11.12.1975
Sameinað þing: 32. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1117 í B-deild Alþingistíðinda. (769)

Umræður utan dagskrár

Magnús T. Ólafsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. að hann skuli hafa séð sér fært að skýra Alþ. frá því sem þegar er vitað um þá alvarlegu atburði sem verið hafa að gerast. Ég veit að á þessari stundu eru hugir allra alþm. og þjóðarinnar allrar hjá starfsmönnum Landhelgisgæslunnar og ekki síður hjá fjölskyldum þeirra.

Þessir alvarlegu atburðir eru að mínum dómi það sem reyndar alltaf gat gerst eftir að hin þriðja landhelgisdeila komst á það stig sem ákveðið var af bretum þegar þeir sendu flota sinn inn í fiskveiðilögsöguna. Það, sem ég vil sérstaklega beina til hæstv. dómsmrh. og hæstv. ríkisstj. á þessari stundu, er hvort hún telur ekki að tími sé til kominn og nauðsyn beri til að leitast verði við að koma daglegri umsjón og daglegu eftirliti með því, sem er að gerast, í fastara form en verið hefur. Þarna hljóta eðli málsins samkv. fleiri en eitt rn. að eiga hlut að máli. Og það getur skipt miklu að öll rn., sem þurfa að bregðast við tíðindum af þessu tagi, séu við því búin að undirbúa mál og undirbúa skjót viðbrögð í sameiningu. Við slíkum atvikum þarf ekki aðeins að bregðast hér heima fyrir og í landhelginni, heldur einnig á alþjóðavettvangi. Slík tíðindi hljóta að eiga sér pólitískan eftirleik, og það skiptir miklu máli að við komum upplýsingum okkar á framfæri með eins skjótum hætti og verða má og að viðbrögð okkar dragist ekki á nokkurn hátt vegna þess að meðferð máls taki lengri tíma en þurft hefði. Því beini ég því til hæstv. ríkisstj., hvort hún telur ekki ástæðu til að athuga á hvern hátt hægt er að koma málum svo fyrir að tryggt sé að öll viðbrögð út á við og inn á við séu eins skjót og markviss og ég veit að við erum allir sannfærðir um að þau þurfa að vera, eins alvarlegt og málið er orðið.