12.12.1975
Efri deild: 25. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1156 í B-deild Alþingistíðinda. (828)

100. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Halldór Ásgrímsson) :

Herra forseti. Frsm. tveggja nál, í minni hl. hafa talað hér fyrir máli sínu. Hv. þm. Albert Guðmundsson telur að það beri að leggja eignarskatt niður, gjaldþol fólks þoli ekki slíkar álögur nú og hér sé nánast um eignaupptöku að ræða.

Það hefur alltaf verið létt í öllum þjóðfélögum að vera á móti sköttum og slíkt á alltaf miklu fylgi að fagna. Það er sjálfsagt með eignarskatta eins og aðra skatta að það er í sjálfu sér mjög auðvelt að vera mótfallinn þeim. En menn verða þá að gera sér grein fyrir því að það þarf að fella niður á móti annaðhvort einhverja félagslega þjónustu, sem ríkið býður, og einhvers staðar hlýtur það að koma við eða þá að taka upp nýja skatta í staðinn.

Eignarskattar eru í flestum löndum í dag og það er með þá eins og marga aðra skatta víða að þeir hafa verið teknir upp upphaflega á erfiðum tímum, í flestum tilfellum á stríðstímum, þegar erfiðleikar hafa verið í viðkomandi þjóðfélögum. En eins og eignarskattur er skilgreindur í dag getum við sagt að eignarskattur sé fyrst og fremst viðbótarskattur við tekjuskatt, sem sagt skattur á þær tekjur sem af eignum koma í einu eða öðru formi. Það er léttara að vinna fyrir og afla slíkra tekna sem koma af eignum, og tekjur án vinnu stafa undantekningarlítið af eignum manna. Hins vegar er það oft svo að aðilar með sömu tekjur og eiga jafnvel eignir, sem bera lítinn eða engan arð, þurfa að greiða eignarskatt. Því verður ekki mótmælt að eignir veita ákveðið öryggi, efnahags öryggi, sem aðrir þurfa að tryggja sér annaðhvort með sparnaði eða ákveðnum tryggingum. Þetta er staðreynd. Og þeir, sem eiga eignir, hljóta að hafa meira öryggi og meira gjaldþol.

Ég ætla mér ekki að gera mikinn ágreining út af því sem hv. þm. Ragnar Arnalds sagði hér. Það, sem hann leggur hér til, er í sjálfu sér minni háttar breyting, þ. e. a. s. hækka lágmarkið um 700 þús., sem mundi þá þýða hjá allflestum aðilum um 4 200 kr. á ári ef farið væri upp fyrir þetta mark, þ. e. a. s. 0.6% af 700 þús. En ég get ekki séð að þótt fasteignamat sé hækkað, þá eigi lágmarkið að hækka samsvarandi. Það er ekkert sem segir að slíkt skuli gerast. Þetta er náttúrlega háð samsetningu eignanna og því ekki neitt sjálfsagt mál að lágmarkið hækki í samræmi við hækkun fasteignamatsins. Hann gat þess að það væri ekki hækkað mest á stóreignamönnum og þetta væri sérlega íþyngjandi fyrir þá sem minni eignir hafa. Það vill nú svo til að stóreignamenn eru yfirleitt menn sem eiga fasteignir og það verðmætar fasteignir og slíkar fasteignir eru yfirleitt í háu fasteignamati. Ef þetta fasteignamat er margfaldað upp hlýtur slík hækkun sem þessi að koma mest við þá. Algengasta fasteignamat á því, sem við getum kallað meðalibúðir í landinu, er, eftir því sem ég hef best séð, án þess að ég hafi rannsakað það sérstaklega, einhvers staðar á bilinu 800 þús. til 1200 þús., sem þýðir það að slík fasteign er eftir slíka margföldun einhvers staðar á bilinu kannske 2.2–2.3 mill.j. til 3 millj., þ. e. a. s. þær fasteignir sem fólk flest býr í. Þær breytingar, sem hér verða, verða sennilega ekki í mörgum tilfellum mjög íþyngjandi á þetta fólk. En ég held að það sé staðreynd og það sé rétt, — sem ég hef enga ástæðu til þess að rengja, það sem fulltrúar Þjóðhagsstofnunar tjáðu okkur og lögðu fyrir okkur eftir að hafa athugað þetta mál, — að gjaldendum fjölgar ekki. Ég sé ekki ástæðu til að rengja það. En það mun koma í ljós eftir að næsta ár er liðið hvort svo verður. En þeir töldu það ekki. Hitt er rétt, að það koma ýmsir gjaldendur inn, en aðrir falla út, og það tóku þeir skýrt fram.

Varðandi eldra fólkið er það að segja að þetta er visst vandamál. Ég hef ekki trú á því að eldra fólk, sem býr í tiltölulega litlum íbúðum, verði fyrir mikilli skattheimtu í þessu tilfelli. Hitt er svo annað mál, að það getur skapað erfiðleika fyrir það eldra fólk sem býr í mjög stórum eignum og býr kannske þar eitt. Það getur skapað vissa erfiðleika þar sem fasteignamat er afskaplega hátt. En það er ekki heimild til þess í lögum, svo að ég viti til, að fella niður eignarskatt á gömlu fólki. Það kom til greina við skattkerfisbreytinguna á s. l. ári að hinn svokallaði neikvæði tekjuskattur gengi fyrst til að greiða eignarskatt. Það var fallið frá því vegna þess að það var talið óeðlilegt að t. d. stóreignarmenn með miklar eignir, en litlar tekjur fengju greiddan eignarskattinn sinn af ríkinu.

Það er sem sagt mín skoðun að þetta sé ekki mjög íþyngjandi fyrir eldra fólk sem býr í tiltölulega litlum íbúðum og meðalíbúðum. En fyrir eldra fólk, sem á mjög stórar og verðmætar eignir, getur þetta þýtt allnokkra hækkun. En þá er náttúrlega annað mál, að ef þetta eru mjög verðmætar eignir, þá er þar í nokkrum tilfellum um að ræða eldra fólk sem mætti kannske í sumum tilfellum kalla stóreignafólk, jafnvel þótt fólkið sé gamalt.