12.12.1975
Efri deild: 25. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1140 í B-deild Alþingistíðinda. (811)

Umræður utan dagskrár

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Það hefur áreiðanlega vakið undrun margra að heyra að upp skyldi vera tekin af hæstv. utanrrh. á erlendum vettvangi talan 65 þús. tonn. Hann hafði lýst því í ræðu hér að hún væri raunverulega dregin til baka. Eftir atburðina, sem skeðu í gær, ætti það að liggja nokkuð ljóst fyrir — ég held að ég meti það ekki skakkt eftir viðbrögðum manna og ályktunum, einnig á aðalfundi LÍÚ að það er enginn minnsti möguleiki á neinum samningum við breta — ekki vottur. Það er ekki neinn grundvöllur til að nefna neina tölu í því sambandi. Þeir hafa tapað veiðimöguleika á þorski í okkar fiskveiðilögsögu. Það á að vera á hreinu.

En ég tók eftir öðrum atburði í gær sem ég veit ekki hvort hv. þm. hafa áttað sig á og ég ætla að nefna hér. Í ræðu hæstv. sjútvrh. koma skyndilega fram valkostir á að haga sér á vissan hátt við veiðar við Ísland. Reyna á nú, tölulega á pappírnum a. m. k., að auka þorskinn með því að finna út frá fyrri skýrslu, þessari margumræddri svörtu skýrslu, einhverja möguleika til að við sækjum mun meiri þorsk en við höfum reiknað áður með. Ég fór að hugleiða þetta. Ég vona bara að ég hafi rangt fyrir mér í því efni. En það á alls ekki að vera að leggja neitt svona fram til þess að gylla fyrir einhverjum erlendum aðilum aukna möguleika á að taka þorsk hér við Ísland. Þeir eru ekki fyrir hendi, og það er engin vísindamennska að pressa hafrannsóknastofnunina til að fara að gefa út nýjar skýrslur ofan á hinar fyrri um nýja möguleika og kalla þá möguleika númer 2 og 3. Það eru ekki nokkur vinnubrögð og mjög alvarlegir atburðir, því að bretar sjá þetta. Þetta er komið á prent í dag. Þeir sjá þetta. Það eru ekki 230 þús. tonn af þorski núna sem allt í einu er farið að miða við, það er snarhækkandi tala. Hvar er okkar vísindamennska? Hvar er gildi þeirra skýrslna sem við höfum fengið í hendurnar áður þegar svona er lagt á borðið? Þetta tel ég alvarlega hluti sem hljóta að draga dilk á eftir sér. Ég vara við svona hugmyndum eins og ástandið er í dag. Ef þjóðin á að standa saman og Alþ. að baki hæstv. ríkisstjórnar, eins og við höfum mikla löngun til að geta gert, þá á að hætta öllum svona vangaveltum, tilkynna bretum að það sé liðinn tími að þeir geti veitt þorsk við Ísland. En við getum tekið til athugunar eitthvað annað ef þeir vilja sækja í aðra fiska, það má taka það til athugunar. En þorsk er enginn minnsti möguleiki að hugsa um framar. Þá stendur þjóðin að baki við ríkisstj. heil og óskipt. Að öðrum kosti verða hér átök milli landsmanna, það er augljóst mál, fer ekki á milli mála.

Að síðustu vil ég undirstrika þetta: Ég hef sjálfur hlustað á þýskar stöðvar þegar þeir voru að semja hér, þjóðverjarnir, og ég heyrði fréttir frá Þýskalandi áður en við fengum nokkuð að vita hér á Íslandi. Og það sama er að ske enn í dag varðandi atburði hérna við Ísland, í landhelgismálinn. Við verðum að gera og ég beini þeirri ósk til hæstv. dómsmrh. að gera sérstakt átak til þess að tryggja sannar og góðar fréttir og þeim komið út meðal íslendinga og erlendra fjölmiðla sem allra fyrst og best. Okkur ríður mjög á því að við séum jafnfætis óhróðri breta í því efni og förum ekki halloka á því sviði, það er afar mikilvægt. En mér skilst á blaðamönnum og öðrum sem fylgjast með að hér vanti mikið á að við stöndum nægilega vel í ístaðinu.