12.12.1975
Efri deild: 25. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1160 í B-deild Alþingistíðinda. (831)

100. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði raunar ekki ætlað mér að taka til máls um þetta frv., geri það raunar að vingjarnlegri beiðni míns gamla kunningja, hv. þm. Alberts Guðmundssonar.

Ég man eftir því fyrir mörgum árum að ég hugleiddi í alvöru möguleika ú því að koma saman í einu leikriti nokkrum persónum úr aðskildum verkum. En jafnvel í minni villtustu fantasíu hefði það ekki hvarflað að mér að reyna að búa til eina og sömu persónu úr Hróa Hetti og Shylock. Ég hef ekki treyst mér til þess. Hv. þm. Albert Guðmundsson hefur í raun og veru — við skulum láta hann njóta sannmælis — a. m. k. annan hvern dag stigið í þennan ræðustól beinlínis í því skyni að verja hina fátæku og smáu fyrir þeim ríku. Það er ekki hægt með öðrum hætti, hv. þm., en að taka frá þeim, sem mikið eiga, eins og Hrói höttur gerði, og fá þeim, sem við neyðina búa og skortir, eins og Hrói höttur gerði. En svo kemur hv. þm. áðan og lýsir yfir því að hann sé kominn hingað upp til þess að verja stóreignamennina, til þess að koma í veg fyrir að frá þeim sé tekið einmitt til þess að hjálpa gamla fólkinu í litlu íbúðunum sem skreppur inn í fasteignaskattinn núna vegna þess að fasteignamatið verður hækkað. Það er alveg hárrétt sem hv. þm. sagði, að gamla fólkið, sem lifir nú af ellilaunum, slíkum sem þau eru orðin við tilkomu hæstv. núv. ríkisstj. þetta gamla fólk í litlu íbúðunum, sem metnar verða nú til stóreignaskatts, er fæst aflögufært um hækkuð gjöld. Og ég er alveg viss um það að hv. þm. mælti í alveg fullkominni einlægni þegar hann vakti athygli á þessu því að jafnvel þessi andartök, sem hann stóð hér í ræðustóli, var Hróinn í skapgerð hans einmitt kominn með kverkatak ú Shylockinn og hann var að skipta um persónuleika aftur. Honum er þetta einlægni. Það er hagur einmitt litla fólksins, fátæka fólksins í litlu íbúðunum, sem þessi hv. þm. ber fyrir brjósti. En samt hefur hann brjóstheilindi í sér til þess að standa hér uppi og segja að hann sé að verja stóreignafólkið. Ástæðan fyrir því, hv. þm., einmitt ástæðan fyrir því, að gamla fólkið í litlu íbúðunum getur ekki bætt á sig hækkuðum gjöldum til samfélags, er sú hvað verslunin tappar það hraustlega, hvað vöruverðið er hátt, hvað af þessu fólki er tekið að öðru leyti og ástæða nr. 2 er sú, að nú er við völd í þessu landi ríkisstj. sem hefur skert kjör þess.

Ég vona innilega að þessi togstreita tveggja persónuleika um sál hv. þm. leiði ekki til geðklofa áður en lýkur.