11.12.1975
Sameinað þing: 32. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1114 í B-deild Alþingistíðinda. (764)

Umræður utan dagskrár

Jóhann Hafstein:

Hæstv. forseti. Það er nú hér í þinghúsinu meðal þingmanna og annarra mjög mikið talað um alvarlega atburði sem átt hafi sér stað fyrir austan land. Ég veit, hæstv. forseti, að það er mjög lítill tími sem þingið hefur nú, og ætlun mín með því að kveðja mér hljóðs utan dagskrár, þar sem ég veit að hæstv. forsrh. og hæstv. dómsmrh. hafa verið mjög bundnir við það undanfarið að afla nánari upplýsinga um þessa atburði, var aðeins að mega spyrja hæstv. dómsmrh. hvort hann teldi það vera orðið tímabært að gefa þingmönnum og Alþingi upplýsingar um þessa atburði. Ég veit að það mundi verða vel metið af alþm. ef það er þá orðið að hans mati tímabært að gefa okkur frekari upplýsingar.