20.10.1975
Sameinað þing: 4. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í B-deild Alþingistíðinda. (77)

Umræður utan dagskrár

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Mér kom það mjög á óvart að heyra hæstv. forsrh. segja hér í Sþ. að stjórnarandstaðan hefði á síðasta fundi landhelgisnefndar snemma sumars slítið samstarfi við ríkisstj. um landhelgismálið. Þetta eru stór orð — (Gripið fram í.) og alvarleg og ég vænti þess að þau berist ekki út úr þessu húsi án þess að þau séu vandlega leiðrétt. Allir flokkar á Alþ. og ég vænti öll þjóðin hafa staðið svo sterklega saman um grundvallaratriði þessa máls, að það er fráleitt með öllu að tala um að stjórn og stjórnarandstaða hafi slitið samstarfi um málið þó að eitthvert atriði komi upp varðandi framkvæmd þess þar sem samkomulag er ekki. Við tvö atriði í sambandi við framkvæmd hæstv. ríkisstj. á þessu máli í vor og sumar kemst ég ekki hjá að gera nokkrar athugasemdir.

Í fyrsta lagi vil ég minna á að á síðustu tveim fundum landhelgismálanefndar var rætt um að nú þyrfti eins og ávallt áður, þegar landhelgin hefur verið færð út, að gera átak til kynningar á þessari nýju útfærslu. Þegar menn ræða um slíkt átak er ekki síst átt við almenna kynningu í fjölmiðlum sem nái til alls almennings og ekki síst þeirra sem hafa áhuga á fiskveiðum eða hagsmunum af þeim í öðrum löndum. Ég tel að þessi kynning hafi verið vanrækt. Ég hef ekki séð einn einasta prentaðan bækling, hvað þá meira mál. og ég hef á stuttri ferð til nágrannalanda á síðustu 3 vikum heyrt a. m. k. þrjá íslenska ambassadora kvarta undan því að þeir hefðu ekkert efni í höndum til að sýna fram á hvert ástand fiskstofnanna væri við Ísland, en það er einmitt kjarninn í málinu til að skýra hvers vegna við höfum ekki þolinmæði til þess að bíða eftir ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Hæstv. utanrrh. skýrði frá því í sjónvarpi að það væri búið að senda slíkar upplýsingar út, en hann nefndi, ef ég man rétt, að það hefði gerst 3–4 dögum áður en útfærslan kom til framkvæmda. Ýmsum þótti nóg um dugnaðinn hjá blaðafulltrúa ríkisstj. við 50 mílna útfærsluna, en það er ekki laust við að menn jafnvel sakni hans nú í þeirri ládeyðu sem hefur verið á þessu sviði.

Í öðru lagi finnst mér það vera mál, sem við getum varla talað kinnroðalaust um opinberlega, að sjútvrh. skyldi loksins daginn fyrir útfærsluna fá í hendur skýrslu frá Hafrannsóknastofnuninni, þar sem meginrökin fyrir útfærslunni koma fram, þrem mánuðum eftir að reglugerðin var gefin út. Það er að vísu rétt að stofnunin hafði gert nokkrar skýrslur fyrr í vor, en þær voru á ýmsan veg um aðrar hliðar þessa máls, og auðheyrt var á hæstv. forsrh. að í ágústmánuði hafi stjórnin enn rekið á eftir því að fá það sem hann kallaði „nægilega“ skýrslu um þetta mál, þetta meginatriði, ástand stofnanna og hvað þeir þola. Að slík skýrsla skyldi ekki vera tilbúin fyrr en daginn fyrir útfærslu er ekki boðlegt. Og að tala nú um að við ætlum að fara að halda ráðstefnu og ræða þar við ýmsa sérfræðinga hvernig þessi mál standi, eftir að við erum búnir að taka ákvarðanirnar, það er ekki heldur boðlegt.

Ég man ekki betur, þegar 12 mílurnar voru færðar út, en þáv. sjútvrh., hv. núv. 2. þm. Austurl., hafi haldið fleiri en eina ráðstefnu um sumarið áður en fært var út, og minnir mig að þær hafi verið á nokkrum stöðum á landinu.

Alþfl. hefur talið sjálfsagt mál að íslendingar taki þátt í viðræðum um landhelgismálið á viðtækum grundvelli við aðrar þjóðir. Það mundi vera hin mesta hneisa fyrir okkur, sem mundi spilla fyrir málstað okkar og sóma okkar sem sjálfstæðrar menningarþjóðar, ef við neituðum að ræða deilumál við aðrar þjóðir. Er það rétt hjá hæstv. forsrh. að við höfum skuldbundið okkur til þess í mörgum sáttmálum, t. d. grundvallarsáttmála Sameinuðu þjóðanna, að leitast við að leysa deilumál með umræðum.

Það er margt, sem við höfum við aðrar þjóðir að ræða á þessu sviði, t. d. viðskiptaþvinganir sem við erum nú beittir af fornum vinum og núv. vina- og bandaþjóðum okkar í Vestur-Evrópu. Það væri hægt að ræða ýmsa hluti, eins og löndunarbönn, jafnvel þó að eitt þeirra hafi horfið úr sögunni nú fyrir nokkrum dögum. Það væri hægt að ræða við þessar þjóðir um að þær beiti nú í stórauknum stíl ríkisstyrkjum til útgerðar sinnar, þannig að keppinautar okkar njóta nú vaxandi ríkisstuðnings sem hlýtur að gera samkeppnisaðstöðu okkar og þar með lífsbaráttu stórum erfiðari. Þetta er eðlilegt samræðuefni milli þjóða, sem eru í sömu bandalögum, eins og EFTA og OECD, þar sem efnahagsmál á að ræða. Það er hægt að ræða um ýmis markaðsmál og margt fleira.

En að sjálfsögðu er ekki við því að búast að slíkar viðræður fari fram án þess að einnig sé rætt um kröfur annarra þjóða til að fá undanþágur til fiskveiða innan hinnar nýju landhelgi og raunar innan 50 mílna landhelginnar líka. Í þeim efnum vil ég taka fram að Alþfl. er algerlega andvígur því að slík veiðileyfi verði veitt a. m. k. innan 50 mílnanna. Ef það er hægt að ná einhverju samkomulagi að gagni utan 50 mílnanna má líta á það þegar það samkomulag sér dagsins ljós.

Í þessu sambandi vil ég minna á að ein meginröksemd okkar fyrir því að færa út í 200 mílur hefur verið sá árangur sem náðist á hafréttarráðstefnunni í Genf, en fundum hennar s. l. vor lauk þannig að lagður var fram svokallaður sameinaður texti sem saminn var af forsetum og nefndarformönnum, en er auðvitað ekki samþykktur. Það er engin þjóð lagalega bundin af þessum texta, en það stóð heldur enginn upp og mótmælti, og almennt mun einróma hafa verið fagnað þeim árangri, sem þarna náðist, og talið að þetta væri veigamikið skref í þá átt að hafréttarráðstefnan kæmist að jákvæðari niðurstöðu um öll þessi efni.

Tvö atriði eru í þessum sameinaða texta, sem við höfum með réttu vísað til, er við íslendingar beittum okkur fyrir og tókst með góðu atfylgi ýmissa annarra, ekki síst Evensens hins norska landhelgisráðherra og formanns nefndar sem við hann er kennd, að fá inn í þennan sameiginlega texta. Þessi tvö atriði eru:

Í fyrsta lagi að hvert strandríki skuli ákveða sjálft hve mikinn afla það telur unnt að taka í landhelgi þess án þess að skaða fiskstofna. Það má segja að við höfum nú á síðasta degi fengið alveg tvímælalausa álitsgerð okkar bestu sérfræðinga hvað þetta snertir. Það er sú skýrsla sem þm. hafa fengið og hér hefur verið gerð að umtalsefni.

Í öðru lagi var það atriði, að hvert strandríki skuli sjálft meta hversu mikið af þessum leyfilega afla í landhelgi þess það getur sjálft veitt. Þetta atriði hefur mikla þýðingu víða úti um heim þar sem þjóðir með lítið efnahagslegt bolmagn ætla sér hreinlega að selja eða leigja landhelgi sína og hafa upp úr því fjármuni. Hér á Íslandi er þetta mjög þýðingarmikið og það kemur einnig fram í skýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar, a. m. k. varðandi verðmestu nytjafiska okkar, að við getum tvímælalaust einir veitt allt það magn, sem óhætt er að taka og e. t. v. betur en það.

Af þessu tvennu, sem liggur í augum uppi eftir að þessi skýrsla er loksins komin fram, er augljóst að það er í fullkomnu samræmi við hinn sameinaða texta, þ. e. a. s. árangur hafréttarráðstefnunnar í Genf, að við getum ekki veitt öðrum þjóðum veiðiheimildir innan 50 mílnanna

Eins og hér er nú komið fram, er hugsanlegt að bað gæti komið til einhver leyfisveiting samkvæmt tölum sem fram eru lagðar um karfa, en ég hygg að verulegur hluti karfaaflans sé tekinn utan 50 mílna. Þó að farið væri inn á þá braut mundi ekki þurfa að veita heimildir inn fyrir 50 mílurnar.

Þetta tel ég rétt að komi fram af hálfu flokks míns, úr því að umræður hefjast um landhelgismálið, og ég vil enda á því að brýna ríkisstj. mjög á því að fylgja fram þeim skoðunum og þeim staðreyndum, sem fram koma í skýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar, í þeim viðræðum sem eiga eftir að fara fram. Í öðru lagi að reyna að hafa þær viðræður á víðtæku sviði, þannig að það sé ekki eingöngu rætt um að aðrir komist inn í landhelgi okkar, heldur að við höfum líka eitthvað til þeirra að sækja, eins og t. d. réttlæti í viðskiptum við Efnahagsbandalagið. Við höfum þarna ýmis atriði, sem fulltrúar okkar geta notað til gagnsóknar og eiga að gera.

Ég held að þeir þurfi ekki að óttast að það muni hafa neikvæð áhrif á framvindu mála hjá Sameinuðu þjóðunum, þó að samkomulag náist ekki um að hleypa útlendingum inn í 50 mílurnar, vegna þess að þróunin sem hefur orðið undanfarnar víkur, þ. e. a. s. útfærsla okkar íslendinga, samþykkt fulltrúaþingsins í Washington og yfirlýsingar Mexíkóforseta eru allt atriði sem munu fyrst og fremst verða til þess að sannfæra þátttakendur í hafréttarráðstefnunni, um að ráðstefnan verði að ljúka verkefni sínu og það sem fyrst. Takist það ekki mun taka við stjórnleysi á höfunum, stjórnleysi sem mannkynið hefur engin ráð á í dag ofan á öll önnur vandræði, sem að okkur steðja.

Ég vil ítreka það sem ég byrjaði á, að ég vænti þess að ríkisstj. líti ekki svo á að stjórnarandstaðan hafi slitið samstarfi við hana þótt ósamkomulag sé um einstök framkvæmdaatriði landhelgismálsins.