar, þá er hægt að fresta þessu máli þar til hæstv. ráðh. eru mættir.) Nei, ég vil ekki eiga á hættu að þetta dragist úr hömlu.

Það var 4. des. í fyrra, fyrir einu ári og einni viku betur, að haldinn var sögulegur fundur að Leirá í Borgarfirði. Tveir hæstv. ráðh., Gunnar Thoroddsen iðnrh. og Halldór E. Sigurðsson ráðh. landbúnaðar- og samgöngumála, gerðu þar grein fyrir hagsbótum mörgum og glæsilegum sem þeir töldu að vestlendingar mættu vænta vegna byggingarjárnblendiverksmiðju að Grundartanga í Hvalfirði. En hrifning þeirra, sem á hlýddu, var ekki í neinu samræmi við þá dýrð sem boðuð var. Fundarmenn, fólk af Akranesi, fólk úr sveitunum norðan og sunnan Skarðsheiðar, bændur, húsmæður, ungmenni, þetta fólk reis upp og mótmælti harðlega áformunum um byggingu þessarar verksmiðju, vefengdi fullyrðingar ráðh. um þá blessun sem henni mundi fylgja.

Reynslan af því ári, sem liðið er síðan, hefur sýnt að það, sem hæstv. ráðh. sögðu á þessum fundi, var fleipur mestan part, en andmælendur þeirra, fulltrúar borgfirskrar alþýðu, höfðu lög að mæla.

Athugum fyrst lítillega fullyrðingar ráðh. í ljósi þeirra staðreynda sem blasa við eftir blaðamannafund sem stjórn Járnblendifélagsins hélt fyrir tæpum mánuði.

Það er ekki hægt að vitna orðrétt í málflutning ráðh. á Leirárfundi, en sá málflutningur var hinn sami og þeir viðhöfðu við umr. um málið hér á Alþ., og þær umr. má lesa svartar á hvítu í Alþingistíðindum. Til að mynda sagði hæstv. iðnrh. í umr. í Ed. 10. febr. s. l., með leyfi hæstv. forseta: „Að því er reksturinn snertir, þá er áætlun á bls. 16 í grg. frv. sem miðuð er við markaðsverð á járnblendi nú og byggð á þeim spám sem gerðar eru af kunnáttumönnum.“ Menn taki eftir þessu, spárnar eru gerðar af kunnáttumönnum. „Samkv. því er gert ráð fyrir að hreinn hagnaður, eftir að allar greiðslur hafa verið inntar af hendi og m. a. skattar, ætti að verða hin fyrstu ár um 3 millj. dala, en síðan fara hækkandi upp á 4.6 millj. dala á árunum 1983–1937 og síðar upp í 6.4 millj. Þetta eru þær spár, sem nú liggja fyrir.“

Þetta eru þær spár sem nú liggja fyrir, sagði hæstv. ráðh. 10. febr. s. l., og hann og ýmsir aðrir héldu áfram að endurtaka þetta í þeim umr. sem urðu svo um málið hér á Alþ., en þeim umr. lauk ekki fyrr en 26. apríl. En aðeins rúmu hálfu ári síðar, þ. e. a. s. 14. nóv. s. l., gefur að líta í flokksblaði hæstv. iðnrh., Morgunblaðinu, frásögn af fyrrnefndum blaðamannafundi stjórnar Járnblendifélagsins, og þar segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn íslenska járnblendifélagsins hefur ákveðið að takmarka sem mest nýjar fjárskuldbindingar félagsins í sambandi við byggingu járnblendiverksmiðju þess á Grundartanga. Ástæður þess eru þær að mikill samdráttur hefur orðið í stáliðnaði í Vestur-Evrópu og markaðshorfur fyrir framleiðslu verksmiðjunnar, kísiljárn, hafa versnað samhliða mikilli birgðasöfnun hjá framleiðendum.“

Í þessari frétt kemur í ljós að þær hinar glæsilegu spár, sem hæstv. iðnrh. byggði á boðskap sinn aðeins rúmu hálfu ári fyrr, voru tóm vitleysa. Hins vegar voru þær gerðar af kunnáttumönnum, það vantaði ekkí. Hverjir skyldu nú hafa verið þeir kunnáttumenn? Mikið væri gaman að vita það. Á blaðamannafundi fyrir tæpum mánuði sagði stjórn Járnblendifélagsins að því væri spáð að einhvern tíma á árinu 1978 yrði stálmarkaðurinn kominn á svipað horf og hann var á s. l. ári, þegar gerð var fyrri spáin sem reynst hefur markleysa. Og hverjir skyldu nú vera þeir kunnáttumenn sem gert hafa þessa nýju spá? Það skyldu þó ekki vera þeir hinir sömu kunnáttumenn og gerðu hina spána? Ég er ekki í neinum vafa um það. Og þá vaknar þessi spurning: Fyrst þessir kunnáttumenn töluðu tóma vitleysu í vetur leið, er þá hægt að treysta því að allt í einu núna séu þeir farnir að tala af viti?

Lítum aftur á það sem hæstv. iðnrh. sagði í umr. um verksmiðjuna hér á hinu háa Alþ. Þær voru ekki óglæsilegar, horfurnar í lánamálum sem hann boðaði þá. Hann sagði t. d. um hlutafjárframlag íslendinga, með leyfi hæstv. forseta: „Þetta framlag af Íslands hálfu, hlutafjárframlagið, hefur verið gert ráð fyrir að taka að láni. Liggur það nokkurn veginn ljóst fyrir að slíkt lán mun fáanlegt með viðunandi kjörum. Það hefur einnig verið kannað, eftir því sem unnt er, hvort slík lántaka kunni að draga úr eðlilegum lántökumöguleikum Íslands að öðru leyti á erlendum mörkuðum, og er talið af þeim, sem fróðastir eru í þeim efnum, að svo muni ekki.“ Hér eru sem sé kunnáttumenn og fróðir menn í öllum áttum. „Þetta fyrirtæki þykir bæði það sérstaka eðlis og það álitlegt um arðsemi“ — menn taki vel eftir þessu, fyrirtækið þykir „bæði það sérstaks eðlis og það álitlegt um arðsemi að lántaka í því skyni yrði ekki talin mundu draga úr almennum lánsfjármöguleikum Íslands á erlendum markaði“.

En aðeins hálfu ári eftir að ríkisstj., með hæstv. iðnrh. í broddi fylkingar, fékk Alþ. til að samþ. frv. um járnblendiverksmiðjuna, stendur þetta í flokksblaði hæstv. ráðh., Morgunblaðinu, — ég vitna enn í frásögn af blaðamannafundi stjórnar Járnblendifélagsins, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar upphaflega var gerð áætlun um byggingu járnblendiverksmiðju var búist við því að unnt yrði að útvega lán á kjörum sem voru 9–11% vextir og lánstíminn var til 12 ára. Lánakjör hafa nú versnað þannig að vextir hafa hækkað og eru nú um 11–13% og lánstíminn hefur styst í 8 ár. Jafnframt mun nauðsynlegt að afla tryggingar fyrir lánum, en hér áður fyrr var það ekki talið nauðsynlegt ef hlutafé fyrirtækisins var hátt.“ Hér áður fyrr? Fyrir langa löngu? Einhvern tíma í fyrndinni? Nei, fyrir aðeins rúmu hálfu ári.

Ég þarf ekki að spyrja hver sá kunnáttumaður var sem hæstv. iðnrh. treysti á þegar hann fullyrti að fyrirtæki þetta væri „bæði svo sérstaks eðlis og álitlegt um arðsemi“ að lánsfjárútvegun hlyti að ganga eins og í sögu. Sá kunnáttumaður var auðvitað sá seðlabankastjóri sem fylgdi hæstv. iðnrh. honum til halds og trausts á Leirárfund. Og eftir frammistöðu hans í þessu máli er spurning hvort ekki væri fullt eins gott fyrir hæstv. ráðh. að láta bara spá í bolla, — gæta þess bara, sbr. alkunna sjónvarpsauglýsingu, að það sé Kaaber-kaffi.

Hinn ráðh., sem kom á Leirárfundinn, hæstv. ráðh. landbúnaðar- og samgöngumála, Halldór E. Sigurðsson, — mikið sakna ég nú hans í dag, — hann tók undir allt það sem þessi hæstv. ráðh. sagði um hinn mikla beina peningahag af Grundartangaverksmiðjunni og lántökuhorfurnar glæsilegu, dró þar ekkert úr, bætti reyndar frekar í. Dæmigerð um þann málflutning er sú ræða sem hæstv. landbrh. flutti þegar lokasennan stóð um málið hér á hinu háa Alþ. 26. apríl. Þá tókst honum svo vel upp, þessum gamla ungmennafélaga, að helst verður líkt við þá heiðríku glaðværð og bjartsýni sem lesa má í bókum að einkenndi svo mjög málflutning aldamótakynslóðarinnar þegar hún var upp á sitt allra besta. Þessi hæstv. ráðh. sagði þá m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Til þess að það megi verða að fólki fjölgi þarf að auka atvinnu- og atvinnumöguleika. Þetta er aðalþáttur byggðastefnunnar. Möguleikarnir einmitt í þessu kjördæmi“ — þ. e. a. s. í Vesturlandskjördæmi, þar sem járnblendiverksmiðjan á að rísa — „möguleikarnir í þessu kjördæmi til þess að gera þetta felast m. a. í því góða hafnarstæði sem er við Hvalfjörð. Ég vil líka minna á það, að þetta mun verða til þess að tryggja raforku á þessu svæði, tryggja betri samgöngur en nú er. Og ég vil líka benda á það, að einmitt þetta svæði hefur nú möguleika á meiri fjölbreytni í skólum heldur en flest önnur svæði þessa lands. Það verður til þess að efla þá að fólki fjölgi í Vesturlandskjördæmi. Ég minni einnig á gott sjúkrahús og uppbyggingu heilsugæslustöðvar. Allt þetta og margt fleira mætti telja til er tryggir félagslegar framfarir á Vesturlandi með atvinnu og eðlilegri fólksfjölgun svo og blómlegar og góðar sveitir.“

Ég skýt því hér inn í, sem reyndar allir hv. alþm. vita, að þessir glæsilegu framtíðardraumar voru tengdir fyrirtæki, sem á til frambúðar að veita 115 manns atvinnu. En það er meira blóð í kúnni:

„Það mun verða hagkvæmara fyrir bændurna í þessum sveitum. Þó að hv. 5. þm. Vesturl. hristi höfuðið“ — já menn taki eftir því að þegar hér er komið ræðu hæstv. ráðh. hefur jafnvel mér farið að blöskra rómantíkin — „þó að hv. 5. þm. Vesturl. hristi höfuðið, þá mun það vera hagkvæmara að selja á þeim mörkuðum, sem þarna skapast, því það verða engar blómlegar sveitir nema markaðir séu góðir, og því styttra sem er á þá því betra. Því á þessi hv. þm. að átta sig á, jafnvel þótt hann vilji setja það öðruvísi í revíu.“

Ég verð nú að segja að ég sé ekki neina ástæðu til að betrumbæta þá revíu sem nú hefur átt sér stað í sambandi við þetta mál. Mér sýnist uppsetningin vera fullkomin og frammistaða aðalleikaranna með ágætum.

En hafi verið ástæða til að hrista höfuðið vegna þessa máls í aprílmánuði s. l., hversu miklu meiri ástæða er þá ekki til að hrista höfuðið núna yfir þeirri uppákomu sem kunngerð var á margnefndum blaðamannafundi 13. nóv. s. l. og yfir stöðu þessara tveggja hæstv. ráðh. í málinu. Ég verð að segja alveg eins og er, að ég sárvorkenni þessum mönnum. Þetta er alveg voðaleg uppákoma.

„Jólasveinn.“ í Orðabók Árna Böðvarssonar eru tvær skýringar á þessu orði til viðbótar þeirri gömlu samkv. íslenskri þjóðtrú, að þetta sé vættur sem sé á ferð um jólaleytið. Hin fyrri þessara skýringa er sú, að þetta sé „maður sem leikur jólasvein“, og hin síðari: „hálfgerður kjáni, ómerkingur“. Þegar þessir tveir hæstv. ráðh. komu á Leirárfundinn snemma á jólaföstu í fyrra með fullan poka af fögrum fyrirheitum, þá sýnist mér að þeir hafi birst borgfirðingum sem jólasveinar samkv. hinni fyrri þessara skilgreininga. En eftir þær staðreyndir, sem nú liggja fyrir, há sýnist mér því miður að þeir séu nær því að vera jólasveinar samkv. síðari skilgreiningunni. En nóg um það.

Það ætti ekki að þurfa að rifja upp fyrir hv. þm. hve mikið gekk á fyrir hæstv. ríkisstj. þegar hún kom að því að endanlega yrði samþ. frv. um járnblendiverksmiðjuna hér á Alþ. 26. apríl s. l. Þá var laugardagur. Þá hófst fundur strax um morguninn í hv. Nd. Og svo ákaft voru trippin rekin að það var ekki einu sinni gert hlé til þess að hv. þm. gætu nærst í hádeginu. Hv. Nd. Alþ. fékk ekkert að borða fyrr en hún kyngdi þessu frv., eins og hv. Ed. hafði kyngt því nokkru áður.

Það upplýstist að þetta óðagot stafaði af því að forstjórar Union Carbide voru búnir að gera ráðstafanir til þess að koma hingað daginn eftir og skrifa undir samning við ríkisstj. Íslands, og það lá í loftinu að þeir mundu líta á það sem persónulega móðgun við sig ef löggjafarsamkoma þessarar smáþjóðar leyfði sér að trufla ferðaáætlun þeirra með sérviskufullum vangaveltum og þvargi út af þessu máli.

Flestir áttu að sjálfsögðu von á því að mjög fljótlega eftir undirskrift samningsins yrði hafist handa um framkvæmdir við Grundartanga, enda hafði verið lýst yfir að af beggja hálfu, íslensku ríkisstj. og Union Carbide, væri lögð áhersla á nauðsyn þess að verksmiðjan gæti risið sem allra fyrst. En vorið leið, og svo kom sumarið, og það var liðinn drjúgur hluti af sumrinu líka þegar framkvæmdir loksins hófust. Ætli það hafi ekki valdið mestu um þennan drátt að Járnblendifélaginu tókst ekki fyrr en þetta að finna verktaka sem væri þeim kostum búinn að hann gæti með heiðri og sóma annast byrjunarframkvæmdirnar.

Valið á verktakanum lukkaðist þannig, svo sem kunnugt er, að hneykslismálin hrúguðust upp í kringum hann eins og moldarhaugarnir undan þeim vinnuvélum sem hann hafði í þjónustu sinni. Aðbúnaðurinn, sem hann leyfði sér að bjóða því fólki sem hann réð til vinnu, var með þvílíkum endemum að annað eins hefur ekki þekkst í verkalýðssögu Íslands nú hina síðustu áratugina, og öll framkoma hans gagnvart þessu fólki eftir því. Kvörtunum út af honum rigndi yfir verkalýðsfélagið á Akranesi, og viku eftir viku gat skrifstofa þess engum öðrum málum sinnt. Hann stóð þannig í skilum við verkafólkið og ýmis fyrirtæki, aðallega á Akranesi, að áður en varði voru skuldir hans við þessa aðila farnar að nema tugum millj. Síðan fór hann í stórum stíl að gefa út bankaávísanir, sem engar innstæður voru fyrir, og þegar menn komu aftur til hans með þessar ávísanir, sem á nútímamáli nefnast gúmmítékkar, þá gerði hann sér bara lítið fyrir og rak þá úr vinnunni. „Agi verður að vera,“ sagði góði dátinn Svæk. Hirðuleysi á vinnusvæðinu var allt á eina bókina lært. Bifreiðar í eigu verktakans reyndust jafnvel ekki hafa sjálfsögðustu skoðunarvottorð. Öryggismál voru öll í megnasta ólestri og lá oft við alvarlegum slysum. Til að mynda gerðist það eitt sinn, þegar veghefill átti þarna ferð um, að talstöðvarloftnet hans rakst upp í háspennulínu, — hún lafði svona lágt, — og allt þetta mikla stálbákn sló gneistum, en fyrir einhverja óskiljanlega heppni slapp hefilstjórinn óskaddaður.

Ég veigra mér við að ræða náið þá meðferð sem náttúran sjálf hlaut í öllum þessum átökum, þau ósköp sem urðu að ganga yfir þann part af ættjörð vorri sem nauðsynlegt var talið að bylta til svo að svigrúm fengist til þess að hefja byggingu verksmiðjunnar. En sjónarvottar ýmsir hafa líkt þessum átökum við æðisgenginn vélahernað, enda hermdu fregnir að fólkið í Katanesi hefði stundum orðið að sæta eins konar umsátursástandi, þar eð eina leið þess til sambands við umheiminn lá um orrustuvöllinn þveran. Sömuleiðis kom það fyrir að nágrannar, sem ætluðu að heimsækja Katanesfólkið, voru stöðvaðir með þeirri áminningu af hálfu þeirra sem hernaðinum stjórnuðu að svona ferðalag væri glæfraspil sem enginn ætti að leggja út í nema í brýnustu nauðsyn.

Sumir hafa viljað færa það til málsbóta þeim manni sem stóð fyrir þessu öllu saman, títt nefndum verktaka, að honum hafi verið nauðugur einn kostur. Yfirboðaðar hans, Járnblendifélagið, Union Carbide og ríkisstj. Íslands hafi knúið svo fast á um framkvæmdirnar, yfirboðaðar hans hafi beðið þess málþola að undirbúningsframkvæmdunum lyki svo að verksmiðjan góða gæti farið að rísa af grunni. Það hafi m. ö. o. verið vegna samviskusemi gagnvart yfirboðurunum að verktakinn gerðist sekur um hitt og annað misjafnt gagnvart öðrum aðilum. Sá góði maður hefur þá fengið að sannreyna hið fornkveðna, að laun heimsins eru vanþakklæti. Rétt í þann mund sem hann er að enda við ætlunarverk sitt, ekkert nema samviskusemin, þá gerist það, að yfirboðarar hans hóa saman blaðamönnum til þess að tilkynna þeim að ekkert verði úr frekari framkvæmdum fyrr en einhvern tíma og einhvern tíma.

Þeim hernaðaraðgerðum, sem hófust á miðju sumri á Grundartanga í Hvalfirði, er senn lokið. Orrustugnýrinn hljóðnar. En þar sem í vor gaf að lýta fagurgróið land, þar gefur nú að líta þau verksummerki sem einn af merkustu og gáfuðustu bændum Borgarfjarðar segir að sé „stærsta mógröf sem tekin hafi verið á Íslandi“. Hve mikla peninga — fyrir nú utan allt annað — hve mikla peninga skyldi hún hafa kostað, þessi mógröf? Ég hef lagt þessa spurningu fyrir fróða menn og fengið þetta svar; „Ekki nema svona kannske 200 millj.“ Ekki nema! Til hafnarframkvæmda á öllu Vesturlandi er á næsta ári gert ráð fyrir fjárveitingu sem nemur samtals 100 millj. kr. Það er aðeins helmingurinn af því sem þessi eina mógröf kostaði. Og hvað væri hægt að bæta mikið vegakerfið á Vesturlandi fyrir 200 millj. kr.? Ég skýt þessu svona fram til umhugsunar fyrir alþm., en einkanlega ætlaði ég að beina því til þess hv. þm. Vesturlandskjördæmis sem er ráðh. hafna- og vegamála og fer auk þess með landbúnaðarmál, svo að gera má ráð fyrir að undir hann heyri einnig mógrafir.

Ég geri mér reyndar ljóst að svo framarlega sem sá hæstv. ráðh. er enn sama sinnis og hann var þegar hann flutti hina rómantísku ræðu sína í anda aldamótahreyfingarinnar 26. apríl, þá muni hann telja að 200 millj. til undirbúningsframkvæmda við Grundartanga séu ekki annað en tittlingaskítur þegar hugsað sé til þess blómstrandi lífs er upp af þessu muni spretta í tengslum við verksmiðjuna góðu. Kannske er hæstv. ráðh. enn sama sinnis. Kannske er öll hæstv. ríkisstj. enn sama sinnis. Það er því miður oft reynslan í sambandi við mikil pólitísk völd að það er eins og þau auki mönnum úthald og seiglu við að berja hausnum við steininn. En ég vil trúa því að einhverjir þeir hv. þm., kannske drjúgur hluti þeirra hv. þm. sem á síðasta þingi samþ. frv. um járnblendiverksmiðjuna, hafi nú séð sig um hönd. Ella væri hér satt að segja um að ræða miklu meiri dómgreindarskort en skaplegt gæti talist innan vébanda þeirrar stofnunar sem er æðsta valdastofnun íslenska ríkisins.

Þessi trú mín byggist á þeirri skoðun að margir hv. þm. hafi stutt frv. um járnblendiverksmiðjuna fyrst og fremst vegna þess að þeir töldu sig þannig vera að tryggja íslenskt efnahagslíf gegn skakkaföllum í framtíðinni, afstaða þeirra hafi ráðist af oftrú á þær fullyrðingar sem oddvitar járnblendifylkingarinnar létu klingja í eyrum manna sí og æ meðan þeir voru að lemja málið í gegn, að undirstöðuatvinnuvegir okkar að fornu og nýju, sér í lagi sjávarútvegur, væru svo ótryggir að glapræði væri að treysta á þá til frambúðar. Við yrðum að renna nýjum stoðum, traustum stoðum, styrkum stoðum undir efnahag okkar. Grundartangaverksmiðjan skyldi vera ein slík stoð.

Nú er á daginn komið að fullyrðingarnar um styrkleika þessarar stoðar voru hæpnar, að ekki sé meira sagt. Sjálf stjórn Járnblendifélagsins hefur lýst yfir því að þær glæsilegu áætlanir varðandi Grundartangaverksmiðjuna, sem hæstv. ráðh. boðuðu fyrir aðeins rúmu hálfu ári, eru komnar á tvist og bast, kostnaðurinn rokinn upp úr öllu valdi, en hagnaðarvonin niður úr öllu valdi, svo að eiginlega má segja að nú þegar — meðan Grundartangaverksmiðjan er þó ekki annað en teikning á pappír — sé hún farin á kúpuna. Helstu ábyrgðarmenn verksmiðjumálsins hafa sem sé staðfest að það voru falskar forsendur sem lágu til grundvallar því að Alþ. samþ. byggingu þessarar verksmiðju. Ég fæ því ekki annað séð en að Alþ. hljóti að endurskoða afstöðu sína til hennar.

Herra forseti. Sú þáltill., sem hér er til umr., hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að beita áhrifum sínum til þess að frestað verði framkvæmdum við byggingu járnblendiverksmiðju við Grundartanga í Hvalfirði.“

Þarna er aðeins talað um frestun framkvæmda. Ástæðan til þess, að ekki er kveðið fastar á orði, er sú að till. var lögð fram í byrjun nóvembermánaðar og þá töldum við flm. að það væri borin von að á Alþingi íslendinga fengist samþ. að leggja mál þetta alveg fyrir róða. En nokkrum dögum síðar lét stjórn Járnblendifélagsins fjölmiðlum í té þær upplýsingar, sem ég hef hér gert að umtalsefni, og þar með gjörbreytast víðhorfin. í ljósi þeirra upplýsinga sýnist mér ástæða til að ætla að býsna stór hluti alþm. sé til viðtals um að kveða hér fastar að orði. Þess vegna beini ég því til þeirrar n., sem fær till. til athugunar, að hún taki af skarið og skili till. aftur með þeirri breytingu að í stað þess aðeins „að fresta,“ þá verði kveðið á um að hætta með öllu framkvæmdum við byggingu járnblendiverksmiðjunnar við Grundartanga.

Ég vil svo ljúka þessari ræðu minni, sem orðin er næsta löng, með því að láta í ljós þá einlægu von, að þetta hörmulega Grundartangaævintýri hafi opnað augu manna fyrir því hversu vafasöm hún er yfirleitt, þessi mikla stóriðjupólitík sem nú er á döfinni, hversu háskalegt það væri að hella örlögum þessarar litlu þjóðar okkar í bland við það sem kraumar í hinum risavöxnu suðupottum erlendra auðhringa. Mógröfin við Grundartanga hefur að vísu kostað mikið í krónum talið, hátt í 200 millj. kr. Það er dýr lexía. Íslenska þjóðin yrði þó að greiða enn hærra verð og í miklu, miklu meiri verðmætum en þeim sem í krónum eru talin ef lexían lærist ekki fyrr en seinna.

Ég legg til að þessari till. verði vísað til allshn.