12.12.1975
Neðri deild: 28. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1164 í B-deild Alþingistíðinda. (844)

Umræður utan dagskrár

Gils Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Í fréttum Ríkisútvarpsins í gærkvöldi, fyrst kl. 14 og síðan kl. 11.30, var skýrt frá ummælum hæstv. utanrrh. sem vakið hafa nokkra furðu. Þar var sagt frá blaðamannafundi sem hæstv. utanrrh. hélt í Brüssel í gærdag eftir viðræðufund hans og utanrrh. breta. Sérstaklega var tekið fram í fréttinni að á fundinum hefðu verið milli 100 og 150 fréttamenn víðs vegar að úr Evrópu og raunar úr öllum heimi.

Ég hef hjá fréttastofu Ríkisútvarpsins aflað mér þeirra ummæla sem hér skipta máli, eins og þau voru orðuð í fréttinni. Þar segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Hann (þ. e. hæstv. utanrrh. Einar Ágústsson) sagði að íslendingar væru ekki til viðræðu um meiri hámarksafla handa bretum en 65 þús. lestir.“

Í hádegisútvarpi núna áðan var flutt viðtal sem Jón Hákon Magnússon fréttamaður átti í gær í Brüssel við hæstv. utanrrh. Einar Ágústsson. Í þessu viðtali rifjar ráðh. það upp að bretum hafi áður verið boðinn 65 þús. tonna ársafli, en það boð hafi raunar verið afturkallað. Síðan í beinu framhaldi af talinu um 65 þús. tonna boðið segir hæstv. utanrrh.:

„Ég er ákaflega svartsýnn á það að almenningsálitið heima telji að við séum aflögufærir um meiri þorsk.“

Í tilefni þessara ummæla vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh.: Hefur ríkisstj. Íslands nú þegar ákveðið að endurnýja tilboðið til breta um 65 þús. lesta veiði á ári? Hefur hæstv. utanrrh. umboð ríkisstj. til að gera slíkt tilboð eða til að gefa í skyn að samið kunni að verða á þessum grundvelli? Sé svarið nei, eins og ég vona, hvernig er þá hægt að skýra hin endurteknu ummæli hæstv. utanrrh.? Ég hygg að þau verði naumast skilin á aðra lund en þá, að hann sé í rauninni að endurnýja 05 þús. lesta tilboðið sem þó var búið að lýsa yfir af þeim hæstv. ráðh. og ég held fleiri ráðh. að gilti ekki lengur.

Atburðir gærdagsins eru öllum í fersku minni. Íslendingar allir eiga varla nógu sterk orð til að fordæma framferði breta eins og það var í gær. Flestir hefðu, hygg ég, búist við því að a. m. k. þann dag yrði bretum svarað með öðrum hætti en þeim að gefa undir fótinn um að endurnýjað yrði samningstilboð um 65 þús. tonna veiðiheimildir í íslenskri lögsögu. Ég vænti þess að hæstv. forsrh. sjái sér fært að skýra frá því ótvírætt, að ríkisstj. hafi hvorki endurnýjað né ætli að endurnýja þetta tilboð til breta um 65 þús. tonna veiðiheimildir innan íslenskrar fiskveiðilögsögu.