11.12.1975
Efri deild: 23. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1121 í B-deild Alþingistíðinda. (778)

106. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég skrifa undir þetta nál. með fyrirvara. Ég sé nú vart ástæðu til þess að vera á móti þessu frv. eða frv.-kríli. Það þykir nú áreiðanlega ekki merkilegt, enda sá hæstv. ráðh. ekki ástæðu til þess að mæla fyrir því í gær eða útskýra hvers vegna þetta væri fram komið. Ég sé ekki heldur ástæðu til þess að vera með þessu frv. sérstaklega. Ég geri mér eiginlega ekki grein fyrir því hvert er mikilvægi þess og þýðing.

Einhvern veginn hef ég það á tilfinningunni að þetta hljóti að vera einn þáttur þeirrar miklu hugsjónar að minnka ríkisumsvifin sem nú er mjög höfð á oddi. Okkur taldist svo til í félmn. í morgun að þau mundu minnka um eitthvað 5 millj. eða svo við þetta merka frv. (Fjmrh.: Margt smátt gerir eitt stórt.) Já, hæstv. fjmrh. kann greinilega vel að meta þessar 5 millj. sem hann sleppur þarna við úr ríkissjóðnum, og er ekki nema gott um það að segja að hann skuli láta sér nægja svo lítið. Það kann vel að vera að þetta sé eðlilegra form. En þá um leið kemur auðvitað að því að framlag ríkisins eða ríkissjóðs til Byggingarsjóðs ríkisins er lágt fyrir, 95 millj. líklega á fjárlagafrv., og reikna ég þá með því að þetta framlag lækki um þessar 5 millj. miðað við þetta annars ekki allt of háa framlag. Það skiptir sem sagt engu máli til eða frá hvorum megin þessar 5 millj. liggja eða hvað það er nú í dag. En mig langaði til þess að vita hvort hæstv. félmrh. væri nokkurs staðar hér nálægur. Getur hann ekki verið hér í hliðarherbergi, herra forseti. (Forseti: Hann mun vera í húsinu, og það er verið að ná í hann.) Annars er hér svo frítt ráðherraval að þeir koma náttúrlega öllum slíkum aths. á framfæri með glöðu geði, ekki þarf ég að spyrja að því.

Þetta var að vísu um óskylt mál, en gæti sparað mér að gera sérstaka fsp. um þetta tiltekna mál ef hæstv. ráðh. mætti hlýða á þessa stuttu aths., því að mér er nú heldur illa við að tefja þingfund með þessum hætti og þarf þá að spinna upp hér einhverja sögu í ræðustólnum á meðan beðið er eftir hæstv. ráðh. (Forseti: Gæti ekki hv. þm, frestað málinu um sinn?) Þetta er svo lítið að ég ætla aðeins að koma því á framfæri. (Forseti: Ég vænti þess að ef í nauðir rekur muni hv. þm. láta sér nægja að hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. eru viðstaddir.) Jú, en fyrst hæstv. ráðh. er nú viðstaddur, þá langaði mig til að koma með örstutta aths. varðandi Húsnæðismálastofnun ríkisins, af því að hún er hér til umr. Ég bið hann afsökunar um leið á því að koma fram með hana varðandi þetta mál og ætlast alls ekki til neinna svara af hálfu hæstv. ráðh. varðandi þetta. En þetta er varðandi Húsnæðismálastofnunina almennt.

Ég vildi gjarnan, þótt síðar yrði, fá upplýsingar um kostnað frá svokallaðri tæknideild Húsnæðismálastofnunarinnar vegna hönnunar og eftirlits á leiguíbúðum fyrir sveitarfélögin. Ég hef nefnilega um það staðfestar tölur að samtals muni kostnaður vegna þessarar þjónustu þessarar deildar nema milli 300 og 400 millj. á þessar fyrirhuguðu 1000 íbúðir, þ. e. a. s. á verðlagi dagsins í dag. Ég hef sem sagt fengið staðfesta reikninga bæði frá Egilsstöðum og Hornafirði sem hafa verið sendir þeim fyrir þessa þjónustu, og þessir reikningar sýna að þessi þjónusta, þetta eftirlit, nemur á hverja íbúð í blokk, allar eins vitanlega og því eins ódýrar í hönnun og framast getur verið, — á hverja íbúð milli 300 og 400 þús., líklega nálægt 320 þús. á hverja íbúð. Ég tel að það hafi verið mjög þarft verk að koma þessari þjónustu á, og ég held að hún hafi átt rétt á sér. En mér er sagt að hún hafi bólgnað ótrúlega mikið út og afleiðingin sé þessi, sem nú birtist sveitarfélögunum. Hér er um að ræða, miðað við lánsupphæð í dag, um það bil 200 fullgild lán og það er ekki svo lítið.

Ég vildi nota þetta tækifæri til þess að óska þess við hæstv. ráðh. að hann láti athuga þetta mál rækilega. Ég hef reyndar heyrt utan að mér að rannsókn á þessu sé þegar hafin af hálfu húsnæðismálastjórnar og er vel ef svo er. Hér er um alvarlegt mál að ræða, því að þessi deild innan Húsnæðismálastofnunarinnar átti einmitt að gegna eftirlitshlutverki og sérstaklega að gæta sparnaðar og hagsýni hjá sveitarfélögunum við byggingu þessara íbúða. Ég verð að segja það, að mér finnst ekki vera um fagurt fordæmi að ræða í þessum efnum samkv. þessum staðfestu tölum sem ég hef fengið.

Ég vildi aðeins koma þessu að hér, þótt óskylt sé, og biðja afsökunar á því að fara svo langt út fyrir efnið. En það sparar mér fsp. til hæstv. ráðh. sem beðið hefur verið um bæði frá Egilsstöðum og Höfn í Hornafirði, og ég veit að hæstv. ráðh. mun ekki taka illa upp þó að ég komi því hér að, enda býst ég ekki við neinum svörum hér að lútandi nú á þessu stigi. Þetta er aðeins ábending sem væri gott að fá upplýst einhvern tíma síðar.