11.12.1975
Sameinað þing: 32. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1102 í B-deild Alþingistíðinda. (759)

44. mál, frestun framkvæmda við Grundartangaverksmiðjuna

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Þegar stjórnarskiptin urðu í fyrrahaust lágu fyrir till. og áætlanir um byggingu járnblendiverksmiðju sem undirbúin hafði verið af fyrrv. ríkisstj. undir forustu iðnrh. Alþb., Magnúsar Kjartanssonar. Áður en þetta mál yrði lagt fyrir Alþ. af hinni nýju ríkisstj. þótti sjálfsagt að láta endurskoða allar áætlanir. Það var gert, bæði áætlanir um stofnkostnað og rekstrarkostnað og annað sem máli skipti. Þetta tók nokkurn tíma og leiddi til þess að hinar nýju áætlanir sýndu verulega hærri stofnkostnað en áður hafði verið gert ráð fyrir, en hins vegar að afkoma fyrirtækisins ætti að verða ekki lakari, heldur jafnvel betri. Á þessum nýju áætlunum var byggt frv. um járnblendiverksmiðjuna sem samþ. var á Alþ.

Það ætti nú ekki að fara fram hjá hv. flm., því að ég hélt að það væri öllum kunnugt, ekki aðeins á Íslandi, heldur á þessum hnetti, að verulegar breytingar hafa orðið á verðlagi ýmissa vara og hvers konar tilkostnaði víðs vegar um heim á þessu ári eins og hinu síðasta. Það þótti því rétt nú á þessu hausti að líta enn á kostnaðaráætlanir, eins og gert hafði verið árið áður, og skoða vandlega, hvort breytingar verðlags í heiminum hefðu gert það að verkum að stofnkostnaður yrði meiri, og enn fremur að endurskoða rekstraráætlanir. Stjórn járnblendiverksmiðjunnar ákvað því, eins og kunnugt er, fyrir nokkru að fresta um sinn frekari fjárskuldbindingum, eins og það var orðað í tilkynningu hennar, meðan slík endurskoðun færi fram. Ég tel að þetta hafi verið ábyrg og eðlileg afstaða og fyllilega rétt að gera slíka nánari könnun. Við þetta, þ. e. verðbreytingar bæði í sambandi við stofnkostnað og í söluverð á væntanlegri framleiðslu, bætist svo að lánskjör og lánsmöguleikar hafa mjög breyst frá því fyrir ári. Bæði hafa vextir breyst víða og lánstími. Allt þetta þarf að sjálfsögðu að skoða vandlega áður en lengra er haldið, og ég held að það hafi verið skynsamleg ráðstöfun hjá stjórn járnblendiverksmiðjunnar að taka sér nokkurt tóm til þeirrar skoðunar og ekkert óeðlilegt við það, síður en svo.

Ég vil svo aðeins segja út af ræðu hv. þm. og till. hans, sem felur í sér að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir því að fresta framkvæmdum, að maður skyldi ætla, þegar hann kemur hér og flytur framsöguræðu fyrir till. sinni um frestun, að hann kæmi fyrst og fremst til að lýsa ánægju sinni yfir ákvörðun stjórnar járnblendiverksmiðjunnar að fresta framkvæmdum um stund. En það var öðru nær, því að hv. þm. virðist vera jafnergilegur yfir því, að verksmiðjan verði byggð, og yfir hinu, að henni verði frestað. Meira sé ég ekki ástæðu til að ræða þetta mál að sinni.