11.12.1975
Sameinað þing: 32. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1110 í B-deild Alþingistíðinda. (762)

44. mál, frestun framkvæmda við Grundartangaverksmiðjuna

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka undir þær kröfur sem hér komu fram hjá hv. þm. Jóni Árm. Héðinssyni um að hæstv. ríkisstj. gefi Alþingi hið allra fyrsta ítarlega skýrslu um stöðu þessa máls. Það er full ástæða til þess að Alþingi sé upplýst um hvað hefur raunverulega komið fram í þessu máli í öllum aðalatriðum. Það þarf að sjálfsögðu að upplýsa um leið hvað er búið að eyða miklum fjármunum nú þegar í framkvæmdir og undirbúningskostnað, og það þarf að upplýsa um það hvaða áætlanir séu uppi hjá ríkisstj. um áframhald, og um það hvort nýjar áætlanir hafi þegar verið gerðar og hvernig þær líti út. Ég tek undir kröfu Jóns Árm. Héðinssonar um það. Ég tel að það sé eðlilegt, eins og málum er nú komið að Alþingi geri nýja samþykkt í þessu máli, hvort eigi að halda áfram þessu fyrirhugaða verki eða ekki.

Ég kvaddi mér hér hljóðs fyrst og fremst í tilefni af ræðu hæstv. iðnrh. Mér fannst ræða hans segja furðulega lítið fyrst hann tók hér til máls í þessu máli. Hann gat þess að vísu að það hefðu verið gerðar fleiri en ein kostnaðaráætlun varðandi byggingu þessarar verksmiðju, síðari áætlunin hefði verið allmiklu hærri en hin fyrri og hann teldi því að það væri ofureðlilegt að stjórn þessa verksmiðjufyrirtækis vildi nú á nýjan leik skoða þessa síðari áætlun aftur. En það hefði kannske mátt geta þess, um leið og skýrt var frá þessu, að þessar áætlanir, sem hæstv. ráðh. minntist á, komu fyrir sjónir alþm. með býsna einkennilegum hætti á sínum tíma. Fyrst var samin allmikil bók um járnblendiverksmiðjumálið og þar sett fram áætlun um stofnkostnað og rekstrarkostnað, og þessar áætlanir voru þá kynntar bæði ríkisstj. og fulltrúum allra flokka. Þessi upphaflega áætlun var unnin af sérfróðum mönnum, og það fór víst ekki á milli mála að þessir sérfróðu menn voru fulltrúar Union Carbide ásamt þeim fulltrúum íslendinga sem höfðu átt viðræður við fulltrúa þessa erlenda stórfyrirtækis. En þingmenn höfðu ekki haft þessa áætlun lengi í höndum þegar þeim var síðan send önnur áætlun þar sem mátti segja að öllu væri snúið við úr fyrri áætlun. Þá kom í ljós að stofnkostnaður hafði í fyrri áætluninni verið stórlega vantalinn, allt mælt í erlendri peningamynt, en ekki í íslenskum krónum, og þá kom líka í ljós það sérkennilega fyrirbæri sem hæstv. ráðherra minntist á í sinni ræðu sem alveg sjálfsagðan hlut, að þegar stofnkostnaður fyrirtækisins hækkaði gífurlega mikið, þá bara jókst gróðinn við það. Sem sagt, fyrri áætlunin hafði þá verið svona gerð, að varðandi rekstraráætlun hafði áætlunin verið með öllu röng samkv. því sem haldið var fram í síðari áætlun. Auðvitað var á það bent á sínum tíma, þegar þessar áætlanir birtust, að ekki væri mikið öryggi í þessum málum, þó að það væri ein aðalröksemdin fyrir því að við íslendingar ættum að ráðast í stóriðjufyrirtæki að slík fyrirtæki væru miklu öruggari í öllum rekstri og þar væri ekki um eins miklar efnahagslegar sveiflur að ræða og ættu sér stað í sambandi við okkar hefðbundnu atvinnuvegi. En þarna kom það sem sagt í ljós strax við fyrstu athugun á þessu máli að upplýsingar, sem gefnar voru af sérfróðum mönnum, reyndust alrangar, bæði varðandi stofnkostnað og rekstrarkostnað og ýmsa þýðingarmestu þætti í sambandi við rekstur fyrirtækisins. Og nú er sem sagt komið í ljós að þessi síðari áætlun, sem gerð var, stenst ekki heldur og það er ekki aðeins einhver einn þáttur sem hefur brugðist í þessari áætlunargerð, nú er skýrt opinberlega frá því að áætlun um stofnkostnað verksmiðjunnar sé rangur, allt of lágur, og þó var kostnaðaráætlunin gerð í dollurum. Nú er það einnig upplýst að rekstrarkostnaðurinn verði allt annar en reiknað hafði verið með og lán, sem þurfi að taka til verksmiðjunnar, verði að vera með miklu óhagstæðari kjörum, til styttri tíma, með hærri vöxtum og óhagstæðari á allan hátt en reiknað hafði verið með. Ef allt færi að líkum ættu þessar nýju upplýsingar að leiða til þess, miðað við það sem áður hefur verið sagt, að líkur bentu til þess að það yrði um hallarekstur á þessari verksmiðju að ræða, vegna þess að fyrri áætlun sýndi að miðað við þann stofnkostnað, sem þá var reiknað með, og þær vaxtagreiðslur, sem þar var reiknað með, mátti ekki á milli sjá, þá var ekki um verulegan hagnað að ræða fyrr en þá eftir allmörg ár.

Ég tók eftir því að hæstv. iðnrh. vildi afsaka þetta með því að það hefði gerst margt í verðlagsmálum, ekki aðeins hér á Íslandi, heldur annars staðar í heiminum á þessu tímabili, sem hefði getað raskað áætlunargerð jafnvel hjá sérfræðingum. En þetta fær ekki staðist heldur hjá hæstv. ráðherra. Sannleikurinn er sá og það liggur nú fyrir öllum hv. alþm. að þær miklu verðhækkanir, sem áttu sér stað í heiminum og við höfum fengið að kenna á hér á Íslandi, gengu yfir frá miðju ári 1972 og fram á fyrsta fjórðung ársins 1974 og voru langsamlega mestar á árinu 1973. En það var einmitt á fyrsta ársfjórðungi 1974 sem verðlag erlendis fór almennt að falla frá því sem áður var og hefur fallið síðan samkv. opinberum vísitölum um erlent verðlag, og á þessum sama tíma hafa einmitt vaxtakjör víða í heiminum lækkað en ekki hækkað. Þau voru einmitt hæst á árinn 1973 og til loka þess árs, svo að það getur ekki verið nein frambærileg skýring í sambandi við nýja áætlunargerð að vitna til almennra verðlagsbreytinga úti í heimi eða til breytinga á vaxta- og lánakjörum.

Hér er greinilega allt annað á ferðinni. Nú þykir hagkvæmt að segja okkur íslendingum að það hafi verið reiknað með röngum fjárhæðum í sambandi við stofnkostnað og það hafi einnig verið reiknað með röngum fjárhæðum í sambandi við rekstrarkostnað, og nú verða menn að viðurkenna það líka að forsendur fyrir sölu á þessari framleiðsluvöru eru allt aðrar en reiknað hafði verið með. Þegar þetta liggur nú fyrir frá forstöðumönnum þessa félags, þá gefur það auðvitað auga leið að það er réttmætt að hæstv. ríkisstj. lofi því á Alþingi að áður en haldið verði lengra áfram með framkvæmdir í þessum efnum gefi hún ítarlega skýrslu um þetta mál til Alþingis og Alþingi fái að leggja dóm á það á nýjan leik hvort á að halda áfram með þessar framkvæmdir eða ekki. Ég ítreka því hér beiðni mína og tek þar einnig undir þá kröfu sem kom fram hjá hv. þm. Jóni Árm. Héðinssyni, — ég ítreka þá beiðni til hæstv. ríkisstj. að hún gefi fyrirheit um það að Alþingi verði gefin skýrsla um þetta mál og gefinn kostur á því að taka ákvörðun um málið á nýjan leik áður en lengra verður áfram haldið. Ég vil líka setja fram þá ósk að það væri réttmætt að fulltrúar beint frá Alþingi fengju að fylgjast með þeim athugunum sem verða gerðar á málinu, en við þurfum ekki áfram að byggja í jafnríkum mæli á upplýsingum frá einhverjum sérfróðum mönnum í málinu sem við vitum harla lítið um, en hafa reynst okkur litlir sérfræðingar til þessa.

Ég sagði áðan að ein af aðalröksemdunum fyrir því að rétt þótti af meiri hluta Alþingis að ráðast í byggingu þessarar verksmiðju var að því var haldið fram að rekstur af þessu tagi, eins og stóriðjurekstur almennt, gæfi miklu meira efnahagslegt öryggi en hinn almenni atvinnurekstur okkar. Það er vissulega þörf á því að hv. alþm. átti sig á því að allar röksemdir, sem fram hafa komið um að stóriðjan veiti okkur meira öryggi í atvinnurekstri en okkar hefðbundnu atvinnuvegir gera, allar fullyrðingar í þessa átt hafa verið að afsanna sig ein eftir aðra að undanförnu. Við höfum í þessu tilfelli dæmi af járnblendifyrirtækjum. Allt bendir þar til þess að þar ríki ekki síður efnahagslegar sveiflur en í sambandi við okkar eigin atvinnuvegi. Þar fáum við strax, áður en verksmiðjan rís, upplýsingar um að markaðsverð á framleiðsluvörum verksmiðjunnar sveiflast til, ýmist er markaðsverðið hátt eða þá að framleiðslan er lítt seljanleg, og fréttir berast um að verksmiðjum af þessu tagi sé lokað í öðrum löndum vegna offramleiðslu eða vegna þess að markaðsskilyrði séu óhagstæð, svo að ekki virðist vera miklu meira öryggi í sambandi við þennan rekstur en okkar almenna atvinnurekstur.

Víð höfum einnig fyrir augum okkar reynslu af rekstri álversins. Nú hefur það stóriðjufyrirtæki verið rekið hér í nokkur ár. Samkv. upplýsingum stjórnenda þess fyrirtækis hefur það tapað miklum fjármunum á þessu tímabili og það hefur sýnt taprekstur næstum að segja ú hverju ári. Sum árin hefur reksturinn gengið þannig að það er t. d. enginn vafi á því að ef íslendingar hefðu haft þá verksmiðju, þá hefðu þeir orðið að loka henni og stöðva alla framleiðslu í a. m. k. heilt ár. Þeir hefðu ekki haft bolmagn til þess að reka verksmiðju með þeim hætti sem auðhringurinn gerði, sem gat leyft sér það að framleiða vörur mánuðum saman án þess að geta selt þær nokkurs staðar á eðlilegu verði.

Reynslan af stóriðjurekstrinum í Straumsvík er líka á þá lund að það er síður en svo um meira öryggi rekstrarlega séð að ræða í sambandi við stóriðjuna en almennt er varðandi okkar atvinnurekstur. Það er að vísu rétt að við erum háðir ýmsum sveiflum í sambandi við rekstur okkar atvinnuvega. Það er hvort tveggja að rekstrarvörur geta hækkað í verði og höfum við stundum fengið að kenna á því eða að okkar framleiðsluvörur lækka í verði. En þetta er ekkert sérstakt í sambandi við okkar atvinnuvegi. Þetta er ekkert sérstakt í sambandi t. d. við framleiðslu á sjávarafurðum og sölu á þeim á erlendum mörkuðum. Þetta gerist almennt í framleiðslu iðnaðarvara. Stundum er þar um mikla sölukreppu að ræða, offramleiðslu á ýmsum iðnaðarvörum, eftir því hvernig hefur verið staðið að framleiðslunni á hverjum tíma og eftir því hverskonar efnahagssveiflur ganga yfir í markaðslöndunum. Þetta gerist í sambandi við framleiðslu á landbúnaðarvörum í öðrum löndum, og þetta er hið almenna. Það er síður en svo að reynslan sýni að okkar atvinnuvegir séu bundnir við óhagstæðari eða meiri sveiflur en aðrir atvinnuvegir eru almennt.

Hin mikla röksemd fyrir því að við ættum að snúa okkur að stóriðju og sérstaklega stóriðju í fylgd með útlendingum til þess að öðlast efnahagslegt öryggi, sú röksemd fær ekki staðist. Það er reynslan búin að sýna okkur. Sú reynsla kemur m. a. fram í sambandi við járnblendiverksmiðju á Grundartanga.

Hin aðalröksemdin, sem uppi var fyrir því að rétt þætti að ráðast í byggingu járnblendiverksmiðju í Hvalfirði, var að við þyrftum á því að halda að selja allmikið af þeirri raforku, sem við ættum yfir að ráða, til einhvers aðila sem gæti gert sér gagn úr þessari raforku. En þá kemur upp spurningin, hvernig eigi að fara með þessa raforku nú, fyrst menn þurftu endilega að ráðast í byggingu járnblendiverksmiðju til þess að geta afsett þetta umframrafmagn. Hvað gerist nú ef horfið verður frá byggingu þessarar verksmiðju eða framkvæmdum í sambandi við hana verður frestað um nokkur ár? Þá gera menn það sem menn höfðu einmitt reiknað með að gera áður en járnblendiverksmiðjutillögurnar komu upp, þá fara menn þá leið að þeir fresta um 1–2 ár eða svo að kaupa ákveðinn hluta af véla-samstæðunum í Sigöldu. Hún var alltaf byggð upp með það í huga að ef til vill yrði staðið þannig að framkvæmdinni. Síðan verður eflaust staðið þannig að þessum málum að við nýtum þetta rafmagn sjálfir til okkar eigin þarfa, en þær eru á mörgum sviðum. Ég býst við því að það verði kannske til þess vitnað að í samningunum um járnblendiverksmiðju komi það fram að járnblendifélagið sé skyldugt til þess að kaupa ákveðinn hluta af þessari raforku sem forgangsorku, hvort sem verksmiðjan kemst upp ú réttum tíma eða ekki. Það er rétt, það mun vera ákvæði um þetta í samningunum. En þetta ákvæði eins og önnur í samningum við útlendinga reynist ekki haldgott þegar á að taka á því. Þeir Union Carbide-menn losa sig tiltölulega auðveldlega út úr þessum vanda. Í fyrsta lagi benda þeir á að íslendingar eigi 55% í verksmiðjunni og geti því borgað 55% af þessari forgangsorku sjálfir. Við sitjum því uppi með þann vanda sem nemur 55%, en varðandi hinn hlutann, sem er 45% af þessu raforkuverði, munu þeir losa sig mjög auðveldlega undan öllum vanda í sambandi við að greiða þá raforku. Þeir senda okkur merkilegan reikning sem þeir mega senda samkvæmt samningunum, bæði í sambandi við stofnkostnaðarframlag og eins í sambandi við rekstrarframlag, því að þeir borga ákveðinn hluta af rekstrarkostnaðinum með því að senda okkur reikning sem þeir kalla sína miklu sérþekkingu, sem er þegar farið að reyna talsvert á. Þeir senda okkur reikning og segja að þeir greiði samkv. samningunum það, sem vanti á raforkuverðið, með sérþekkingu sinni og þar höfum við fengið greiðsluna á þessu rafmagni. Þetta er allt samkv. samningunum og kostar þá Union Carbide-menn ekki ýkjamikið, en hins vegar mjög vafasamt að við gerum okkur mikið gagn úr þessari sérþekkingu.

Þetta verður ósköp svipað í reynd og nú er að koma á daginn með skattlagningarsamning okkar við álverið í Straumsvík. Menn töluðu hér hátt og mikið um það á sínum tíma að það ætti ekki að sleppa þeim við alla skatta, þeir ættu að borga skatta, að vísu væri búið að leggja alla venjulega skattlagningu á fyrirtækjum hér á landi í einn skatt, svonefnt framleiðslugjald. Og það var ekki aðeins reiknað út hvað þessi skattur ætti að vera mikill á ári. Þá var sú aðferð fundin upp, þegar var verið að sannfæra menn um álverksmiðjusamninginn, að reikna út allar upphæðir sem áttu að koma til okkar, ekki miðað við ársgrundvöll eins og nú er oft talað um, heldur aldrei minna en yfir 25 ára tímabil sem var samningstíminn. Þannig fengu menn út býsna laglegar upphæðir á að sjá. Þetta framleiðslugjald átti auðvitað að gefa okkur allmiklar tekjur. En nú hefur komið í ljós að vegna þess að þeir álverksmiðjumenn tapa alltaf á reikningum, þá greiða þeir okkur þetta framleiðslugjald á svo sérstakan hátt að það jafngildir í rauninni sáralitlu gjaldi. Hafa stjórnvöld þurft að glíma við að fá leiðréttingu á þessu, eins og fram mun koma hér þegar það mál verður tekið til umræðu sem einnig er hér á dagskrá þessa dags.

Það er skoðun mín að það hafi þegar komið fram svo alvarlegar aðvaranir í sambandi við járnblendiverksmiðjumálið að það sé réttmætt að það sé allt tekið til nýrrar athugunar, ekki bara í nokkra mánuði og ekki af þessum margumtöluðu sérfræðingum erlendra aðila sem geta auðvitað fundið upp á því að það sé hagkvæmt fyrir þá að eiga þennan samning, en fresta framkvæmdum í eitt ár eða tvö ár ef svo stendur á hjá þeim, heldur eigum við sjálfir að taka þetta til rækilegrar athugunar, skoða málið allt frá byrjun til enda og afgreiða málið aftur að nýju hér á Alþingi. Hér er auðvitað ekki um neitt smámál að ræða. Hér er um að ræða byggingu verksmiðju sem eflaust kostar, miðað við núverandi verðlagningu, 10–11 milljarða króna.

Ég skal svo ekki lengja þessar umræður að þessu sinni meira, en vil vænta þess að hæstv. iðnrh. sjái um að rannsókn á málinu öllu verði tekin upp, Alþingi verði gefinn kostur á því að fylgjast með athugun á málinu og málið verði síðan lagt fyrir Alþingi til nýrrar ákvörðunar.