20.10.1975
Sameinað þing: 4. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í B-deild Alþingistíðinda. (78)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er ekki að ástæðulausu að upp eru teknar hér á hv. Alþ. nú í dag umræður um landhelgismálið.

Áður en að ég held lengra vil ég aðeins strax í byrjun lýsa þeirri skoðun minni í sambandi við ummæli hæstv. forsrh. um að stjórnarandstaðan hafi slitið viðræðum við stjórnarflokkana í landhelgisnefnd, að mér kemur mjög á óvart slík yfirlýsing af hálfu hæstv. forsrh. og við það kannast ég ekki. Ég vænti þess að hæstv. forsrh. leiðrétti þessi ummæli sin hér á eftir, því að ég hygg að enginn af fulltrúum stjórnarandstöðuflokkanna í landhelgisnefnd muni kannast við að slíkt hafi gerst á síðasta fundi landhelgisnefndar fyrir um þrem mánuðum. Ég kannast ekki við það, og ég hygg að svo sé um fulltrúa Alþb. Það er komið fram að formaður Alþfl. kannast ekki við það.

Nú eru röskir þrír mánuðir liðnir síðan allir stjórnmálaflokkar í landinu voru um það sammála að lýsa yfir 200 mílna fiskveiðilögsögu við Ísland. Þessu hafa sjálfsagt og örugglega allir íslendingar fagnað heils hugar. Á því er enginn vafi, enda bera samþykktir, sem borist hafa víðs vegar að af landinu, merki þess að allir fögnuðu þessu og fagna og eru einhuga um þessa ákvörðun. Það er og enginn vafi á því að málstaður okkar íslendinga á erlendum vettvangi er miklum mun sterkari nú en hann hefur líklega nokkurn tíma áður verið varðandi útfærslu landhelginnar. Ég hygg að allir geti einnig verið sammála um þetta. En hvers vegna er þá sá kvíði og uggur sem selt hefur að íslensku þjóðinni vegna útfærslunnar í 200 mílur? Hvers vegna hefur hann komið upp? Það ætti ekki að vera. Það eru engin rök sem mæla með því að sá uggur eða kvíði ætti að vera meðal íslensku þjóðarinnar vegna þess sem gerst hefur á erlendum vettvangi, enda er ekki svo.

Þessi kvíði og uggur, sem nú er ríkjandi meðal íslensku þjóðarinnar varðandi landhelgismálið, er fyrst og fremst vegna stefnu eða stefnuleysis núv. hæstv. ríkisstj. um framkvæmd á landhelgismálinu. Það hefur komið fram fyrir löngu að stjórnarandstaðan er sammála um að ekki komi til mála að veita veiðiheimildir innan 50 mílna fiskveiðilögsögunnar til handa erlendum aðilum. Það hefur ekki komið jafnskýrt fram af hálfu hæstv. ríkisstj. að hún væri jafneinhuga um það að veita erlendum aðilum ekki veiðiheimildir innan 60 mílnanna. En hún hefur haldið þannig á málinu að hv. alþm., almenningur í landinu, þjóðin öll, hefur haft það á tilfinningunni að það væri í raun og veru stefna hæstv. ríkisstj. jafnvel að semja um veiðiheimildir innan 50 mílnanna gömlu. Það er þetta fyrst og fremst sem að mínu viti hefur sett ugg og kviða að íslendingum í landhelgismálinu nú.

Það hefur ekki farið leynt fyrir einum eða neinum að talsmenn stjórnarflokkanna, fyrst og fremst vil ég þó segja talsmenn Sjálfstfl., hafa í málflutningi túlkað það mál svo, að brýna nauðsyn bæri til að þrautreyna samningsleiðina. Þetta hefur, að því er ég best veit, ekki komið eins skýrt fram a. m. k. af hálfu talsmanna Framsfl. En þó virðist íslenska þjóðin vera í vafa um, hver er í raun og veru stefna Framsfl. varðandi framkvæmd landhelgismálsins nú.

Það er ekkert vafamál, það er það ekki í mínum huga og ég efast um að það sé vafamál í huga nokkurs hv. alþm. að öll íslenska þjóðin stendur einhuga að baki þeirri afstöðu að ekki komi til greina samningar um neinar veiðiheimildir erlendum aðilum til handa innan 50 mílna fiskveiðilögsögunnar. Mér þætti a. m. k. gaman ef einhver hv. alþm. treystir sér til þess að koma hér upp og draga í efa þennan einhug meðal íslendinga. Ef svo er, þá vænti ég þess að fá að heyra af munni þess hv. alþm. slík ummæli hér í dag.

Ég vil taka undir það, sem hér hefur komið fram, að ég tel að þing og þjóð eigi á því skýlausan rétt að fá að vita hver stefna núv. hæstv. ríkisstj. er varðandi framkvæmd landhelgismálsins.

Það hefur verið vikið hér að nýútkominni skýrslu frá fiskifræðingum Hafrannsóknastofnunarinnar, og vissulega er sú skýrsla eða ætti a. m. k. að vera það endanlega sem fram hefur komið til þess að hæstv. ríkisstj. treysti sér til þess í dag, við þessar umr., að lýsa því yfir að ekki komi til greina neinir samningar um veiðiheimildir, a. m. k. ekki innan 50 mílnanna. Þessi skýrsla, sem ég hygg að allir hv. alþm. hafi kynnt sér, er með þeim hætti að það er greinilegt hverjum og einum einasta sem les hana að það er ekki um neitt að semja við aðrar þjóðir varðandi veiðiheimildir á Íslandsmiðum. Ég vil því vona að sú sendinefnd, sem á förum er af hálfu íslensku ríkisstj. til London nú í þessari viku, hafi þessa skýrslu sem það lokaveganesti, ásamt þeim einhug, sem að baki stendur, með íslensku þjóðinni, um að ekki verði samið um veiðiheimildir innan 50 mílna markanna.

Ég vil að lokum óska eftir því við hæstv. forsrh. sem aðaltalsmann Sjálfstfl. í þessu máli að hann gefi hér og nú, treysti hann sér til, ótvíræða yfirlýsingu um það, að eins og málum sé nú komið, þá komi ekki til greina neinir undanþágusamningar um veiðiheimildir erlendum ríkjum til handa innan 50 mílna markanna. Komi slík yfirlýsing ekki fram af hálfu hæstv. forsrh. hér í dag, þá mun ég og íslenska þjóðin í heild skoða það sem ályktun um að enn séu uppi, a. m. k. innan Sjálfstfl., hugmyndir að semja innan 50 mílna markanna, og eftir því verður vissulega tekið.

Ég vil á sama hátt óska eindregið eftir því við hæstv. dómsmrh. sem formann Framsfl. að hann gefi hér og nú í dag skýlausa yfirlýsingu um það fyrir hönd Framsfl., treysti hann sér til, að ekki komi til greina, eins og málum er nú komið, neinir samningar um veiðiheimildir útlendingum til handa innan 50 mílna markanna. Og ég segi á sama hátt: Komi ekki slík yfirlýsing frá hæstv. dómsmrh. hér í umr. í dag, þá skoða ég þetta mál — og íslenska þjóðin mun öll gera það að mínu viti — sem ályktun á þá leið að Framsfl. sé líka með hugmyndir, þrátt fyrir allt sem fram hefur komið, um samninga um veiðiheimildir innan 50 mílna markanna. Og það verður vissulega ekki síður tekið eftir því.

Ég tel nauðsynlegt nú á þessari stundu, undir umr. um landhelgismálið og í þeirri stöðu, sem það mál nú er, að við fáum um það fulla vitneskju hvað hæstv. ríkisstj. ætlar sér að gera. Ætlar hún að semja um veiðiheimildir innan 50 mílna? Ef svo er, hvað ætlar hún að ganga langt? Það er þetta sem íslenska þjóðin á heimtingu á að fá að vita áður en samningafundurinn í London fer fram á fimmtudaginn kemur.