11.12.1975
Sameinað þing: 32. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1118 í B-deild Alþingistíðinda. (770)

Umræður utan dagskrár

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Þessi atburður, að þrjú stór bresk skip ráðast með ofbeldi að íslenskum löggæslumönnum innan 3 mílna landhelginnar, þýðir ekkert annað en það að bretar hafa ráðist með ofbeldi á Ísland. Ég get ekki skilið að nokkur skynsamleg rök geti mælt með því að við höldum stjórnmálasambandi eða veitum aðstoð skipum, mönnum eða flugvélum frá slíkum ofbeldislýð.

Ég vissi ekki til þess í síðustu styrjöld að bretar fengju að fara með sjúka menn í land í Þýskalandi þó að þess þyrfti, og ég sé enga ástæðu til að veita þeim nokkra fyrirgreiðslu eða sýna þeim nokkuð annað héðan af heldur en grimmd af sama tagi a. m. k. á meðan slíkt á sér stað innan íslensku territorial-línunnar. Við skulum aðeins athuga hvernig stendur á því að þrír hæggengir, óvopnaðir dráttarbátar leyfa sér að ráðast á eitt stærsta varðskip þjóðarinnar. Þetta mundi ekki nokkrum lífandi sjómanni detta í hug að gera nema með því að þeir vita að íslensku varðskipin eru vopnlaus og varnarlaus. Það er alveg sjálfsögð krafa að varðskipin séu það vel búin vopnum að vopnlausir dráttarbátar þori ekki að reyna slíkar æfingar fyrir innan 3 mílur. Þeir þurfa að hafa slíkar fallbyssur og rakettur og annað það sem nauðsynlegt er, að þeir geti ekki átt von á öðru, slíkir glæpamenn, en að sitja á botni Seyðisfjarðar örfáum mínútum eftir svo asnalegar tilraunir og glæpsamlegar. Varðskipin þurfa að geta ógnað þeim með þeim vopnum sem þeir skilja. Þeim hefði aldrei dottið í hug að leika þennan leik nema þeir vissu að við höfum engar byssur með sprengikúlum, heldur byssur frá því á síðustu öld og kúlurnar í þessar byssur eru fáar og lítill sem enginn lager, enda dunda vélstjórarnir á varðskipunum við að renna þessar kúlur í byssurnar þegar þeir hafa tíma til.

Við þessu dugar ekki aðeins að gefa út einhverja svokallaða nákvæma fréttatilkynningu og að hæstv. ráðh. Einar Ágústsson mótmæli með diplómatískum hætti úti í Brussel slíkri árás. Það á að búa svo um hnútana að við getum sökkt slíkum árásarmönnum á þessum skipum þegar í stað, enda eru þessi skip fullkomlega réttlaus á þessum stað. Ég veit ekki til hvers er verið að hafa varnarlið í landinu ef það grípur ekki einu sinni inn í þegar erlendar stórþjóðir beita okkur hervaldi og ráðast beinlínis á íslendinga innan okkar lögsögu. Þeir geta vissulega samkv. samningi skipt sér af deilunni út af fiskimiðunum. En eðlilegast hefði verið að þeir hefðu skotið þessa dalla niður umsvifalaust ef þeir væru hér til að verja okkur. En þetta sýnir það og sannar einn sinni enn að þeir eru ekki hér til þess að verja íslendinga eða Ísland. Þess vegna væri það rökrétt afleiðing af viðbrögðum þeirra að þeir yrðu sendir umsvifalaust til síns heima, fyrir utan það sjálfsagða mál að íslendingar slitu stjórnmálasambandi við breta. Það liggur auðvitað í augum uppi og héðan af verður alls ekki undan því vikist.

Að vera í hernaðarbandalagi með slíkri þjóð sem á okkur ræðst er auðvitað fjarstæða. Og það eina, sem hinn ágæti samningamaður, Einar Ágústsson, hæstv. ráðh., ætti að gera í Brussel í dag og næstu daga, það er að tilkynna strax úrsögn okkar úr þessu glæpafélagi. Það hefur komið í ljós að þarna hefur maður slasast, jafnvel þó fréttir séu óljósar, og við getum ekki liðið það að breskir ofbeldismenn vaði hér inn á firði, inn undir þorp Íslands og slasi eða drepi okkar sjómenn. Þeir eru búnir að gera það nógu oft, þessir félagar okkar í NATO. Þess vegna hljótum við að krefjast þess að varðskipin verði nú þegar vopnuð á þann hátt, að enginn leyfi sér slíkan leik, og að við slítum stjórnmálasambandi og göngum nú þegar úr NATO. Mér þætti gaman að heyra ef einhver hv. þm. vildi standa upp og rökstyðja það með hverjum ósköpunum við getum verið í hernaðarbandalaginu eftir þennan atburð.