20.10.1975
Neðri deild: 8. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í B-deild Alþingistíðinda. (84)

Símakallkerfi Alþingis

Forseti (Ragnhildur Helgadóttir):

Ég vil vekja sérstaka athygli á þeim tækjum, sem hv. þm. hafa séð hér niðri í anddyri þinghússins, og hvetja menn til að reyna notkun þeirra strax í dag. Það er ætlunin með þessum tækjabúnaði að létta og einfalda störf þm. og starfsliðs þingsins, en á það þykir mér ástæða til að minnast vegna þess að ég hef orðið þess vör, að það er eins og þm. stafi nokkur ógn af þessum nýju tækjum. Það er að sjálfsögðu mannlegt að óttast hið ókunna, en ég vona að við nánari kynni af þessum tæknibúnaði muni hv. þm. sjá að það hefur verið vel ráðið að taka í þjónustu Alþ. nútímatækni sem fólgin er í þessu.

Ástæðan til þess, að forsetar Alþ. ákváðu að reyna þessa leið, er sú, að vegna þröngra húsakynna hér í gamla þinghúsinu eru starfsstöðvar þinghússins nú dreifðar í fjórum húsum. Búnaður sem þessi hefur verið notaður á Íslandi um árabil, aðallega á ýmsum vinnustöðum þar sem mikil víðátta er eða starfað er í mörgum húsum. Er á sjúkrahúsunum talsverð reynsla af slíkum tækjum. Þetta kerfi hefur þá nýjung fram yfir þau, sem áður hafa verið notuð hér á landi, að hægt er að koma skilaboðum frá símaborði til þm. um þetta tæki.

Ég vil vekja athygli á því, eins og hv. þdm. hafa tekið eftir, að á hlið tækisins er örlítill svartur takki. Ef stutt er á þennan takka eftir að hljóðmerki hafa heyrst í tækinu, þá geta menn borið tækið upp að eyranu og heyrt þá skilaboðin. En það er ekki hægt að svara í tækið.

Ég vil einnig vekja athygli á því, að ef mönnum þykja hljóðmerkin í tækjunum of sterk, þá er ekki annað en gera aðvart frammi í símaklefanum, þá er hægt að lækka hljóðmerkin í tækinu að vild hvers og eins. En þess ber að gæta að þá lækkar einnig tónninn í skilaboðinu eða hljóðið í skilaboðunum. (Gripið fram í.) Ég veit ekki hvort ég á að upplýsa það, að í minnispunktum sem ég fékk frá tæknimönnum er tekið fram að tækin skuli höfð í brjóstvösum jakka, annaðhvort utan eða innan á. En mér finnst ástæða til að bæta því við vegna þeirra hv. þm. sem ekki klæðast jakkafötum, að það er mjög auðvelt að festa tækið með klemmu á handtösku og hafa það á þann hátt einhvers staðar nálægt sér.

Ég held það séu ekki fleiri atriði sem ástæða er til að taka fram meðan á tilraunanotkun þessara tækja stendur, nema þá að það er mjög áriðandi, þegar þingstörfum dagsins er hætt, að skilja tækin eftir niðri í fatageymslunni hér. Einnig má skilja þau eftir í anddyri annarra húsa þingsins og þá koma sendlar þeim niður í borðið hér í fatageymslunni. Ástæðan er sú, að tækin hlaða sig þá yfir nóttina og verða tilbúin til notkunar næsta dag.

Ef um er að ræða kvartanir og annað sem við kemur þessum tækjum, þá er þess óskað að þær séu skrifaðar á miða og þeim skilað til símastúlkunnar. Svo verða eftir nokkra daga enn þá nánari leiðbeiningar vélritaðar og afhentar öllum þm.