12.12.1975
Efri deild: 25. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1154 í B-deild Alþingistíðinda. (826)

100. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 2. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það er aðalefni þessa frv. að fasteignamat við eignarskattsálagningu sé hækkað og að hækkunin sé í nokkru samræmi við þá miklu hækkun á fasteignamatsverði sem orðið hefur síðan fasteignamat var ákveðið fyrir nokkrum árum. Við, sem höfum orðið í minni hl. í þessari n. og skilum sérstöku áliti á þskj. 161, hv. þm. Jón Árm. Héðinsson og ég, við erum ekki ósamþykkir því að matsverð fasteigna til eignarskattsálagningar sé hækkað nokkuð. Við teljum að það sé sjálfsögð og eðlileg breyting og raunar óhjákvæmileg ef þessi skattstofn eigi að haldast. En hitt er ljóst, að þetta er ekki nema helmingurinn af málinu.

Hinn hluti málsins er sá, hvernig hagað skuli lágmarksupphæðum og álagningarprósentum. Í þeim einum eru þrjár leiðir hugsanlegar. Í fyrsta lagi er hugsanlegt að halda lágmarksupphæðum hliðstæðum og þær hafa verið og þar með um leið prósentustigum, Ef þetta væri gert mundi lágmarksupphæðin hækka úr 1 millj. í 2.7 millj. kr., þannig að enginn skattur væri lagður á nettóeignir undir þeirri upphæð, með sama hætti og hingað til hefur ekki verið lagður skattur á nettóeignir undir 1 millj. meðan fasteignamatið var óbreytt.

Önnur leiðin, sem hugsanleg væri, er sú að lágmarksupphæðin væri hækkuð í 2.7 millj., en jafnframt væri prósentuhlutföllunum breytt með þeirri afleiðingu að skatturinn hækkaði hlutfallslega á miklar eignir.

Þriðja leiðin er sú sem valin er í frv., þ. e. sú að hafa prósenturnar óbreyttar, en að lækka lágmarksupphæðina minna en nemur hækkun fasteignamatsins.

Munurinn á þessum þremur leiðum er sá, að ef fyrsta leiðin er valin og allt er hækkað í sama hlutfalli, fasteignamatið er hækkað um 2.7, lágmarksupphæðin er hækkuð um 2.7 og prósenturnar eru óbreyttar, þá má segja að skatturinn gangi jafn nærri fólki og hann hefur áður gert hlutfallslega, þannig að hann gangi í öllu falli ekki nær því fólki, sem litlar og smáar eignir á, og það lendi ekki í skatti umfram það sem áður hefur verið. Önnur leiðin, sem ég nefndi, er hins vegar sú, eins og ég sagði, að hækka lágmarksupphæðina í 2.7 millj. og hækka svo prósentutölurnar sérstaklega. Sú leið mundi væntanlega vera erfiðust fyrir stóreignamenn og sú leið væri að sjálfsögðu sanngjörnust og eðlilegust að minni hyggju. Ég tel hins vegar að ríkisstj, og stjórnarmeirihl. hafi við undirbúning þessa máls valið verstu leiðina af þremur hugsanlegum leiðum, því að hann velur þá leið að það er ekki hækkað sérstaklega á stóreignamönnum, prósentutalan er sú sama og áður var þar. Að vísu kemur hækkun hjá þeim af völdum hækkunar fasteignamatsins, en innbyrðis eru hlutföllin óbreytt. En það er greinilegt á öllu að með því að hækka fasteignamatið miklu meira en nemur hækkun lágmarksupphæðarinnar er gengið miklu nær því fólki sem litlar eignir á, og má því segja að þetta sé sérlega íþyngjandi fyrir venjulega íbúðareigendur sem hafa komið sér upp þaki yfir höfuðið og eiga þar nokkra eign, en skulda jafnframt í henni töluvert, þannig að þar kemur fram ákveðinn mismunur. Það er einmitt þetta fólk sem fer verst út úr þessari breytingu og þessu erum við algerlega mótfallnir. Við teljum sem sagt eðlilegast að upphæðirnar í frv. séu hækkaðar allar jafnmikið eða í sama hlutfalli, séu margfaldaðar með 2.7 og við getum ekki fallist á þá röksemd að þetta sé afsakanlegt vegna þess að hér sé aðeins um hluta eignar að ræða, þ. e. a. s. bara fasteignirnar, en aðrar eignir séu þarna undanskildar.

Það er út af fyrir sig rétt að hér er ekki bara um að ræða skatt á fasteignir. Hér er um að ræða skatt á allar eignir. Það mundi þá oft vera svo að um væri að ræða heimilisbíla og ýmislegt annað sem teldist til eigna hjá fólki. En staðreyndin er auðvitað sú að fasteignirnar eru langsamlega stærsti parturinn af þessum eignum og alveg sérstaklega hjá þeim hópi fólks sem er með einhvers staðar í kringum 2 millj. kr. nettóeign, og þar af leiðandi skiptir hinn þátturinn ákaflega litlu máli.

Við höfum leyft okkur að flytja brtt. í samræmi við afstöðu okkar, brtt. á þskj. 161, sem felur í sér að lágmarksupphæðin hækki í 2.7 millj. kr. Við viljum sem sagt með þessu varna því að tiltölulega smáar fasteignir verði skattlagðar með tilkomu þessa frv. frekar en áður hefur verið, og við leggjum á þetta sérstaka áherslu, vegna þess að við vitum að þetta er ekki eini skatturinn sem lagður er á slíkar fasteignir. Fasteignaskattur til sveitarfélaga er talsverður. Hann er brúttóskattur og leggst með fullum þunga á smáar fasteignir. Það er því afar óréttmætt að fara að bæta þessari íþyngingu við.

Ég vil sem sagt undirstrika þessa afstöðu okkar, að við erum ekki mótfallnir því aðalefni frv. að matsverð fasteigna verði hækkað. Við hefðum talið eðlilegra og vel hugsanlegt að styðja þá breytingu að hækkuð hefði verið sérstaklega prósentan á eignum sem væru talsvert miklar og gætu talist stóreignir í þess orðs merkingu. En við erum algerlega mótfallnir því að samþykkja frv. sem felur í sér sérstakra hækkun skattgjalds á eignum sem allir hljóta að vera sammála um að eru smáeignir í þjóðfélagi okkar.