11.12.1975
Neðri deild: 27. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1129 í B-deild Alþingistíðinda. (807)

113. mál, álbræðsla við Straumsvík

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst víkja nokkuð að afgreiðslu á þessu máli. Hér er um æðistórt mál að ræða og margþætt. Það kemur nú fram á Alþ. á síðustu starfsdögum þingsins fyrir jólaleyfi. Er því augljóslega mjög knappur tími til þess að afgreiða málið á þeim fáu starfsdögum sem eftir eru til jóla, og ég tel að það sé í rauninni alveg útilokað að koma því við án þess að misbjóða hv. Alþ. Það er vitanlega eðlilegt þegar um er að ræða jafnumfangsmikið mál og þetta að nokkur tími gefist til þess fyrir þm. að kynna sér málið og fyrir þingnefndir að fjalla um það og fá allar þær upplýsingar sem snerta málið. Ég hefði því viljað vænta þess að ekki yrðu gerðar tilraunir til þess að knýja fram afgreiðslu á þessu máli nú fyrir jólahátíð. Ég get ekki séð að það skipti máli á neinn hátt. Hér er um það að ræða að samningur hefur verið gerður á milli íslenskra stjórnvalda og álfélagsins og leitað er eftir staðfestingu Alþ. á þessum samningi. Gert er ráð fyrir því í þessum samningi að hann skuli efnislega gilda frá 1. okt. á þessu ári, svo að ég get ekki séð að það hafi nein sérstök áhrif í sjálfu sér hvort hann verði staðfestur nú fyrir jól eða endanleg afgreiðsla fari fram eftir jólaleyfi. Verði um það að ræða að samningurinn fái ekki fullgildingu Alþ., þá mundi það væntanlega alveg eins gerast nú fyrir jól eins og síðar — eða þá hitt, að hann fái jafnt staðfestingu Alþ. nú fyrir jól eins og síðar. En hér er aðeins um það að ræða hvort á að gefa Alþ. eðlilegan tíma til þess að fjalla um málið.

Í trausti þess að málið fái eðlilega afgreiðslu og sú n., sem á að fjalla um það, fái nægan tíma til að leita þeirra upplýsinga, sem skiljanlega er óskað um þetta mál, skal ég ekki tala langt mál að þessu sinni, en drepa á nokkur þau atriði sem mér þykja athyglisverðust í sambandi við þessa samningsgerð eða þessa endurskoðun sem nú hefur farið fram á fyrri samningum við álfélagið.

Það er ljóst að það eru þrjú meginatriði sem þetta samkomulag fjallar um. Í fyrsta lagi er gerð endurskoðun á raforkusölusamningi Landsvirkjunar til álversins. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að breyta gildandi samkomulagi við álverið um skattgjaldsgreiðslu. Og í þriðja lagi er svo gert ráð fyrir því að heimila stækkun verksmiðjunnar og semja þá um viðbótarorkusölu til verksmiðjunnar. Þetta eru þau þrjú atriði sem þetta samkomulag fyrst og fremst fjallar um.

Það hefur auðvitað ekki farið fram hjá neinum að almenn óánægja hefur verið með eldri samninginn hvað varðar rafmagnsverð til þessarar verksmiðju. Mönnum hefur orðið æ betur ljóst að orkusölusamningurinn við álverið var og er mjög óhagkvæmur. Raforkuverðið til þessarar verksmiðju hefur verið langt undir því sem hefur verið nauðsynlegt fyrir okkur og hefur verið réttmætt og augljóslega langt undir framleiðslukostnaðarverði, eins og bent var á á sínum tíma, þegar þessi samningur var gerður. En þá var því haldið fram af þeim sem stóðu að samningsgerðinni að þó að viðurkennt væri að raforkuverðið væri tiltölulega lágt, þá mundi það þó standast framleiðslukostnaðarverð. En annað hefur komið í ljós. Og það er síður en svo að það sé rétt, sem hæstv. iðnrh. sagði hér, að þessi samningur við álfélagið um raforkusölu hafi orðið til þess að tryggja íslendingum lægra raforkuverð til þessa. Leikur enginn vafi á því að við höfum þurft að borga hærra raforkuverð en við hefðum annars þurft. Það hefur þurft að leyfa hvað eftir annað hækkun á heildsöluverði á raforku vegna þess að kostnaður allur í rekstri Landsvirkjunar hefur farið sívaxandi, en tekjur af raforkusölu til álversins hafa verið svo lágar að það hefur orðið að velta vaxandi kostnaði yfir á aðra raforkusölu, sölu til almennings í landinu.

Nú stóðu menn enn á ný frammi fyrir því að Landsvirkjun krafðist þess að fá enn heimild til þess að hækka heildsöluverð á rafmagni til almennra nota í landinu. En eins og kemur fram í umsögn Landsvirkjunar um þetta mál, þá telja stjórnendur Landsvirkjunar að þeir geti fallið frá þessari kröfu sinni um hækkun á almennu orkuverði að þessu sinni vegna þeirra breytinga sem gerðar eru á eldri samningi um raforkusölu til álversins. Það út af fyrir sig var þarft atriði, að reyna að knýja fram breytingar á þessum orkusölusamningi við verksmiðjuna. Það þurfti að reyna að gera það og nota alla möguleika til þess, og það hefur auðvitað verið vilji allra, sem með þessi mál hafa haft að gera, að reyna að koma þarna fram breytingum.

Eins og hæstv. iðnrh. minntist á var þetta mál tekið upp í tíð fyrrv. ríkisstj, af þáv. iðnrh. og reynt að knýja á um það að eigendur verksmiðjunnar féllust á að taka þennan orkusölusamning til endurskoðunar. En það tókst ekki þá. Síðan hélt núv. ríkisstj. þessu verki áfram og niðurstaðan liggur nú fyrir í þeim samningi sem gerður hefur verið.

Það er enginn vafi á því að nýi samningurinn gerir ráð fyrir nokkurri hækkun á raforkuverði að því leyti til að Landsvirkjun fær hærra raforkuverð en hefði orðið eftir gamla samningnum. Hitt er svo aftur mjög vafasamt, hvort sú hækkun, sem hér er samið um, er réttlát þegar á allt málið er litið. Það er rétt að samkv. eldri samningi voru þau ákvæði í gildi að raforkuverðið átti að lækka miðað við 1. okt. á þessu ári úr 3 mill niður í 2.5 mill. En raunverulega var það svo, við minnumst þess sem hér vorum þegar þetta mál var samþykkt á Alþ. á sínum tíma, 1966, — raunverulega var það svo að það var í upphafi samið um raforkuverðið 2.5 mill. En það var á síðustu stundu við afgreiðslu málsins gerð ákveðin millifærsla og verðið ákveðið þetta tímabil, fram til 1. okt. 1975, 3 mill, sem sagt ákveðið nokkru hærra en raunverulega hafði verið samið um. Hins vegar var þá samið um nokkru lægra skattgjald verksmiðjunnar á móti. Samkv. samningunum átti því nú að færa raforkuverðið niður í 2.5 mill, raunverulegt grundvallarverð sem samið var um á raforkunni til álfélagsins. Það hefði að sjálfsögðu verið óþægilegt fyrir Landsvirkjun sem situr uppi með þennan stóra samning og þetta óhagstæða verð.

Einnig er gerð hér nokkur breyting á skattgjaldi verksmiðjunnar, framleiðslugjaldinu, og er sennilegt að þau ákvæði, sem nú eru tekin upp, veiti a. m. k. meira öryggi en þau sem voru í eldri samningi. Hitt er aftur vafasamara, hvort þetta skilar meira skattgjaldi en hið fyrra eða hversu mikið það nemur. Það kemur kannske fram við frekari athugun á málinu. En það hefur sem sagt komið í ljós að miklir ágallar voru á eldri samningi varðandi skattgreiðslu þessa fyrirtækis, því að það var knúið fram á sínum tíma að fyrirtækið átti ekki að greiða skatta á hliðstæðan hátt og íslensk fyrirtæki verða að gera, heldur var búið til ákveðið skattgjald fyrir þessa verksmiðju sem auðvitað þýddi miklu mun lægri skattgreiðslu en önnur fyrirtæki í landinu verða yfirleitt að greiða þegar allt er tekið saman. En svo hafa komið í ljós ágallar á þessum samningi, þannig að þegar verksmiðjan er rekin með halla, þá er þessi skattgreiðsla harla lítil. Þá kemur það einkennilega fyrirbæri upp, að þó að verksmiðjan sé skyldug að greiða ákveðið framleiðslugjald, þá reiknast það ekki á annan veg en sem beinn skattur. Fyrirtækið myndar ákveðna innistæðu á skattinneignarreikningi, og eins og fram kemur í grg. þessa frv. standa málin þannig nú að þessi reikningur er með innistæðu verksmiðjunnar upp á hvorki meira né minna en 664 millj. ísl. kr. Nú verður sem sagt að semja um þessa innistæðu álfélagsins sem það á inni á þessum skattinneignarreikningi, 660 millj. kr. Þeir hafa sem sagt ekki verið að borga það, sem þeir hafa greitt að undanförnu í framleiðslugjald, sem raunverulegan skatt. Það er miklu frekar að þeir hafi í þessum efnum verið að lána okkur peninga. Nú þarf að semja um þetta eins og hvert annað lán, og nú er gert ráð fyrir að þeir eigi að fara að fá vaxtagreiðslu af þessu fé og eigi að greiða þeim vexti jafnháa þeim sem bandaríski seðlabankinn tekur á hverjum tíma af þessari upphæð.

Þarna hefur sem sagt komið í ljós annar mikill ágalli á samningunum við álfélagið. Það er ekki aðeins að samið hafi verið á mjög óhagkvæman hátt um raforkusölu til fyrirtækisins, íslendingum stórlega í óhag, og það hafi rekið nauðir til að reyna að fá breytingar fram á þeim samningi, heldur kemur einnig í ljós að ákvæði í samningunum um skattgreiðslu fyrirtækisins voru stórkostlega gölluð og nauðsynlegt að fá fram breytingar á þeim líka. Það hefur verið reynt að koma fram þessum breytingum og eins og ég segi, eflaust hefur þar orðið nokkur árangur, þannig að það er a. m. k. um nokkuð meira öryggi að ræða varðandi þessar skattgreiðslur. Menn vita nokkru betur hvað er greitt sem raunverulegt skattgjald og hvað þá í öðru formi. En ég hef ekki enn þá gert mér fyllilega grein fyrir því hvað miklar raunverulegar efnislegar breytingar eru frá fyrra fyrirkomulagi eða varðandi heildargreiðsluna.

En þessar tvær breytingar, sem unnið hefur verið að því að fá, á raforkusölusamningnum og skattgjaldssamningnum, hafa ekki fengist fram nema með því að fallast á ákveðna kosti af hálfu álfélagsins. Og álfélagið hefur sett þau skilyrði, að til þess að álfélagið féllist á þessar breytingar yrðu þeir að fá leyfi til þess að mega stækka verksmiðjuna sem nemur 10 700 tonna afköstum á ári eða í kringum sem nemur 1/7 af afköstum verksmiðjunnar og að Íslendingar skuldbindi sig til að selja verksmiðjunni 20 mw, af raforku á ári umfram það sem nú er, að vísu þannig að 8 mw. af þessum 20 teljast forgangsorka, en 12 teljast afgangsorka. Ég tel ekki að það skipti ýkjamiklu máli, eins og fyrirkomulag er á þessum hlutum, hvað þetta er kallað því að útkoman mun yfirleitt verða ein og hin sama hjá okkur. Þó að slík tilfelli geti að vísu komið upp að þetta geti gagnað okkar hagsmunum, þá mun það víst ekki verða oft.

Nú lá það alveg augljóst fyrir að ef gengið yrði í að selja þessu fyrirtæki meiri raforku en eldri raforkusamningurinn fjallaði um, þá höfum við íslendingar trompin á okkar hendi, þá gátum við sett kosti. Auðvitað átti aldrei að koma til mála að selja þessa viðbótarorku án þess hún væri seld á hæsta verði eða því verði sem við getum með eðlilegum hætti reiknað okkur fyrir orku í dag. Það hvíldi ekki á okkur nein skylda í þessum efnum. En mér sýnist að fyrirtækið hafi sloppið í gegn með það í sambandi við alla þessa endur skoðun að fá einnig þetta viðbótarrafmagn fyrir mjög lágt verð. Að vísu er því haldið fram í grg. þessa frv. að þessi 8 mw. af 20, sem teljast forgangsorka, séu raunverulega, þegar á allt sé lítið, seld á verðinu í kringum 10 mill eða fjórföldu gamla grunnverðinu sem samið var um við fyrirtækið. En það er nokkurn veginn sama verð og miðað var við í samningunum við járnblendiverksmiðjuna á forgangsorku. Og það var talið og kom skýrt fram í grg. þess frv. á sínum tíma, að það verð á forgangsorku lægi algjörlega við strikið í sambandi við framleiðslukostnað eins og nú er komið. Það var það, sem lá fyrir við afgreiðslu málsins í sambandi við járnblendiverksmiðjuna, miðað við þann stofnkostnað, sem þá var gengið út frá í sambandi við virkjanir og í sambandi við líftíma þessara virkjana um 40 ár, þá væri raunverulegt verð á forgangsorku á þeim tíma talið í kringum 91/2–10 mill. Var því alveg sýnilegt að þetta verð var aðeins framleiðslukostnaðarverð, en fjarri því að vera verð eins og nú er almennt orðið á orku í heiminum. En álfélagið hefur, að mér sýnist, knúið það fram, um leið og það féllst á endurskoðun á nýjum orkusölusamningi og á skattgjaldssamningi, að fá þarna viðbótarorku frá íslendingum fyrir tiltölulega mjög lágt verð.

Nú er þess að gæta að þarna er um það að ræða að aðeins 8 mw. af 20 eru á þessu verði, 10 mill. sem forgangsorka, en hin 12 eru kölluð afgangsorka og seld á sáralágu verði, eins og menn kannast við frá þeim tíma þegar slík orkusala var rædd hér í sambandi við samninginn við járnblendiverksmiðjuna. Ég er ekki í neinum vafa um að þessi 20 mw. verða yfirleitt afgreidd og þá er meðaltalsverðið fyrir þau langt undir framleiðslukostnaðarverði, þá er það orðið lágt verð. En það væri aðeins í þeim tilfellum, að við seldum þeim aðeins 8 mw. og hin 12 létum við þeim í té aðeins þegar hagstætt væri fyrir akkur, að hægt væri að beita svona reikningum, en að öðru leyti ekki.

Mér sýnist því við þá athugun sem ég hef gert á þessu máli að álfélagið hafi tryggt sér á nýjan leik hagstæðan orkukaupasamning á 20 mw. og knúið fram heimild til stækkunar á verksmiðjunni. Að vísu höfum við fengið nokkuð í aðra hönd með leiðréttingu á gamla orkusölusamningnum og kannske nokkuð betri ákvæðum varðandi skattgjaldið. En þegar allt er tekið saman er hér um litla breytingu að ræða nema þegar menn setja dæmið upp á þann veg, sem ég neita fyrir mitt .leyti að gera, að það sé fundinn peningur ef við getum selt einhverjum t. d. 20 mw. fyrir hvað sem er. En ég tel að þannig getum við ekki reiknað. Við verðum að verðleggja hvert mw. úr okkar virkjunum á réttlátan og eðlilegan hátt af því að við höfum nóg við rafmagnið að gera sjálfir. En eins og ég sagði í upphafi míns máls, þá tel ég eðlilegt að upplýsingar fáist um þetta í þeirri n. sem fær málið til meðferðar, og gefst þá væntanlega tími til að ræða málið nánar þegar það kemur úr n. aftur. Fáist það fram, sem ég vil vænta, að það verði ekki reynt að knýja þetta mál í gegnum þingið á þessum fáu starfsdögum fyrir jól, heldur verði látið bíða með endanlega afgreiðslu þess þar til eftir jólafrí, þá á að gefast nægur tími til þess að menn fái að sjá hvað hér er um að vera í raun og veru.

En það eru miklu fleiri atriði, sem koma upp í sambandi við þetta mál, heldur en aðeins það efnahagslega sem ég hef rætt hér um. Ég er á þeirri skoðun eins og áður að við hefðum ekki átt að heimila stækkun á þessari verksmiðju, þarna sé nóg komið, og ég álít að við hefðum ekki átt að selja, eins og nú standa sakir, meiri orku til þessa fyrirtækis og allra síst á óhagstæðu verði eða verði sem er raunverulega langt undir orkuverði dagsins í dag. En það er fleira sem fram kemur í sambandi við þetta fyrirtæki. Þessi verksmiðja er rekin þannig að engin hreinsunartæki hafa verið sett upp við verksmiðjuna, eftir því sem best er vitað. Ég held þó að það séu rúm 2 ár, sennilega 2 1/2 ár, ef ekki meira, síðan var birt hér almennt í blöðum að sett hafi verið skilyrði af hálfu stjórnvalda um að hreinsitæki yrðu sett upp í þessari verksmiðju. En því hefur alltaf verið frestað með einhverjum hætti og enn þá bólar lítið á þessum tækjum. Það er hins vegar fremur vaxandi en hitt að kvartað sé undan mengun frá verksmiðjunni, og öll höfum við séð að hún er þó nokkur. Hversu skaðsamleg sem hún er, um það skal ég ekkert um segja. En það er auðvitað full ástæða til þess að fá einnig í sambandi við nýja samningsgerð við þetta félag upplýsingar um hvernig þau mál standa og hverju má treysta um framkvæmdir í þessum efnum.

Hitt tel ég að hafi komið greinilega fram á þeim reynslutíma sem við höfum fengið, að þetta fyrirtæki hefur engan veginn uppfyllt það sem hæstv. iðnrh. minntist hér á að hefði verið tilætlunin með byggingu þessarar verksmiðju og samningum við þetta félag, að það ætti að skjóta einhverjum styrkari stoðum undir efnahagslíf þjóðarinnar. Það er síður en svo að það hafi orðið. Það er rétt að hjá þessu fyrirtæki hafa unnið þetta frá 400–500 íslendingar, eða rúmlega 500 stundum, og að sjálfsögðu hefur félagið goldið þessum mönnum allgott kaup, það er rétt. En við höfum líka ráðstafað þessu vinnuafli okkar til þessara aðila. Við höfum að sjálfsögðu fengið gjaldeyri fyrir vinnulaun þessara aðila, á svipaðan hátt og við höfum fengið gjaldeyri fyrir vinnulaun þeirra sem starfað hafa suður á Keflavíkurflugvelli. En því fer hins vegar víðs fjarri, ef það mál er athugað nánar, að sú ráðstöfun á okkar vinnuafli, að ráðstafa 500 manns í þessa verksmiðju, skili þegar allt er saman talið, eitthvað svipuðum verðmætum í okkar þjóðarbú og við fáum fyrir jafnmikið vinnuafl sem við ráðstöfum í okkar almennu atvinnuvegi. Þar verður eftir í íslenska þjóðarbúskapnum miklum mun meira en það sem við fáum fyrir hin beinu laun þessa fólks. Það er því enginn sérstakur vinningur fyrir okkur, að ráðstafa þessu vinnuafli til verksmiðjunnar nema um það væri að ræða að við hefðum ekki vinnu handa öllum.

En að öðru leyti þá hefur þetta fyrirtæki síður en svo hjálpað okkur á efnahagssviðinu. Við höfum frekar lagt fyrirtækinu allan tímann fjármuni í sambandi við raforkusöluna. Félagið hefur ekki goldið fyrir raforkuna jafnmikið og við höfum þurft að greiða aftur út fyrir þá virkjun og þá orkuflutningslínu og spennistöðvar sem við urðum að leggja út í vegna þessarar orkusölu. Við skulum ekki gleyma því að þetta fyrirtæki tekur hvorki meira né minna en 2/3 eða kannske aðeins meira en það — 2/3 af allri orkuframleiðslu Búrfellsvirkjunar. Búrfellsvirkjun hefur kostað mikið og það þarf að standa undir afborgunum og vöxtum af því fyrirtæki og þeim miklu línum sem við höfum þurft að leggja og reyndar umframmannvirkjum til viðbótar sem við höfum þurft að ráðast í vegna Búrfellsvirkjunar, til þess að tryggja rekstur þeirrar virkjunar. Við höfum því ekki að mínum dómi fengið neinn efnahagslegan stuðning af tilkomu þessa fyrirtækis hér í okkar atvinnulífi, síður en svo.

Herra forseti. Ég skal þá ljúka máli mínu að þessu sinni. Ég sem sagt vænti þess að málið fái eðlilega afgreiðslu í n. — það verði ekki reynt að knýja það í gegnum Alþ. á mjög knöppum starfstíma þess nú fyrir jól — og þannig gefist eðlilegur tími til umr. um þetta mikilvæga mál.